c

Pistlar:

22. apríl 2015 kl. 7:42

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

45 ár frá fyrsta DEGI JARÐAR

elskumjordina_1258793.jpgÁ þeim tíma þegar hvorki var hægt að nota tölvupósta, Facebook né Twitter, tókst Gaylord Nelson, þáverandi þingmanni Wisconsin ríkis á Bandaríkjaþingi, að virkja meira en 20 milljón manns til að mæta á fjöldafundi til að mótmæla mengun og umhverfisslysum. Þetta var 22. apríl árið 1970 á hátindi hippatímans, mótmæli gegn Vietnam stríðinu voru algeng, en lítill fókus var á umhverfismálin fyrr en þennan dag. Sama ár og þetta gerðist gáfu Bítlarnir út síðustu plötu sína og Simon og Garfunkel gáfu út plötuna “Bridge Over Troubled Water”.

Kveikjan að þessu átaki Nelsons var mikið olíuslys sem varð við Santa Barbara í Kaliforníu árið 1969. Átakið vakti það mikla athygli að ári síðar undirritaði U Thant, þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, yfirlýsingu sem tilnefndi 22. apríl sem alþjóðlegan DAG JARÐAR. Þrátt fyrir góðan ásetning hafa á þessum 45 árum orðið mörg umhverfisslys víða um heim, svo þótt grunnur hafi verið lagður að umhverfisvendarhreyfingu nútímans árið 1970 má betur gera ef duga skal.

Þótt ekki hafi verið mikið um viðburði hér á landi í tengslum við DAG JARÐAR hef ég sjálf gert eitthvað eftirminnilegt á þessum degi frá árinu 1990. Þá átti ég og rak verslunina Betra Líf og auglýsti sérstaklega að á DEGI JARÐAR byði ég upp á margar bækur um umhverfismál. Enginn virtist láta sig daginn nokkru skipta og bækurnar seldust ekki. Það varð samt ekki til að slá á eldmóð minn og þegar ég í samvinnu við nokkra aðra hrinti af stað átakinu GRÆNN APRÍL fyrir fimm árum síðan lagði ég strax áherslu á að eitthvað sérstakt yrði gert á þessum degi fyrir umhverfið.

Það einfaldasta og það sem flestir gátu sameinast um var verkefnið “einn svartur ruslapoki”. Það tókst sérlega vel í fyrsta sinn þegar Maríanna Friðjónsdóttir, sem þá var í verkefnisstjórn GRÆNS APRÍL, fékk þessa snilldarhugmynd árið 2012. Í ár leggur GRÆNN APRÍL til að þetta verkefni verði á oddinum á DEGI JARÐAR – og ef fólk hefur ekki tími í dag, þá á morgun þegar flestir eiga frí. Póstið svo endilega myndum inn á Facebook síðu GRÆNS APRÍL.

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira