c

Pistlar:

17. apríl 2015 kl. 9:20

Hrefna Óskarsdóttir (hrefnaoskars.blog.is)

Hamingja fæst gefins gegn því að vera sótt...

Það er fáránlega auðvelt að nota tilfinningar til að stjórnast í fólki til að ná sínu fram. Það eru margar leiðar færar í þessum efnum en í grunninn er uppskriftin frekar einföld. Byrjaðu á því að ná í alla uppsöfnuðu gremjuna þína, hækkaðu róminn allverulega og notaðu svo nokkuð ógnandi líkamsstöðu.

Týndu svo allt til sem þessi einstaklingur hefur gert á þinn hlut... já, eða týndu bara til öll mistök - því meira sem þú grefur upp, því betra. Og ef þú hefur ekki ennþá náð þínu fram, þá klikkar ekki að rjúka út og mæla ekki orð frá munni þar til að þú hefur fengið þínu framgengt.

Er það furða þó að fólk  þoli ekki tilfinningar?

Við fæðumst með svo sterka þörf fyrir góð samskipti, að við erum tilbúin að sættast á fáránlegustu málamiðlanir til að komast undan bölvaðri dramatíkinni sem fylgir særðum tilfinningum og beygluðu stolti. Við gefum eftir og látum undan til að halda hlutunum í góðu. Þörfin fyrir að hafa samskiptin góð og átakalaus ásamt þeirri viðleitni að forðast óþægilegar tilfinningar, gerir okkur afar heppileg fórnarlömb fýlupúkaárása - hvort sem það er af hálfu maka, fyrrverandi maka, vina, systkyna, barna eða jafnvel einhverjum Jónum og Gunnum út í bæ.

Þær eru leiðinlegar setningarnar sem byrja á „þú þarft að...“,þú átt að...“ og „núna skalt þú...“ og það er erfitt að standa með sjálfum þegar manni finnst maður vera særa einhvern með því. Af hverju við teljum okkur vita betur hvernig aðrir ættu að haga lífi sínu, er ein af furðulegustu ráðgátum lífsins, sérstaklega þegar haft er í huga að flestir eiga í töluverðu basli með sitt eigið. En kannski er einfaldara að sökkva sér í annarra manna vandamál heldur en að gera eitthvað í sínum. Svo við skiptum okkur af því hvernig systkyni okkar ættu að ala upp börnin sín; hvernig vinirnir þyrftu að taka sig á í matarræðinu eða hvernig fyrrverandi makar verði að hafa hlutina heima hjá sér.

Og við leyfum fólki að skipta sér af og stjórnast í okkur á þennan hátt á meðan við erum hrædd við að segja nei, á meðan við erum hrædd við að segja það sem okkur finnst – á meðan við erum svona hrottalega hrædd við skollans samviskubitið.   

Á meðan við beintengjum hamingjuna á þennan hátt við álit annarra og gerum allt til að gulltryggja að allir séu sáttir og engin súr, þá getur maður allt eins kysst þessa langþráðu lífshamingju bless. Það verður aldrei nóg. Þú gerir aldrei nóg. Þúsund manns hafa þúsund skoðanir á öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur og þegar þér loksins hefur tekist að gera einum til geðs, kemur einhver annar sem segir hvernig þú hefðir frekar  átt að gera. Fólk kemur alltaf til með að hafa skoðun á því sem maður tekur sér fyrir hendur.

Og trúðu mér; við verðum aldrei nógu rík, dugleg eða flott til að mæta kröfum annarra. Það hafa flestir skoðun á því hvernig fólk ætti frekar að gera hlutina og það er allt í lagi. Enda ert þú að hugsa út frá þinni reynslu og þekkingu. Hafðu samt í huga að það er akkúrat það sem hinir eru að gera líka – gera sitt besta út frá sinni reynslu og þekkingu sem er alveg ótrúlega ólík þinni.

Það er vont samviskubitið og það er vont að hafa einhvern reiðan eða fúlan út í sig svo maður leitar allra leiða til að gera allt gott á ný. Til að hinn verði ánægður og glaður á ný.

Og þar liggur allt bévítans hausaruslið.

Af einhverjum fáránlegum ástæðum teljum við okkur þurfa bjarga gleði og hamingju annarra. Og höldum um leið að það sé aðeins þegar fólk hættir að haga sér eins og fífl og við hætt að þurfa að hafa áhyggjur af þeim, að þá loksins getum við orðið hamingjusöm. Að það sé aðeins þegar við fáum þá framkomu sem við teljum okkur eiga skilið, að þágetum við orðið glöð. Rétt eins og að aðeins þegar við verðum nógu rík, nógu grönn og förum að njóta nægilegrar virðingar, að þá loksins verðum við ánægð. 

Svona hugarfar slátrar beinlínis öllum möguleikum á hamingju og lífsgleði því sennilega þurfum við að bíða eftir að það frjósi í Helvíti áður en fólk hættir að haga sér eins og fífl.  Það tók mig langan tíma að átta mig á því að gleði og hamingja er val. Að við getum valið okkar eigin framkomu og hvernig viðbrögð okkar við framkomu annarra eru. Systir mín segir stundum þegar ég verð pirruð, að nú sé ég farin að beygla gleðina hennar aðeins of mikið og það henti henni bara ekki. Hvort ég vilji ekki koma aftur inn (og bendir á úidyrahurðina) í betra skapi.  

Með því að leyfa ekki öðrum skemma gleðina okkar, erum við að taka ábyrgð á okkar eigin tilfinningum. Með því að leyfa ekki öðrum stjórna því hvernig okkur líður.

Það er ákveðið þroskaferli að losa sig undan áliti annara. Þetta hefur oft verið strembið ferðalag en áfram held ég. Af því að á leið minni hef ég komist að eftirfarandi niðurstöðu:

  1. Því minni áhyggjur sem ég hef af því sem öðrum finnst, því ánægðari verð ég.
  2. Því færri skoðanir sem ég hef á lífi annarra, því glaðari er ég.
  3. Því minna sem mér finnst ég þurfa að sanna mig fyrir öðrum, því frjálsari er ég.
  4. Því meira sem ég fylgi minni eigin sannfæringu, því hamingjusamari er ég.
  5. Því glaðari, ánægðari, frjálsari og hamingjusamari sem ég er, því oftar brosi ég.
  6. Því meira sem ég brosi, þeim mun skemmtilegra er lífið.
  7. Því skemmtilegra sem mér finnst lífið vera, því meiri möguleika hef ég á því að vera í stanslausri gleði og botnlausri hamingju.

Hamingja er val og fæst ekki í gegnum hluti, fólk eða aðstæður. Hún felst í því að vera sáttur við sig og sitt, hér og nú og með það sem maður er, á og hefur.

Hrefna Óskarsdóttir

Hrefna Óskarsdóttir

Fædd á því gæðaári 1975. Iðjuþjálfi, dáleiðslutæknir og nemi í geðheilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri þessa dagana. Með óendanlegan áhuga á mannlegu eðli, sérstaklega því sem eykur vellíðan, hamingju og lífsgleði og því sem dregur úr hausarusli og tilfinningadrasli. Finnst fátt betra en að lesa, skrifa, hlusta á góða tónlist og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum (en ekki endilega í þessari röð).

Meira