c

Pistlar:

30. mars 2015 kl. 17:26

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Hleyp rassinn úr buxunum!

IMG_6489Er eitthvað sem segir að maður sé í fantaformi eins og að stunda útihlaup? Ég hef alltaf dáðst að fólki sem hleypur, hvað þá á Íslandi í því veðravíti sem það er!

Útihlaup eru gríðarlega vinsæl hér í borg og auðvelt að skilja það. Það er alltaf sól og kjörhiti á morgnanna, um 15 -20 gráður. Vinsælasta hlaupaleiðin er að sjálfsögðu meðfram sjónnum á því sem þeir kalla "Boardwalk" og hægt að hlaupa hverfanna á milli eftir þessum fína stíg. Ég hef horft löngunaraugum á þetta fólk og óskað þess að ég væri í þannig formi að ég gæti hlaupið. Margt sem stendur í vegi mínum, áreynsluastmi sem lætur á sér kræla helst ef ég fæ flugur í höfuðið um hlaup, aukakílóin, en mest ég sjálf og sú staðreynd að ég hef talið mér trú um það að ég geti ekki hlaupið frá því ég var um það bil 8 ára. 

Svo kom þetta flotta myndband, "This Girl Can" eða "Þessi stelpa getur það" sýnt í vetur. Konur, af öllum stærðum og gerðum að stunda hinar ýmsu íþróttir. Og það var hressandi. Fyllti mig innblæstri. Það er nefninleg erfitt að vera feitur en vilja samt hreyfa sig og stunda íþróttir. Tískumerkin sem hanna íþróttafatnað hugsa flest um grannt fólk og hanna fötin á þau en láta sem við hin séum ekki til. Þegar við förum í líkamsræktarstöðvar þurfum við að óttast að einhverjir séu í illum tilgangi að taka vídeó af okkur, gera grín að því hvernig við lítum út þegar við hreyfum okkur. Dæma okkur. Ekki þægileg staða að vera í. Allavegana. Þetta myndband sýndi mér í eitt skipti fyrir öll hvað það er drullu flott að taka á því, sama hvernig maður lítur út.

Unknown-4Ég ákvað því að sigrast á ótta mínum og byrja að hlaupa. Ókei, skokka. Fékk mér þetta snilldar forrit í símann minn sem stuðlar að því að koma manni upp úr sófanum og í það að skokka 5 kílómetra. Dagur 1 var með þeim vandræðalegri get ég sagt ykkur. Planið er að hita sig upp með röskri göngu í 5 mínútur, svo er hlaupið í 60 sekúndur og gengið í 90 sekúndur til skiptis í 20 mínútur, í lokin er svo 5 mínútna ganga til að kæla sig niður. Hljómar einfalt, ekki satt? Og það hefði verið það. En ég var að takast á við það sem á enskunni er kallað "wardrobe malfunction". Klæðnaðurinn þennan daginn var bara ekki með mér í liði. Buxurnar reyndust, við þokkafullar hreyfingar mínar við hlaupin, ekki geta haldist uppi um mig. Voru í sífellu að renna niður lappir mínar. Þannig að þarna "hljóp" ég, með símann í einni hendi og heyrnartólin tengd þar við (Nauðsynlegt því þar var rafræn rödd sem sagði mér hvenær ég ætti að hlaupa og hvenær ég ætti að labba og þess á milli hvatti Beyoncé mig áfram) og svo notaði ég hina hendina til að reyna að halda brókunum uppi um mig. Djöfull vona ég að enginn hafi séð mig. Ég þrjóskaðist nú samt við og kláraði þennan fyrsta dag í takt við rafrænu röddina úr símanum. Kom rauð og sveitt heim en svo stolt.

This_Girl_CanSíðan þá er ég búin að fara þrisvar út til viðbótar en í buxum sem eru númeri minni og haldast svo gott sem uppi um mig án mikilla erfiðleika. Í gær þegar ég fór út að hlaupa komst ég á þann stað meira að segja að sæti gaurinn sem hljóp í veg minn brosti til mín og kinkaði kolli til mín. Sjáiði til, nú erum við systkini í hlaupunum. Eigum eitthvað sameiginlegt. Tölum sama tungumál. Hann hafði ekki hugmynd um að um leið og hann var úr augsýn sagði rafræna röddin mér að ég væri búin með 60 sekúndurnar og ég ætti að byrja að ganga. Sem ég gerði auðvitað. Hann hélt bara að ég væri eitursvalur hlaupari. 

Svakalegum árangri náð á einni viku eins og þið sjáið. Það er búið að taka mig inn í hlaupasamfélagið. Hugsið ykkur hvað getur gerst ef ég held áfram og klára prógrammið? Mögulega gæti ég staðið í iðandi þvögu hlaupara, farið að hlaupa til styrktar góðgerðarmálum og svo framvegis. Engar áhyggjur samt, ég er ekkert á leiðinni í maraþon á næstunni, bara að dúlla mér hérna í hverfinu. Í næsta húsi við mig er starfræktur hlaupahópur, næsta markmið er að þora þangað inn. Áfram ég!

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira