c

Pistlar:

7. apríl 2015 kl. 16:41

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Er Sorpa að klikka?

graennapril-profilemynd-01_1257655.jpgÉg hef flokkað sorp í meira en 20 ár og þótt heimilishald mitt sé ekki umfangsmikið í dag, er ótrúlega mikið sem hægt er að flokka og skila í þar til gerðar tunnur við eigin hús - eða í gáma á Endurvinnslustöðvum Sorpu - eða það hélt ég að minnsta kosti þar til helgina fyrir páska.

Þá tók ég mig til og fór með allt það sem ég hafði flokkað í nokkra mánuði eins og glerflöskur og krukkur, rafhlöður, plastílát, gróðurmold, skrifstofupappír og dagblöð, en pappírnum kom ég ekki í bláu tunnurnar heima hjá mér, því einhver nýfluttur í húsið hafði fyllt þær af pappakössum, þótt það standi skírt og greinilega fyrir ofan tunnurnar að slíkt eigi ekki að gera.

Ég hef oft farið um helgar í Endurvinnslustöðvar Sorpu með sorp til flokkunar og alltaf furðað mig á því að þegar mest virðist vera að gera þar, eru gámarnir yfirleitt fleytifullir. Þessi helgi var engin undantekning, því plastgámurinn var til dæmis alveg smekkfullur. Ég leitaði til starfsmanns og spurði hvert ég ætti þá að fara með plastið. Hann sagði mér að fara upp á ramp eitt, sem ég og gerði. Þar var annar starfsmaður og ég spurði hann hvar hægt væri að skila af sér plastílátum, þar sem merkti gámurinn væri alveg fullur. Hann sagði: "Settu það bara í pressuna!"

"Pressan" er gámur sem merktur er fyrir blandaðan heimilisúrgang (alla vega sú hlið sem sneri að mér). Ofan í gámnum var ýmislegt, sem ekki var plast og því augljóst að það plast sem ég hafði samviskusamlega flokkað myndi fara með öllu þessu rusli til urðunar í Álfsnesi, svo ég ákvað að fara heim með plastið í þeirri von að næst þegar ég kæmi væri plastgámurinn ekki fullur og þá yrði plastið endurunnið, en ekki pressað.

Eitthvað er ekki rétt í flokkunarkerfi Sorpu ef þeir klikka svona, bæði á því að tæma gámana um helgar og eins á því að starfsmenn gefi svona leiðbeiningar - eða endar allt rusl í sama haug hjá þeim? Það væri gott að fá upplýsingar um það og kannski endurbætur á þessu einmitt nú í GRÆNUM APRÍL, sem myndu að sjálfsögðu líka gilda aðra mánuði ársins. Við erum mörg sem viljum vera grænni - en endastöð sorpsins þarf líka að vera það.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira