c

Pistlar:

14. mars 2015 kl. 13:07

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Erum við fædd með sjálfseyðingarhvata?

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort við séum öll fædd með einhvern sjálfseyðingarhvata í líkama okkar, sem gerir það að verkum að við gerum hluti sem skaða heilsu okkur, þótt við vitum af skaðseminni. Ýmsar rannsóknir, svo og staðreyndir sem birtast í veikindum og andláti fólks, segja okkur að reykingar séu skaðlegar. Samt reykir fólk ennþá.

Umfjöllun um skaðsemi sykurs hefur verið mikil undanfarin ár og aukist ár frá ári. Ýmsar rannsóknir hafa verið stundaðar á skaðsemi hans, svo og maíssírópi (corn syrup) sem talið er vera ennþá meira ávanabindandi en sykur. Samt höldum við áfram að borða matvöru með sykri eða sælgæti og gosdrykki sem eru sætt með þessum efnum. Heilsuvörurnar eru þar engin undantekning, því eins og alltaf eru ýmsir sem vilja læða sér inn á þann markað og eru þá ekki alltaf að vanda innihaldið. Séu vörurnar seldar í heilsuvöruverlsun halda margir að þeir þurfi ekki að lesa innihaldslýsinguna – þar með talin ég sjálf. Ég hef stundum í blindni treyst því að vörur frá ákveðnum vörumerkjum séu hvorki sættar með sykri né maíssírópi, en komist svo að því eftir líkamlega vanlíðan að staðreyndin er önnur.

Falinn vandi
Ég held að sykurfíkninn sé afar falinn vandi. Sjálf hef ég haldið fjölda námskeiða þar sem ég kenni fólki leiðir til að takast á við hana, en betur má ef duga skal. Fólk á öllum aldri veit af þessari fíkn sinni en ræður ekki við að takast á við hana á eigin spýtur, ekki frekar en fólk ræður við áfengisfíknina. Hægt er að sjá einkenni sykurfíknar á fólki á öllum aldri, allt frá litlum börnum og upp í gamalt fólk. Þegar fólk verður eldra koma þau oft skýrar fram og þá með líkamlegri einkennum eins og uppþembu, hægðatregðu, bakflæði, höfuðverkjum, ýmsum magavandamálum og húðútbrotum.

Í vikunni sneri sér að mér kona þar sem ég beið á bílaverkstæði eftir að bíllinn minn yrði tilbúinn. Hún spurði hvort ég væri nokkur með námskeið á næstunni fyrir þá sem þjást af sykurfíkn. Hún sagðist alveg vera að gefast upp á eigin sykurneyslu og að henni liði eins og hamstri í hjóli, sem ekki væri hægt að stoppa. Ég kannaðist vel við þá tilfinningu, enda sjálf upplifað hana.

Margir fleiri eru þarna staddir í eigin sjálfseyðingu, svo ég velti enn og aftur fyrir mér hvort þessi hvati sé hluti af líkamsgerð okkar, til að hindra að við lifum endalaust. Staðreyndin er hins vegar sú að sykurfíkn er lífsstílssjúkdómur, eins og svo margir aðrir sjúkdómar og það þarf að koma á fót meðferðaráætlun fyrir þennan hóp eins og aðra sem háðir eru fíknum. Þegar fólk losnar undan þeirri fíkn aukast lífsgæðin til muna og þótt við lifum ekki endalaust, ætti fólk að eiga val um að fá stuðning til að losna úr viðjum hennar

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira