c

Pistlar:

29. ágúst 2015 kl. 21:38

Hildur Jakobína Gísladóttir (hildurjakobina.blog.is)

Eineltismál barna

Umræða um eineltismál barna eru tíð í fjölmiðlum og ber nú á góma þegar skólarnir eru að byrja að nýju eftir sumarfrí. Oftar en ekki snúast þær umræður um meint úrræðaleysi skólayfirvalda til þess að taka á slíkum málum eða einhvers konar getuleysi til þess að leysa þau. Skv. 13.gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 eru grunnskólar vinnustaður nemenda og ber því skólayfirvöldum að taka á eineltismálum sem og öðrum sálfélagslegum vandamálum. Grunnskólaárin eru mikilvægur undirbúningur barna hvað varðar félagslega þætti og samskiptafærni. Flestir skólar eru með eineltisstefnur og má því leiða líkum að því að þeir séu með viðbragðsáætlun komi einelti upp í skólanum. Niðurstöður í rannsókn Hjördísar Árnadóttur árið 2011 sýna að flestir skólar séu vel í stakk búnir að taka á eineltismálum en forvörnum sé ábótavant. Það er rétt að árétta það að einelti er ofbeldi. Þetta á við um hvort sem um er að ræða einelti á milli barna eða fullorðinna.

Hins vegar er sá munur á einelti barna og fullorðinna að börnin geta sér enga vörn veitt sjálf og þurfa því að stóla á að fullorðna fólkið taki rétt á ofbeldismáli í þeirra garð og af heilindum og ábyrgð. Barnaverndarlögin fjalla ekki um einelti sem slíkt og koma því oftast barnaverndarstarfsmenn ekki inn í eineltismál nema að annað hvort þá gerandi eða þolandi í málinu sé skilgreint sem "opið mál" hjá barnaverndinni. Úr ofangreindri rannsókn kom fram að félagsþjónustan komi aðeins inn í slík mál séu þau orðin of erfið fyrir skólana að vinna úr. Úrræðum er því ábótavant og eru flestir foreldrar að standa í að verja börnin sín hvað þessi mál snertir innan skólanna. Dæmi eru um að fjölskyldur þurfi að flytja burt úr sveitarfélagi til að barnið þeirra njóti friðar. Er slíkt ásættanlegt árið 2015?

Börn hafa sömu mannréttindi og fullorðnir og eiga rétt á að komið sé fram við þau af kurteisi og virðingu. Börn þurfa að geta treyst á að fullorðna fólkið aðstoði þau, líði þeim illa og virði líðan þeirra. Fullorðnir bera því ábyrgð á að fá nauðsynlega og fullnægjandi fræðslu um ofbeldismál af þessu tagi til að geta leyst málin með farsælum hætti.

Að sjálfssögðu verða ekki allir foreldrar sáttir í eineltismálum og flestir foreldrar vilja ekki trúa að börnin þeirra leggi í einelti. Staðreyndin er hins vegar sú að börn sem leggja í einelti eiga foreldra. Við megum því ekki fara í afneitun. Við verðum að horfast í augu við málið hversu erfitt sem það er. Okkur ber skylda til að leggja okkar af mörkum til úrlausnar. Við erum fyrirmyndir barnanna okkar og það eru kennarar líka. Hvaða skilaboð erum við að gefa börnum okkar ef við stingum hausnum í sandinn? Hvaða skilaboð er skólakerfið að senda börnunum ef þeir geta ekki leyst málin? Er það lausn að flytja úr sveitarfélaginu?

Sumir hafa sagt við mig í starfi mínu að skólayfirvöld "leysi málið" með því að láta geranda og þolanda takast í hendur og "sættast". Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt að ná sáttum í ofbeldismálum, þar sem annar aðilinn er með "yfirburðastöðu" gagnvart hinum. Þetta á bæði við um börn og fullorðna. Það eru til lausnir og bjargráð í eineltismálum, bæði hjá fullorðnum og börnum. Telji skólar sig ekki vera í stakk búna til að taka slíkum málum er best að kalla til fagmenn sem vinna með einelti barna. Einelti er alvarlegt mál sem getur haft hræðilegar afleiðingar. Jafnframt er mikilvægt að skólasamfélagið vinni markvisst með foreldrafélögum og Samtökum heimili og skóla til að taka á þessum erfiðu málum. Forvarnir eru hér lykilorð. Það eru án efa allir sammála um að best sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur þar ofan í.

Eflum fræðslu um einelti.

Hildur Jakobína Gísladóttir

Hildur Jakobína Gísladóttir

Vinnusálfræðingur og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Officium ráðgjöf ehf. Hildur er með grunnmenntun í sálfræði, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, stjórnendamarkþjálfi(Executive Coach) frá opna Háskolanum, Leadership Management International stjórnendaþjálfi og mastersgráðu í Vinnusálfræði frá London Metropolitan University,

Meira