c

Pistlar:

22. september 2016 kl. 19:20

K Svava (ksvava.blog.is)

Markmið!!

Jæja, fyrst að maður er byrjaðu að tjá sig hérna þá er eins gott að fara með þetta alla leið og gera markmiðin opinber, svo að pressan verði á að halda stefnu og standa við orðin sín. Auðvitað er ég þá að tala um að standa við mín orð sem að ég er að gefa sjálfri mér en með því að opinbera það, þá vinnur maður harðar að því þar sem aðrir fylgjast með og vita hvert maður stefnir.

Ég er búin að minnast á markmið mín varðandi matarræðið hér að neðan, að læra að hafa jafnvægi á milli matarræðis og hreyfingu en ekki fara í neinar öfgar sem verða til þess að maður falli og þegar maður veit að slíkt er gerlegt, miðað við reynslu síðustu ára, þá borgar sig að finna betri leið sem að hentar og vonandi stenst.  Maður lærir af mistökum ekki satt?  Svo er sagt en það bara virkar ekkert alltaf þannig.  Hversu oft hefur maður reynt sömu hlutina og reynir að vera jákvæður en það svo springur allt í andlitið á manni þegar líður á.  Stundum verður maður bara að sætta sig við orðinn hlut og reyna að lifa með honum og fókusera að gera þetta bara ekki of erfitt til að standa við.

Önnur markmið sem að ég hef sett mér og flestir setja sér, það er kg talan.  Jú, ég er búin að opinbera að ég er 91.5 kg og síðast þegar ég tók mig á, þá endaði ég í 75 kg og ég var bara nokkuð sátt þar.  Ég er aðeins 165 cm á hæð og miðað við "opinberar tölur", þá ætti ég að vera milli 60 - 65 kg.  Hreinskilnislega sagt, þá held ég að það sé of lág tala fyrir mig.  Ég vil frekar vera aðeins mýkri en kannski skornari og þá er ég ekki endilega að tala um six pack heldur að það móti fyrir vöðvum eða að þeir séu aðeins sýnilegri.  Þegar ég var að lyfta í vikunni, þá vottaði fyrir þríhöfðanum og axkar vöðvum og mér fannst virklega gaman að sjá það og flott og langar að sjá meira af því en þó ekki að ég verði eins og eitthvað búnt, alls ekki.  

Fleiri markmið, sem fæstir vilja ræða um opinberlega en það er í raun útlitið!  Þar sem að ég er hálfgerður "hobbiti", miðað við hæð, þá safnast hratt utan um mann ef að maður gerir ekkert í því og ég hef verið í "mýkri" kantinum síðan að ég eignaðist dóttur mína fyrir 18 árum síðan... já 18 árum og já, ég sef í formalíni.  Ég sé nokkra galla sem að ég myndi vilja vinna í og ég ætla að byrja á því að nefna andlitið.  Ég hef alltaf verið með stórar kinnar en þær verða nú stundum minni um sig þegar að maður gerir eitthvað af viti, þær svo sem angra mig lítið en mig langar í flotta kjálkalínu og aðeins minni háls en ekki bara herðar og höfuð.  Breytingar sjást oft fyrst á andlitinu og það er eitt af því sem að ég vil sjá.  Annað sem að ég vil vinna í er maginn en ég er með smá svuntu vinstra megin og aðeins vinstra megin því að þegar ég var 12 ára gömul, þá fór ég í botnlangauppskurð og ég er með ör hægra megin, sem kemur í veg fyrir að svunta myndist þar.. allavega eins og staðan er á mér í dag.. ég efast ekkert um það að hún kæmi ef að ég myndi sleppa mér meira.  Ég væri til í að geta unnið meira með magann.. ekki að hann hverfi, ég geri mér engar vonir um six pack eins og ég sagði áður en ég væri til í að losna við þessa hálfa svuntu sem að ég er með, hver vill það ekki?

Ég er frekar heilbrigð manneskja, er með góðan blóðþrýsing, í lægri kantinum meira að segja, hef aldrei fengið vöðvabólgu.. já þið verðið bara að trúa mér, er ekki bakveik eða með í hnjánum, þannig að mín markmið eru, svo að ég dragi þau aðeins saman.. að verða svona 75 kg í þyngd, byggja upp meiri vöðvamassa (sem hjálpar til við brennsluna) og vinna á erfiðum svæðum á líkamanum.  Nú veit ég líka að það er erfitt að einbeita sér að einu svæði en með því að vinna markvisst í markmiðum sínum, þá kemur þetta smám saman og það er það sem að ég þarf að horfa á.  Þetta er langhlaup en ekki spretthlaup og ef ég trúi á sjálfa mig og það sem að ég get og ég veit að ég get þetta, þá verður þetta afar dásamlegt ferðalag og ég er ekkert lítið þakklát fyrir aðstoð Mörtu og Smartlands, Sporthússins og Lilju, fyrir að ætla að aðstoða mig, við að uppfylla mín markmið.

K Svava

K Svava

Létt geggjuð háskólamær í fullri vinnu sem ætlar að taka nýjan lífstíl í nefið! Meira