c

Pistlar:

20. september 2017 kl. 9:05

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Mikilvægt fyrir þarmaflóruna

Kenningar Hippocratesar fyrir tæpum 2500 árum voru þær að ef þarmaflóran væri í lagi, væri heilsa líkamans í lagi. Þessar kenningar hans hafa í gegnum tíðina verið mismikið virtar, en nýjustu rannsóknir framsækinna erlendra lækna sýna að ónæmiskerfi líkamans er í raun á finna í þörmunum. Þess vegna er svo mikilvægt að halda góðu jafnvægi á þarmaflórunni og tryggja góða samsetningu á þeim örverum sem þar búa og gegna mikilvægu hlutverki í starfsemi líkamans.

Maturinn skiptir þar meginmáli og þar sem mataræði í hinum Vestræna heimi hefur breyst svo mikið undanfarna áratugi, skiptir líka máli að taka inn góðgerla til að styðja við og styrkja þarmaflóruna. Samsetning hennar riðlast af ýmsum ástæðum eins og sýklalyfjanotkun, annarri lyfjanotkun, of mikilli neyslu á skyndibitamat eða mikið unninni fæðu og streitu. Síðasta þáttinn skyldi síst vanmeta.

GÓÐGERLAR Í STAÐ SÚRMETIS
Maðurinn hefur frá örófi alda haldið ákveðnu jafnvægi á þarmaflóru sinni með því að neyta súrmetis, en í því voru gerlar sem studdu við og héldu jafnvægi á þarmaflórunni. Súrmeti sést hins vegar varla lengur í verslunum nema þá helst á Þorranum. Þá heyrist líka gjarnan að það sé allt í lagi að borða Þorramat, svo framarlega sem hann sé ekki súr.

Þörfin fyrir eitthvað í staðinn fyrir súrmetið hefur leitt til þess að framleiddir eru góðgerla (probiotics), sem hægt er að taka inn daglega til að koma á jafnvægi í gerlaflóru þarmanna og viðhalda henni svo, því lítið þarf til að það jafnvægi riðlist. Rangar bakteríur á röngum stað geta valdið skaða, en réttar bakteríur á réttum stað geta hins vegar gert mikið gagn.

Góðgerlar (probiotics) eru örverur sem stuðla að betri þarmaflóru, en þá má finna í fæðu eins og hreinni jógúrt, súrkáli, miso og sumum sojadrykkjum, auk þess sem þeim hefur verið bætt í ýmsar fæðutegundir. Einnig er hægt að fá góðgerla sem fæðubótarefni í hylkjum. Til eru margir tegundir góðgerla, en algengastir eru Lactobacillus og Bifidobacterium.

BETRI HEILASTARFSEMI
Finna má greinar í læknatímaritum sem fjalla um þann ávinning sem líkaminn hlýtur af notkun góðgerla og rannsóknir hafa sýnt að auk þess að koma jafnvægi á gerlaflóru þarmanna, geta þeir stuðlað að betri heilastarfsemi, lækkað slæma kólesterólið og lækkað háþrýsting, auk þess að koma jafnvægi á ýmsar meltingartruflanir.

Einnig er talað um að góðgerlar vinni gegn síþreytu og psoriasis, en náttúrulæknar telja til dæmis almennt að psoriasis og aðrir húðsjúkdómar séu tengdir meltingarvandamálum og lélegri gerlaflóru í þörmum hjá fólki.

GÓÐGERLAR HAFA ÁHRIF Á LÍKAMSÞYNGDINA
Í bók sinni HREINT MATARÆÐI talar hjartasérfræðingurinn Alejandro Junger um mikilvægi þess að hreinsa ristilinn vel og endurnýja svo flóruna með góðgerlum, til að byggja upp nýja og öflugri þarmaflóru. Hann segir hana ekki bara hafa áhrif á betri meltingu, heldur draga úr fæðuofnæmi og efla ónæmiskerfið – en jafnframt að heilbrigð þarmaflóða skipti miklu máli ef við viljum halda meðalþyngd á líkamanum. Innan læknisfræðinnar eru ýmsir sem telja að það hafi meiri áhrif á þyngdartap að hafa nægt magn af góðgerlum í þörmunum en að hætta að borða kolvetni.

GÓÐGERLAR Í MISMUNANDI STYRKLEIKA
Hægt er að fá góðgerla í mismunandi styrkleika og frá mismunandi framleiðendum. Undanfarin ár hef ég notað góðgerla frá NOW, sem hafa skilað mér mjög góðum árangri.

Frá NOW er hægt að velja um öfluga samsetningu nokkurra mismunandi gerlastofna, með 25, 50 eða 100 billjón gerlum sem henta vel fyrir þá sem hafa verið með meltingarvandamál lengi, eru greindir með Crohn’s eða telja sig vera með candida sveppasýkingu eða glútenóþol. Samhliða góðu mataræði stuðla gerlarnir að styrkari þarmaveggjum stuðla að afeitrun líkamans.

Í þessum góðgerlum, svo og öðrum tegundum af góðgerlum frá NOW eru engar mjólkur- eða sojaafurðir og þeir eru glútenlausir. Flesta góðgerla er að finna í kælum stórmarkaða eða lyfjaverslana, en Gr8-Dophilus góðgerlarnir frá NOW og nokkrar aðrar tegundir tapa ekki virkni sinni, þótt þeir séu ekki geymdir í kæli.

Heimildir m.a.: Clean Program


 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira