c

Pistlar:

6. nóvember 2014 kl. 17:34

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Fordómar

Fordómar

Um daginn varð ég fyrir fordómum vegna þess að ég er trúaður einstaklingur. Ég er yfirleitt talin afar umburðalynd trúarlega séð, og hef ekki áður lent í þessari aðstöðu. En einu sinni verður víst allt fyrst.

Ég varð afar sár, fannst ég dæmd að ósekju og fannst fáfræði dómarans afar mikil.

Ég upplifði líklega það sama og aðrir hafa upplifað sem tilheyra minnihlutahópum af ýmsu tagi. Vanmátt minn gagnvart fyrirdæmingu sem byggð var á algjöru þekkingaleysi og fyrirfram mynduðum skoðunum þess sem dæmdi.

Sárt og ljótt að verða fyrir sliku.

En þetta atvik fékk mig til að hugleiða baksvið fordóma okkar svona almennt.

Það er vont að fá dóm fyrir að vera sá sem þú ert, að skoðanir þínar séu ekki taldar jafn réttháar annarra, að vera ekki nóg eða of mikið af einhverju fyrir smekk samferðafólksins. 

Það er einfaldlega vont þegar samfélagið setur þig í ruslflokk vegna skoðana þinna og trúarafstöðu.

Þetta á enginn að þurfa að upplifa.

Hvað er það sem fer í gang í huga okkar þegar við teljum okkur hafa leyfi til að dæma skoðanir, trú, litarhátt, kynhneigð eða annað? Hvað fær okkur á þann stað að gera lítið úr öðru fólki og niðurlægja það?

Mín niðurstaða er að í langflestum tilfellum er það vanþekking og hræðsla við það sem við þekkjum ekki sem fær okkur til að bregðast við með fordómum. Ramminn okkar óttast allt sem við þekkjum illa og allt sem er ógnun við það þjóðskipulag það sem við þekkjum. Rannsóknir á þessu sviði sýna fram á að fordóma sé frekar að finna hjá einstaklingum hafa lágt sjálfsmat, eru óöruggir með sjálfan sig og eru bitrir og vonsviknir með lífið.

Ég hef fundið það hjá sjálfri mér í einn eða annan tíma að ég á til fordóma (fyrirfram gerða dóma) í mínum hugarfylgsnum, en sem betur fer verða þeir færri og færri með árunum. Ég held að ég hafi lært það á langri leið að öll erum við hér vegna réttar okkar til verunnar hér, og til þess að fá að vera við sjálf.

Við réðum ekki fæðingastað okkar, litarhætti okkar, hvaða fjölskyldu við tilheyrum og svona má lengi telja.

En það sem stendur uppúr hugsunum mínum um þessi mál er einfaldlega það að öll viljum við láta bera virðingu fyrir okkur og okkar skoðunum og gildum.

Við viljum mjög ógjarnan fá á okkur límdar gyðingastjörnur hér og þar vegna þess eins að við pössum ekki inn í trúarkerfi og skoðanir annarra um það hvernig heimurinn á að vera.

Ég hugsa að heimur okkar væri aðeins betri og fallegri ef við gætum lært að elska og umfaðma hvert annað. Leyfðum öðrum að hafa sínar skoðanir án þess að stimpla þá fyrir þær. Slepptum því  að dæma endalaust hluti sem við höfum takmarkaðan skilning og þekkingu á.

Pössum okkur á því að falla ekki í þá gryfju fáfræðinnar að dæma án þess að hafa skilning og þekkingu á því sem við erum að dæma. Kynnum okkur málefnin sjálf og fellum síðan dóma okkar útfrá því ef okkur þykir þörf á því.

Það er gott máltækið sem hljómar eitthvað á þennan veg;

 „ekki dæma án þess að hafa gengið mílu í skóm þess sem þú ert að dæma“

Ekkert okkar þekkir sögu annarra til fulls og við vitum ekki hvaðan þeir koma.

Ég hef kynnst því í starfi mínu sem ráðgjafi að afar margir ganga um með skömm í hjarta sínu og sögur sem þeim finnst ekki gott að tala um eða viðurkenna. Sögur sem draga úr sjálfsmati og sjálfstrausti viðkomandi.  Við erum öll breisk. bregðumst öðrum, erum eigingjörn, samhygðarlaus og hugum að hag okkar sjálfra umfram annarra á stundum.

Við höfum ólíkar skoðanir sem myndast hafa í gegnum árin útfrá umhverfi okkar og reynslu. Ekkert okkar hefur sömu sögu að segja, þannig að við höfum ekki forsendur til þess að dæma einn né neinn.

Höfum í huga máltækið sem segir að „aðgát skuli hafa í nærveru sálar“ elskurnar, og gerum okkar besta til að byggja aðra upp, finna það sem prýðir þá.  Sleppum því að rífa þá niður,

Mín trú er að þannig byggjum við betri heim, heim sem okkur líður öllum vel í...

Þar til næst

Xoxo

Ykkar Linda

Enga fordóma

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira