c

Pistlar:

14. júlí 2014 kl. 16:39

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Útilegumenn

ca901650c9a55bf319c6963ab920e211 

Þegar ég var krakki voru foreldar mínir duglegir að ferðast með okkur (mig og litla bróður, stóri bróðir var vaxinn upp úr fjölskylduferðalögum) um landið. Oftast var tjaldið með í för enda kostaði formúgu að ferðast um landið þá eins og nú. Ég minnist þessara ferða með mikilli gleði en það er einkum tvennt sem stendur upp úr.

 Efst á lista var að horfa á pabba gera atlögu að því að troða öllu útilegudraslinu í skottið á bílnum okkar. Pabbi átti yfirleitt ekki annað en BMW en á þessum tíma voru ekki komnir fram BMW jeppar. Þetta hefur því verið einhver lítil BMW týpa. Skottin voru frekar lítil og tjaldið var eitt af þessum alvöru tjöldum frá Seglagerðinni Ægi. Sumsé ekki lítið og nett. Því til viðbótar var borðstofusettið hennar mömmu eins og hann kallaði það (lítið útileguborð með 4 kollum), svefnpokar, teppi, dýnur, fatnaður fyrir alla, kæliboxið fyllt af heimagerðu nesti til margra daga, prímusinn o.s.frv. Það tók pabba yfirleitt nokkrar atrennur að koma þessu heim og saman með tilheyrandi bölvi. Þegar hann var búinn tróðum við systkinin okkur aftur í, og sátum umkringd því sem ekki hafði komist í skottið. Þetta var hin besta skemmtun því pirringur hans var óendanlegur og alltaf furðaði hann sig á því hversu mikið drasl þyrfti til að geta sofið úti í náttúrunni.

 Hin uppáhalds minningin tengist  í raun þessu sama nema á öðrum enda. Það var fastur liður í öllum útilegum að horfa á pabba fá kast yfir íslenskri veðráttu sem endaði þannig að hann reif allt stellið niður aftur, tróð í bílinn með formælingum og brunaði á næsta Eddu hótel. Þar tékkuðum við okkur inn og reyndum að þurrka tjaldbúnaðinn eftir bestu getu. Restin af mömmunestinu var borðaður þar inni og naut alls þess sem Eddu hótel um 1990 höfðu upp á bjóða. Setustofa með gömlu hálfvirkandi sjónvarpi og video tæki ef maður var extra heppinn. Oftar en ekki var líka lítil sjoppa í afgreiðslunni sem seldi rauðan opal og prins póló og einstaka sinnum með videóspólur. Sumsé yndislegur endir á ferðalögum fjölskyldunnar. Í það minnsta minnist ég þessa ferðalaga með hlýju, vona að pabbi sé kominn yfir útilegugremjuna.

 Afhverju er ég að rifja upp útileguferðir fjölskyldunnar? Jú. Ég varð gripin stundarbrjálæði um daginn í Costco. Gerist yfirleitt alltaf þegar ég fer þangað og ég kem út þónokkrum hundruðum dollurum fátækari en með einhverja hluti sem mér fannst ég verða að eignast. Í þetta sinn gengum við hjónin út með tjald, svefnpoka, kælibox og lukt. Ég er ekki þessi tjaldtýpa öllu jafna. Ég er meiri lúxuspadda en svo. En ég var að hugsa um stelpurnar mínar og hvernig þeirra minningabanki mun líta út á mínum aldri. Það gerði útslagið.

Ég dreif mig því í að bóka tjaldstæði fyrir liðið. Fyrir valinu varð þjóðgarður í Napa dal. Þær fá útilegu, ég fæ vínsmökkun. Hljómar sanngjarnt ekki satt? Nema nú eru farnar að renna á mig tvær grímur. Ég opinberaði áætlunina og nú hrúgast yfir mig upplýsingar sem hefðu komið sér betur daginn góða í Costco. Til dæmis er allt vaðandi í ráðum um hvað beri að varast í nágrenni við birni. Allir eru sammála um að geyma ekkert matarkyns í tjaldinu yfir nótt né í nágrenni við tjaldið. Einn segir að ég eigi að kaupa bjarnhelt matarbox, annar segir að ég eigi einfaldlega að pakka þessu öllu saman og geyma í bílnum yfir nótt og enn annar segir að birnir víli ekki fyrir sér að brjótast inn í bíla og því sé best að hengja matinn hátt fyrir ofan þar sem björninn og sléttuúlfarnir, þvottabirnirnir og allir hinir sem vilja éta mig út á gaddinn komist ekki að. Ókei. Misvísandi heimildir. Svo er það allur eiturgróðurinn sem finnst í náttúrunni hérna, poison ivy og poison oak og poison hitt og þetta. Ein saga sem ég fékk var um útilegu sem endaði með för á slysó þar sem eiginmaðurinn hafði fengið eitruðu olíuna yfir sig allan, meðtalinn sprellann á sér. Hér safnast saman allskonar ráð um hvernig best sé að varast þennan ósóma en ég er mjög áhyggjufull. Allir dómar sem ég hef lesið á netinu um tjaldstæðið sem við eigum bókað tala um að þessi eiturgróður sé allsstaðar og manni sé hollast að stíga ekki út í runna. Hefur fólk ekki farið í útilegu með börn? Síðan hvenær eru börn líkleg til að halda sig innan markanna sem þeim eru sett? Svona í alvöru? Svo koma þessir gemlingar og knúsa mig og maka þar með eitrinu yfir mig. Fokk!

 Og þetta er ekki það eina. Nei, bíllinn verður stappfullur af allskonar pödduverjum og gildrum og ég þarf líklega að pakka heilu apóteki með mér af kremum til að takast á við hitt og þetta og svo er það spurning um snáka sem eru hér út um allt og hvað um eitruðu köngulærnar?

 Ég myndi bakka út úr þessu og panta hótel fyrir okkur en stelpurnar höfðu veður af áætluninni og tala nú stanslaust um útilegur. Litla þriggja ára skottið spyr mig 10 sinnum á dag hvenær við förum. Og börnin er ekki hægt að svíkja. Þannig að nú ligg ég á internetinu í undirbúningi og upplýsingaöflun, þarf að gerast náttúrugreinir til að geta flokkað eiturplöntur og pöddur en björninn ætti ég að þekkja ef ég rekst á hann. Ef maður rekst á björn á maður víst að standa kjurr og gera mikinn hávaða. Dætur mínar eru góðar í helmingnum af þessu. Ætli þeir verði hræddir við tvær pílur á harðaspretti með mikil læti?

Það er þó huggun harmi gegn að við munum ekki lenda í vandræðum með að koma draslinu fyrir í bílnum eins og pabbi forðum daga, svona þar sem við eigum risavaxinn minivan a la America! 

 Ef það heyrist ekki frá mér aftur þá vitiði hvað kom fyrir mig. Étin af birni! 

björninn 


Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira