c

Pistlar:

17. mars 2015 kl. 22:33

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Súrsæt sósa með kjúklingnum

Meðan ég var á HREINU MATARÆÐI í október á síðasta ári eldaði ég dásamlegan kjúklingarétt, sem hefur haldið sínu vinsældasæti síðan þá. Einn hlut vantaði inn í uppskriftina, en það er kókossíróp eða kókosnektar, eins og það er líka kallað, svo ég notaði steviu í staðinn í nokkra mánuði. Kókossírópið er eitt af þessum náttúrulegu sætuefnum, sem veldur ekki ruglingi á blóðsykri og nú er fæst kókossíróp orðið í heilsuvörubúðum. Um helgina eldaði ég kjúklingaréttinn og notaði nektarinn út í súrsætu sósuna og hún var hreint úr sagt dásamleg.

Hef áður birt þessa uppskrift í pistli en deili henni nú aftur. Þetta er heilsusamlegur réttur, en svo bragðgóður að það er ekkert mál að elda hann fyrir alla fjölskylduna.

Kjúklingabringur með súrsætri sósu

1/3 bolli blanda af villtum (wild rice) hrísgrjón

½ bolli brún jasmín hrísgrjón

kókosolía til eldunar (hún fæst í heilsuvöruverslunum)

2 litlar bein- og skinnlausar kjúklingabringur, skornar í ferninga

1 lítill laukur, smátt saxaður

½ mangó, skorið í ferninga

safi úr hálfri sítrónu

1 matskeið lífrænt hrísgrjónaedik

1 matskeið kókossíróp (stundum kallað kókosnektar)

salt og pipar eftir smekk

góð klípa af sterkum piparflögum (má sleppa)

¼ bolli fersk steinselja, smátt söxuð

Leiðbeiningar:
Látið grjónin liggja í bleyti í köldu vatni í a.m.k. klukkustund fyrir suðu. Skolið þau síðan með því að hella þeim í sigti og láta vatn renna yfir þau smá stund. Hrísgrjón eru nefnilega súr fæða, sem þau verða basísk ef þau eru látin liggja í bleyti fyrir suðu. Setjið grjónin í pott ásamt 2 bollum af köldu vatni og ½ teskeið af salti. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið sjóða í u.þ.b. 50 mínútur eða þar til allt vatnið er soðið upp.

Þegar suðutíminn er rétt hálfnaður er gott að byrja að skera bringurnar í litla bita. Hitið pönnu á miðlungshita og bræðið kókosolíu á henni. Þegar olían er orðin heit, setjið þá kjúklingabitana á pönnuna, kryddið með salti og pipar og steikið þá á annarri hlið í 5 mínútur og snúið svo til að steikja hina hliðina. Bætið lauk út á pönnuna og látið steikjast í 2-3 mínútur eða þar til hann er aðeins brúnn. Bætið þá magnó, sítrónusafa, ediki, sterkum piparflögum og kókóssykrinum og blandið vel saman. Bætið hrísgrjónum í blönduna á pönnunni, svo og saxaðri steinselju. Berið strax fram.

 

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira