c

Pistlar:

11. september 2016 kl. 9:48

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Ég bý í 101

Ég bý tímabundið í 101. Fékk íbúð vinar míns lánaða í nokkra mánuði meðan ég bíð eftir mínu húsnæði. Ég bý í Skuggahverfinu, þó ekki í Darth Vader turnunum, sem eru þarna í nánu sambýli við höfuðstöðvar hans, Seðlabankann, heldur í einum af þessum lágreistari húsum, sem sjá ekki lengur til sjávar fyrir turnunum.

Í gönguferðum um hverfið hef ég komist að raun um að í tveimur af hverjum þremur, kannski fleiri húsum, er gisting. Annað hvort AirBnB, gistiheimili eða hótel. Víða er verið að rífa gömul hús, brjóta upp klöppina sem kennd er við Klapparstíginn og byggja ný háhýsi sem væntanlega eiga að verða hótel.

HLJÓÐ BORGARINNAR HAFA BREYST
Ég flutti úr 101 árið 1981 og margt hefur breyst síðan þá. Flestir sem ég mæti ef ég fer út að ganga eru útlendingar, því þeir eru mun fleiri á svæðinu en landinn. Ef ég bregð mér á veitingahús er það sama sagan. Alls staðar óma tungumál víða að úr heiminum og ég þarf að gæta mín að ganga ekki inn í myndir sem fólk er að taka af ótrúlegustu hlutum, sem við sem hér búum lítum á sem hluta af umhverfinu og myndum aldrei taka mynd af. Sú mynd er bara límd í huga okkar.

Auk allra þessara tungumála eru komin önnur ný hljóð. Það er skröltið frá ferðatöskum sem dregnar eru eftir gagnstéttunum og hljóðið frá þyrlum sem fljúga útsýnisflug yfir borgina. Þegar ég bjó síðast í 101, þýddu þyrluhljóð að einhvers staðar hefði orðið slys.

BÍLASTÆÐIN
Bílastæðin í þessum borgarhluta eru alveg sérmál. Þar sem ég er ekki með lögheimili hér er ég ekki með íbúaleyfi til að leggja frítt á svæðinu. Ég slæst því við erlenda ferðamenn jafnt og heimamenn um þau fáu stæði sem eru frí á þessu svæði. Sé ég svo heppin að ná einu slíku, passa ég mig á því að fara ekki að nauðsynjalausu í burtu á virkum degi nema þá gangandi. Nú skil ég af hverju þeir sem í þessum borgarhluta búa vilja aukna hljólamenningu. Þeir vilja ekki missa af stæðinu sínu, ef þeir hafa náð að leggja nálægt heimili sínu. Stundum er maður nefnilega ekki svo heppinn. En miðbæjarfólkið skilur hins vegar ekki að hið sama á ekki við um þá sem búa í úthverfunum.

Ég er með leggja.is appið og man yfirleitt eftir því að skrá mig í stæði, þegar ég legg bílnum. Hins vegar hefur því brugðið við að ég gleymi að skrá mig úr stæði og vakna við vondan draum þegar ég um sjöleytið að kvöldi fær sms frá leggja.is um að bíllinn hafi verið skráður sjálfkrafa úr stæði – með tilheyrandi kostnaði fyrir bílastæði, sem var ekki nýtt allan daginn. Bíð því spennt eftir að geta flutt í úthverfi aftur.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira