c

Pistlar:

13. desember 2017 kl. 14:36

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Áttu í ástar- eða haturssambandi við jólin?

Margir bera í brjósti blendnar tilfinningar til jólanna, þessarar hátíðar ljóss og friðar, og það af ýmsum ástæðum.

Sumir elska jólin og allt það tilstand sem þeim tilheyrir. Hlakka til að hella sér út í smákökuát og borða yfir sig af góðum mat, því það er svo mikið í boði. Svo eru þeir sem kvíða fyrir jólunum, því þeir eru með fæðutengd vandamál og þurfa að forðast ýmislegt af því sem í boði er á þessum árstíma. Þeir beinlínis hræðast þessa hátíð, því þeir óttast að falla í freistni, lenda á sykurfylleríi eða borða eitthvað sem veitir þeim vanlíðan.  

Svo eru þeir sem eyða óspart og kaupa dýrar og flottar gjafir og sjá svo kannski eftir því öllu saman þegar kortareikningurinn mætir eftir áramótin. Aðrir taka jólin á meinlætalínunni, eru ekki með jólatré, skreyta lítið og kaupa engar eða fáar og frekar ódýrar gjafir.

Ýmsir tengja slæmar tilfinningalegar minningar við jólahátíðina og eiga erfitt með að sleppa tökum á þeim. Þeir endurtaka því í huga sínum áfallajólin aftur og aftur og láta gamlar minningar, sem þeir ættu fyrir löngu að vera búnir að vinna úr, aftra sér frá því að gleðjast og njóta hátíðarinnar í núinu.

MÁ FARA MILLIVEGINN

Ljóst er að hjá ýmsum er erfitt að forðast öfgana á hvorn veginn sem er, en hvað ef hægt væri að finna milliveg í þessu öllu saman? Njóta gleði- og friðarjóla, gefa gjafir og borða góðan mat, án þess að láta kostnaðinn setja okkur í margra mánaða skuldir eða sitja uppi með aukakíló og líkamlega vanlíðan fram á sumar?

Hér eru nokkrar hugmyndir að því hvernig takast má á við ýmislegt sem tengist hátíðinni sem framundan er, svo hægt sé að koma undan jólum heilbrigður og hamingjusamir og taka endurnærður á móti nýju ári.

FORÐASTU FULLKOMNUNARÁRÁTTUNA

Margir keppast við að hafa allt svo fullkomið um jólin að ýmislegt annað gleymist. Staðreyndin er hins vegar sú að það er vel hægt að njóta jólanna án þess að þrífa allt hátt og lágt, mála stofuna, skipta um húsgögn eða skreyta allt eins og í Bo Bedre eða Hús & Híbýli. Samverustundir með fjölskyldunni, föndur eða púsl með börnunum eða heimsóknir til einmana ættingja, færa okkur mun meiri gleði og hamingju en tiltektin – og eru oft miklu skemmtilegri.

Það er um að gera að velja jólagjafir á viðráðanlegu verði fyrir þig – ekki með viðmiði við einhverja aðra, vini þína eða vini barnanna. Vertu þakklát/-ur fyrir það sem þú átt og hefur og gerðu það besta úr því. Gott ímyndunarafl getur oft gert “úlfalda úr mýflugu”. Því er auðveldlega hægt að gera mikið úr litlu með fjölskyldunni á aðventunni og um jólahátíðina og búa þannig til ótrúlega flott innlegg í minningabankann, sem í felst mikill auður til frambúðar.

VERTU MEÐ PLAN

Ef þú ert að fylgja sérstöku mataræði er mikilvægt að vera með gott plan. Ef þú ert til dæmis að forðast mjólkur- eða glútenvörur skiptir máli að vera vel undirbúinn fyrir heimsóknir eða ferðir á kaffihús og hafa eitthvað í vasanum eða veskinu sem hægt er að draga upp þegar á hólminn er komið.

Skipuleggðu vel innkaupin fyrir jólin og veldu mat sem þú veist að fer vel með þig. Fórnaðu hefðunum fyrir heilsuna og ef vaninn hefur verið að borða eitthvað sérstakt, sem þér líður ekki vel af – veldu þá að búa til nýja hefð, með mat sem þú þolir. Útbúðu þitt eigið jólasælgæti (nóg af uppskriftum á netinu) eða kauptu þér dökkt súkkulaði eða hnetublöndu til að maula á. Það er engin skylda að borða ósköpin öll af sætindum bara af því það eru jól, svo það má líka alveg sleppa þeim.

Ef þú ferð út af “sporinu” og borðar eitthvað sem þú vanalega forðast, er mikilvægt að hella sér ekki út í ofneyslu. Slepptu því að refsa þér fyrir hliðarsporið. Hrósaðu þér frekar fyrir að hafa tekið eftir því og hvettu þig til að koma þér aftur inn á “sporið” næsta dag og standa betur með þér. Þetta er nákvæmlega það sem þú myndir gera ef það hefðu verið vinur þinn eða vinkona, sem hefðu tekið hliðarspor.

Ekki gleyma hreyfingunni um jólin. Góð gönguferð fyllir líkamann nýju og hressandi súrefni. Flestar líkamsræktarstöðvar eru líka opnar yfir jólahátíðina, svo það er hægt að mæta í föstu tímana sína.

ÞAKKAÐU FYRIR ALLT SEM ÞÚ HEFUR

Það er stórkostlegt að fylgjast með því sem fer að gerast, þegar við ákveðum að lifa í núinu og vera þakklát fyrir það sem við höfum. Alls konar tækifæri fara að streyma upp í hendurnar á manni.

Þegar þú hættir að beina sjónum að því sem þig vantar og ferð að meta það sem þú hefur, laðast fólk að jákvæðni þinni og þú ferð ósjálfrátt að laða til þín ýmsa stórkostlega hluti. Vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á að skjótasta leiðin að hamingjuríku og jákvæðu lífi, er í gegnum daglegt þakklæti.

Hljómar þetta of vel til að geta verið satt? Prófaðu það bara! Notaðu fyrstu fimm mínúturnar dag hvern til að telja upp allt það sem þú ert þakklát/-ur fyrir og þú munt fljótt komast að raun um hversu frábært líf þitt er. Enginn annar fær að njóta þeirrar ástar sem þú færð frá maka eða börnum, foreldrum eða vinum. Enginn annar fær að vakna í líkama þínum, fara á fætur, klæða sig og sjá heiminn frá þínu einstæða sjónarhorni.

Jákvætt viðhorf gefur þér tækifæri til að leggja til hliðar allar gamlar og erfiðar minningar tengdar jólum, þakka fyrir að fá að njóta þeirra einu sinni enn og þakka fyrir að allt það sem einkennir líf þitt núna og geri það einstakt.

Fylltu hjarta þitt því kærleiksljósi sem er táknrænt fyrir þennan tíma árs, dreifðu því til allra í kringum þig og njóttu jólanna á þinn hátt í þakklæti og gleði.

Guðrún Bergmann hefur haldið fyrirlestra og verið leiðbeinandi á ýmsum sjálfsræktarnámskeiðum í 28 ár. Hún er höfundur 17 bóka sem flestar fjalla um sjálfsrækt og náttúrulegar leiðir til betri heilsu. Nýjasta bók hennar heitir HREINN LÍFSSTÍLL. Guðrún hefur leiðbeint um 900 manns í gegnum HREINT MATARÆÐI hreinsikúrinn á tæpum þremur árum.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira