c

Pistlar:

15. nóvember 2014 kl. 0:56

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Enginn veit hvað átt hefur...

Fyrr en misst hefur...

Þetta sagði við mig kona af gömlu kynslóðinni fyrir margt löngu, og var þá að vísa í að fólk vissi ekki hvað það væri að gera með því að skilja og leysa upp fjölskyldu sína. Hún bætti reyndar við "þú veist hvað þú hefur, en þú veist ekki hvað þú færð" 

Ekki fannst mér nú mikið vit í því sem þessi gamla kona sagði á þessum tíma, enda sjálf að skila því eintaki sem ég hafði búið með um langa hríð, og hélt eins og svo margir aðrir sem slíkt gera að leiðin yrði glimmerstráð eftir það. Rómantíkin yrði allsráðandi. Ég fengi ævintýrið á silfurfati eins og það hefði verið "made in Hollywood eða in heaven just for me"!

Fátt vissi ég um lífið, rómantíkina og hvar hamingjuna væri að finna á þessum tíma eins og svo margir aðrir sem þessa leið hafa farið. 

Ævintýrin sem áttu að verða hamingju-uppsprettan hjá flestum þeim sem skilja, líkjast því miður oft frekar gömlu ævintýrunum með eldspúandi drekanum, vondu stjúpunni, úlfinum gráðuga og þeim forynjum öllum hvaða nöfnum sem þau kunna að nefnast. Vandræði á vandræði ofan. Rómantíkin oft fljót að hverfa í skylmingum við þessar forynjur allar.

Þessu hef ég ekki aðeins kynnst af eigin raun, heldur einnig séð það oftar en ég hef kært mig um í starfi mínu. (Enda er margra vikna biðlisti hjá hjónabandsráðgjöfum yfirleitt)

Ég sé mikið af sorgmæddu fólki sem reynir að líma saman fjölskyldbrot hvors annars með ærinni fyrirhöfn. Reynt er að raða púslum beggja aðila saman með mismunandi árangri. Vonsvikin börn fylgja oft með í pakkanum og þau eru ekki alltaf jafn hrifin af nýja makanum og mamman eða pabbinn. Ættingjar og vinir eru líka á hliðarlínunni og vita oft ekki hvoru megin þeir eiga að standa. Vinamissirinn sem verður í sumum tilfellum, fjölskyldumissirinn, vandræði með fermingaveislur, giftingar, skírnir og fl. Erfiðleikar af ýmsu tagi jafnvel við þá sem við elskum mest.

Grasið er nefnilega ekki alltaf grænna hinu megin, og oft væri líklega betra að sinna því að vökva blettinn reglulega sín megin. Þannig væri kannski hægt að bíta iðagrænt gras allan ársins hring í óeiginlegri merkingu :).

En við búum á drive through tímum. Tímum sem kalla á að allt sé svo flott og rómantískt, ástríðurnar allsráðandi, allt á að vera til alls. Ameríski draumurinn í öllu sínu veldi. Hamingjan elt út um allt, en ekki þar sem hana er helst að finna, í þakklátu hjarta.

Þessi á hvíta hestinum (karl eða kona) á að vera gallalaus og á að uppfylla allar kröfur um gæði. Eitthvað annað en eintakið sem áður var til staðar. Einnig á þetta nýja eintak að uppfylla allar kröfur um ástríður, völd, gáfur, líkamsbyggingu, kærleika, samskipti, áhugamál og Guð má vita hvað.

En er þetta þannig hjá þeim sem eru að fara í seinni samböndin sín?

Nei ekki hefur mér fundist það vera þannig amk.

Mér hefur sýnst að þeir sem hafa náð að halda sínum samböndum þrátt fyrir alla gallana í þeim, (ekki misskilja mig, ég er ekki að tala um ofbeldi, trúnaðarbrot eða fíknivanda) vera oft á tíðum hamingjusamari en þeir sem eru að púsla saman þeim seinni.

Ég kann að hafa kolrangt fyrir mér þar. 

Það sem ég sé reyndar oft er að fyrrverandi makar eru með alls konar leiðindi og setja oft strik í þetta annars rómantíska ævintýri,fjölskyldumeðlimir fyrrverandi og núverandi makans koma inn i myndina með mismunandi skemmtilegum hætti, oft til að skekkja þessa rómó mynd. Eins geta báðir aðilar misst slatta af vinum og kunningjum. Gleymum svo ekki blessuðum börnunum sem engu fá að ráða um það hvort mamma og pabbi verði áfram saman, og eru kannski eðlilega ekki sátt með þessa tilhögun mála. 

Erum við tilbúin til að henda frá okkur annars ágætis samböndum (oft eru þau það í grunninn) fyrir þetta erfiði? 

Vera kann að sumum finnist þetta afar einföld mynd sem ég dreg hér upp, og jú líklega er hún einfölduð að einhverju leiti, en því miður er það oft þannig að þar sem brotin voru ekki mikil né stór, og hjón samhent að flestu öðru leiti en því að rómantíkin og kynlöngunin var horfin, að aðilinn sem skilnaðinn vildi í upphafinu "dauðsér" eftir þessu öllu saman innan tveggja ára! (rannsóknir virðast staðfesta þetta)

Og ég skal viðurkenna það...ég er ekki hlynnt skilnuðum sem hægt er að komast hjá...skilnuðum sem hægt hefði verið að stýra í hamingjuátt með örfáum breytingum af beggja hálfu. En það er ég, og ég ætlast ekki til að aðrir deili þeirri skoðun með mér.

En ég hverf þó stundum á vit ævintýranna er ég sit með hjónum sem eru að slíta samvistum og hugsa þá með mér,hjónaband "hvernig ætli þetta hjónaband hefði orðið eftir 5 eða 10 ár ef því hefði verið gefið tækifæri"?

Það skildi þó aldrei vera að það hefði getað orðið "happily ever after" ævintýri...Hver veit...

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira