c

Pistlar:

12. febrúar 2016 kl. 19:17

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Sexí jóga!

IMG_9041

Ég hef ekkert skrifað heillengi hérna. Allskonar ástæður, meira um það seinna, kannski.

Ég hef ekki lítið gert grín að "sexí spinning" tímunum í World Class. Hugmyndin er fáránleg að mínu mati en kannski er það bara af því að mér er lífsins ómögulegt að hreyfa mig og vera sexí á sama tíma. Þetta bara fer ekki saman þegar maður hefur tilhneigingu til að breytast í tómat ef maður labbar 5 metra, ég verð eldrauð í framan um leið og ég reyni hið minnsta á mig og til að kóróna fegurðina svitna ég svo eins og svín. Ég horfði líka með fyrirlitningu á gellurnar farða sig í búningsklefanum og labba svo út og upp á hlaupabrettið. Ég get ekki einu sinni málað mig eftir æfingu vegna þess að það tekur mig góða klukkustund að hætta að svitna, hvað þá fyrir hana. Maskarinn, meikið og allt heila klabbið myndi leka beint ofan í augun á mér og ég yrði þá hálfblind til viðbótar við rauða tóninn og svitabaðið.

En í gær prófaði ég alveg nýjan hlut. L.A. útgáfuna af sexí spinning. Og það var alveg óvart. Ég fór í jóga, tími sem ég hef oft farið í áður. Kennarinn er æðisleg Kaliforníu týpa sem hefur eytt dágóðum tíma í Indlandi og kennt jóga út um allar heimsins trissur, Kanarnir myndu  kalla hana "free spirit". Hún hóf tímann með að segja Amerísku teprunum frá því þegar hún kenndi jóga í Amsterdam, þar sem allir fóru saman í sánu á eftir, karlar og konur, allir naktir og ekkert mál. Þá byrjuðu við sem mættum í tímann að svitna á efri vörinni. Hvert var hún að fara með þetta. Jú, í tilefni þess að Valentínusardagurinn væri handan við hornið, þá ætluðum við að nota tímann, eina og hálfa klukkustund í það sem hún kallaði "félagajóga", allar stellingar sumsé gerðar með félaga. Ronnie, ítalskur maður, var félagi minn. Sumir voru með félaga af sama kyni, aðrir af gagnstæðu, allur gangur á þessu. Ég hef aldrei hitt Ronnie áður en á þessum eina og hálfa tíma urðum við nánari en margir eru sínum eigin mökum. Hann þurfti ítrekað að beita hendinni á "sakrum" hlutann á mér en fyrir þá sem tala ekki "jóga" þá er það svo gott sem rassinn á mér. Við gerðum líka Kóbra slönguna beint á móti hvort öðru og kennarinn hvatti okkur til að nýta tækifærið og kyssast ef við vildum. Við Ronnie vorum ekki í stuði til þess, rétt að taka það fram. Svo hentumst við í svona félaga þríhyrningsstöðu einhverja þar sem við gripum up lappir hvors annars með einni hendi og sveifluðum annarri löppinni upp á mjöðmina á hinu. Þessu slúttaði hún svo með því að láta okkur setjast klofvega ofan á hvort annað þar sem maður var með hnén dregin inn og svo rugga sér. Svona í alvöru. Við Ronnie vorum bara að hittast þarna í fyrsta sinn. Hann er smávaxinn og lægri en ég. Ég leit út eins og risavaxin tröllskessa við hliðina á honum. Þurfti svo að setjast ofan á hann og juða mér. Einmitt!

Ég reyndi að setja enga þyngd ofan á greyið manninn, juðaði mér til málamynda rauð í framan, sambland af áreynslu og hreinum vandræðagangi. Reyndi á sama tíma að kreista rasskinnarnar fast saman því ég var búin að þurfa að prumpa síðan tíminn byrjaði en það fannst aldrei tími til að sleppa því út. Ronnie var alltaf að mér fannst með andlitið nálægt rassinum á mér. Það hafðist sem betur fer! 

Ég settist út í bíl að tímanum loknum og lét prumið vaða í einverunni. Ég á ekki von á að heyra frá Ronnie aftur, held þetta hafi verið einnar nætur gaman!

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira