c

Pistlar:

11. september 2014 kl. 16:20

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Spegill, spegill herm þú mér!

beauty.jpg

Ég bý við götu sem heitir Montana og það er skemmst frá því að segja að hún er eins og mekka fegurðarinnar (eða útlitsdýrkunarinnar eins og ég kýs að kalla það). Á þessari götu ætti versta herfa að geta orðið að kvikmyndastjörnu ef marka má auglýsingaskilti þeirra og lausn að finnast á öllu sem gæti hugsanlega hrjáð mann útlitslega séð, hvort sem það er slæmt hár, slæm húð, ljótir hælar eða léleg melting, lausnin leynist á Montana. Hér er hægt að fá bótox í flest allt sem manni dettur í hug að bótoxa og fara í leyser andlitsbað, drekka kampavín meðan hárið er blásið og vaxa sig hárlausan eftir kúnstarinnar reglum. Sumir kjósa brasilískt vax en aðrir vaða í Evrópskt vax og ein stofan sérhæfir sig einvörðungu í að lita augnhár þeirra sem eru með draugsleg augnhár. Það er hægt að eyða formúgu í krem af ýmsum sortum sem lofa öllu fögru og skrapa á sér hæla og klippa naglabönd meðan þrjár konur reyna að nudda úr manni stressið sem allar þessar fegrunaraðgerðir kunna að valda manni. Það er hægt að hreinsa í sér innyflin með djúsum og sjeikum og teygja sig og toga í ótal jóga stúdíóum. Hárlaus, fílapenslalaus og peningalaus stendur maður uppi eftir daginn fullur af komplexum og efasemdum um útlitsleg vandamál sem maður vissi ekki að hrjáðu mann fyrr en að að hafa gengið eins og pílagrímur upp og niður götuna góðu.

kiehls_logo_400x400.jpg

Ég hef að mestu látið þetta sem vind um eyru þjóta, þennan fegurðaráróður en um daginn brustu varnirnar. Ég rak nefið inn í virta húðvöruverslun hér handan við hornið, Kiehls að nafni. Húðin mín hefur látið illa síðustu mánuði, kann illa við stöðugan svitataum undan hitanum og óhreinindin sem fylgja stórborginni. Ég hef lítið nennt að sinna því en var barnslaus og ákvað að sjá hvað ég gæti gert í þessu. Ég var eina fórnarlambið inni í versluninni og því gat konan í sjúkrasloppnum einbeitt sér að mér. Hún tróð mér í sæti og hóf svo að grandskoða húðina mína með bláum John Lennon gleraugum sem hún horfði annað hvort yfir eða gegnum á meðan hún prófaði olíumagn húðarinnar með strimlum af ýmsu tagi. Svo hófst yfirheyrslan. Hvað gerirðu við húðina á þér? Hvernig krem notarðu? En augnkrem? Greyið konan hafði aldrei lent í öðru eins tilfelli. Ég reyndi að "plead the fifth" eða neita að svara en hún gekk svo á mig að á endanum þurfti ég að viðurkenna allar mínar húðlegu syndir. Staðreyndin sú að ég hreinsa eiginlega aldrei á mér húðina, ef frá er talið vatnið sem rennur yfir hana í sturtunni og svo einstaka sinnum nota nota ég einhverja húðsápu í sturtunni. Ef ég mála mig vakna ég yfirleitt með maskara út á kinn daginn eftir því ég er orðinn of þreytt á kvöldin til að stumra yfir smettinu á mér. Konan góða missti andlitið og þurfti dágóða stund til að ná áttum. Ég þurfti að endurtaka þetta nokkrum sinnum og viðurkenna til viðbótar að enginn kornamaski væri heldur í spilinu. Þegar hún hafði náð andanum aftur fékk ég fyrirlestur um óhreinindi, fílapensla sem voru orðnir inngrónir og ýmislegt annað. Hún hótaði daglegum símhringingum ef ég stæði mig ekki í stykkinu með þrifin og sendi mig út með hreinsiefni og rakakrem og kornamaska. Auk þess fékk ég ótal prufur af töframeðulum og helst hefði ég átt að kaupa einhverjar túpur til viðbótar. Nú er liðin rétt um vika síðan og mínútunum við spegilinn með hreinsikittið fjölgar hægt og rólega. Ég hélt fyrstu dagana að ég hefði látið gabba mig enda lét húðin öllum illum látum undan meðferðinni, óvön svona ónæði. En núna er eins og það sé að komast jafnvægi á hana. Síðustu bólurnar að hverfa og ég er ekki frá því að ég sé allavegana einu ári yngri en ég var. Það er því ljóst að litlu ef einhverju var til logið um árangurinn og ég neyðist því til að éta hattinn minn. 

Skrímslið hefur verið vakið innra með mér. Nú ligg ég á netinu í upplýsingaleit um nýjasta æðið. Hver þarf megrunarkúr þegar hægt er að láta frysta fituna burt. Það virkaði á vörtuna þegar ég var krakki svo mögulega er hægt að frysta bumbuna burt?

Framhald síðar. 

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira