c

Pistlar:

10. mars 2015 kl. 21:09

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Fimm leiðir til að styrkja ónæmiskerfið

hvitlaukur.jpgMargir þjást þessa dagana af flensu eða flensulíkum sjúkdómseinkennum. Þeir sem enn hafa sloppið – og reyndar líka þeir sem eru veikir – ættu að kynna sér þessar fimm einföldu leiðir til að styrkja heilsuna og efla ónæmiskerfið.

1-Borðaðu hvítlauk
Í hvítlauk eru náttúruleg bakteríudrepandi efni. Hann er öflugur og hjálpar líkamanum að losa sig við óvelkomnar bakteríur. Virkni hans er mest ef hann er borðaður hrár. Hjartasérfræðingurinn Alejandro Junger, höfundur bókarinnar HREINT MATARÆÐI, ráðleggur fólki sem finnst erfitt að borða hann einan sér, að skera tvær sneiðar af epli og setja hvítlauksrif á milli og borða hvítlaukinn þannig. Það má gjarnan merja rifið aðeins, t.d. með flötu hnífsblaði áður en það er sett á milli eplasneiðanna. Svo má líka bæta hráu hvítlauksrifi út í salatsósuna eða í morgunhristinginn.

2-Taktu inn C-vítamín
C-vítamín er öflugt andoxunarefni og styrkir ónæmiskerfið. Það er þekkt fyrir að draga úr alvarlegum einkennum hins almenna kvefs, svo jafnvel þótt þú hafir þegar fengið kvef, er gott að taka inn C-vítamín. Yfir myrkustu mánuði ársins tek ég daglega inn eitt (eða fleiri) þúsund milligramma C-vítamín hylki frá Solaray. Mark Moyad, MD, MPH, við Michigan háskólann segir: “Því meira sem við rannsökum C-vítamín, þeim mun betur skiljum við hversu margþættu hlutverki það gegnir í að vernda heilsuna og styrkir varnir okkar gegn hjarta- og æðasjúkdómum, ýmsum krabbameinum, heilablóðfalli, augnsjúkdómum og leiða þannig til langlífis.”

3-Fáðu nægan svefn og hafðu stjórn á streitunni
Þegar þú fórnar svefntímanum og ert undir miklu streituálagi ertu að veikja ónæmiskerfi líkamans og getu hans til að verjast kvefi og flensum. Það er ekki tilviljun að fólk veikist í kringum próf, stór verkefni í vinnunni eða rétt eftir jólahátíðina, þegar mikil óregla kemst oft á svefninn. Settu virka hvíld í fyrsta sæti, eins og til dæmis uppbyggjandi jóga, öndunaræfingar, hugleiðslu eða gönguferðir – eða annað sem hentar þér best – og leggðu þig fram um að ná 7-8 tíma nætursvefni.

4-Notaðu nóg af engifer
Engifer dregur úr bólgum og sársauka, auk þess sem veiruhamlandi áhrif hans hjálpa til við að styrkja ónæmiskerfi líkamans. Engifer hefur líka góð, hitaaukandi áhrif á líkamann á köldum vetrarmánuðum og losar um slímmyndun – og svo er engifer góður fyrir meltinguna.

5-Hættu að borða sykur
Láttu þann sykur sem þú neytir koma úr ferskum ávöxtum og sætu rótargrænmeti, frekar en sælgæti, kexi og gosdrykkjum. Sykur veikir ónæmiskerfið og veldur bólgum í líkamanum. Hann er því ekki góður ef þú vilt losna við vírusa eða bakteríur.

Heimildir: HÉR og úr bókinni HREINT MATARÆÐI eftir hjartasérfræðinginn Alejandro Junger.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira