c

Pistlar:

8. apríl 2016 kl. 18:36

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Grái herinn að yfirtaka heiminn

Íbúar heims verða sífellt eldri, þótt víða sé ekki vel að þeim búið og þeir örvænti margir, eins og nýlegar tölur um sjálfsvíg eldri borgara hér á landi gefa til kynna. Kannski er kominn tími á að endurmeta hvað felst í því að verða gamall, því ljóst er að þeir sem eru 67 ára og eldri í dag, eru margir hverjir í mun betra líkamlegu ástandi en kynslóðin á undan var og geta því verið mun virkari þátttakendur í lífinu lengur.

Ljóst er að margir hafa áhuga á að vera bæði heilbrigðari og líta betur út en aldurinn gefur til kynna, enda blómstrar andöldrunarmarkaðurinn um allan heim, hvort sem er í næringarefnum og húðvörum, hreyfingu eða mataræði. Þar með er fólk að taka meiri ábyrgð á eigin heilsu og stuðla að betri lífsgæðum.

Í nýlegri grein á CNSNews.com, kom fram að einhvern tímann á næstu fjórum árum verði hlutfalla þeirra jarðarbúa sem eru 65 ára og eldri hærra, en þeirra sem eru 5 ára og yngri. Þessar upplýsingar eru í nýrri skýrslu frá Manntalsskrifstofu Bandríkjanna. Samkvæmt skýrslunni sem kallast Aldurshniginn heimur, er þetta í fyrsta sinn í sögu mannkyns sem fólk 65 ára og eldra verður fjölmennara en börn undir 5 ára aldri. Gera má ráð fyrir að þessi breyting eigi sér stað fyrir árið 2020. Þaðan í frá munu þessir aldurshópar halda áfram að vaxa hvor frá öðrum. Þegar kemur að árinu 2050 verður hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri 15,6%, eða tvöfalt hærra en barna undir 5 ára aldri, sem verða bara 7,2%.

ELSTU LÖND Í HEIMI
Í skýrslunni er líka fjallað um 25 elstu lönd eða svæði heims. Það hlutfall byggir á fjölda þeirra sem voru 65 ára og eldri árið 2015. Elstu íbúarnir eru í Japan, en meðal hinna 24 landanna eru 22 Evrópulönd, svo og Kanada og Puerto Rico. Yngstu íbúa heims er að finna í löndunum við Persaflóa. Hlutfall íbúa sem eru 65 ára og eldri er hæst í Japan eða 26,6% en lægst í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eða um 1%.

Í öðru sæti er Þýskaland, en þar er hlutfall 65 ára og eldri 26,6% af íbúum landsins. Ítalía er í þriðja sæti með 21,5% íbúa eldri en 65 ára og Grikkland í því fjórða með 20,5%. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að frá því nú og fram til ársins 2050 muni fjöldi þeirra sem eru 65 ára og eldri tvöfaldast, á meðan nánast enginn fjölgun verður í aldurshópnum 20 ára og yngri. Á sama tíma mun einungis fjölga um 25,6% í þeim aldurshópi sem í skýrslunni er kallaður “vinnandi aldurshópurinn”, þ.e. þeir sem eru 20-64 ára gamlir.

HLUTFALLIÐ HÆKKAR HRATT
Samkvæmt skýrslunni er áætlað að af þeim 7,3 milljörðum jarðarbúa séu um 8,5% eða 617,1 milljón íbúa nú 65 ára og eldri. Gert er ráð fyrir að á næstu 15 árum, eða árið 2030, verði um 1 milljarður af mannfjölda heims í þessum aldurshópi, eða 12% jarðarbúa.

Hlutfall þeirra sem eldri eru heldur áfram að aukast næstu 20 ár þar á eftir, svo að árið 2050 er gert ráð fyrir að þeir verði 16,7% jarðarbúa eða um 1,6 milljarður, en þá er áætlað að heildaríbúafjöldi jarðarbúa verði kominn í 9,4 milljarða. Það samsvarar því að í þessum aldursflokki fjölgi um 27,1 milljón á ári frá árinu 2015 til ársins 2050. Þvert á þessa 150% aukningu jarðarbúa í aldurshópnum 65+ næstu 35 árin, er áætlað að nánast enginn aukning verði meðal yngstu íbúa jarðar, þ.e. 20 ára og yngri. Í þeim aldurshópi voru um 2,5 milljarðar árið 2015 og verða 2,6 milljarðar árið 2050.

Ein helsta ástæða þess að eldri jarðarbúum fjölgar er minni frjósemi. Þar sem frjósemi er mikil er yfirleitt fleira ungt fólk, en þar sem frjósemin er minni verður samfélagið eldra. Í mörgum löndum hefur heildarfrjósemin fallið niður fyrir 2,1 barn, þ.e. þann fjölda sem þarf til að viðhalda stofninum. Alls staðar í heiminum er þessi tala fyrir neðan endurnýjunarmörk, nema í Afríku.

HVER SÉR UM ÞÁ ÖLDRUÐU
Í þróuðum löndum í Evrópu, þar sem frjósemi fór að dragast saman fyrir meira en 100 árum er meðaltalið nú 1,6 barn. Í Bandaríkjunum eru 14,9% íbúanna nú 65 ára og eldri, en gert er ráð fyrir að þeir verði 22,1% árið 2050.

Sú hefð hefur þróast að börnin veiti hinum öldruðu aðstoð, einkum þegar einungis annað forerldrið er á lífi. Víða um heim hefur dregið það mikið úr barneignum, að margt eldra fólk er barnlaust. Spurningin er því hver á að veita þessu fólki aðstoð? Á hvaða stuðningsnet getur það treyst og hver á þátttaka ríkisins í þeirri umönnun að vera?

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira