c

Pistlar:

7. desember 2014 kl. 20:52

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Blá jól...

Þegar jólin nálgast og gleðistraumur fer um okkur flest, þegar jólaljósin skína sem skærast, greni og epla ilmur liggur í loftinu, tónlistin ómar um stræti og torg. Á aðventunni þegar við söfnumst saman sem fjölskylda, steikjum laufabrauð, bökum smákökur, pökkum inn gjöfum og borðum skötu, þá eru því miður margir einstaklingar sem kvíða þessum árstíma skelfilega mikið

Svo mikið að þeim langar helst til að leggjast í dvala og gleyma því að þessir helgidagar séu framundan. Því að það er nú svo skrýtið að einmitt á þessum gleðiríka tíma finna þeir sem einir eru og þeir sem lítið hafa á milli handanna meira fyrir einmannaleika sínum og fátækt en á öðrum tímum ársins.

Það eitt að horfa á eftirvæntingafulla og glaða einstaklinga í önnum fyrir jólin fyllir hjarta þeirra hryggð. Þetta skilja fáir sem ekki hafa reynt þetta á eigin skinni.

Það er ekki þannig að þeir kunni ekki að gleðjast með þeim sem hafa húsin sín full af gleði og hlátri þessa daga, langt því frá. En það minnir þá óneitanlega á skortinn sem þeir sjálfir búa við...Skort á kærleika eða félagsskap, skort á peningum, og skort á félagsskap.

Einmannaleikinn sem þeir finna fyrir sker þá og grætir. Að vakna einn á aðfangadegi jóla og drekka kaffið sitt einn er fyrir suma afar erfitt. Þeir hugsa til löngu liðinna tíma og  fyllast söknuði eftir þeim tíma þegar hús þeirra voru full af gleði jólanna, tími sem kannski aldrei kemur aftur.

Aðrir sakna maka og eða barna sem farin eru til ríki himinsins.

Einnig eru þeir til sem enga eiga að, sem finna sig eina sem aldrei fyrr á þessum gleðitíma. Og svo eru það þeir sem hafa svo lítið á milli handanna að þeir fyllast ótta og kvíða vegna útgjaldanna sem jólin kalla á. Þeir sjá ekki fram á að geta gefið gjafir, ekki einu sinni börnum sínum, sjá ekki fram á að geta keypt jólafötin á þau eða gert vel við sig í mat og drykk.

Sorglegt að það finnist fólk í þannig stöðu í okkar velferðarríki, en þannig er það þó samt sem áður. 

En hvað er til ráða? 

Hvað geta þessir einstaklingar gert til að gera þessa daga gleðilega þrátt fyrir allt það sem ég taldi upp hér að framan? 

Ég vildi að ég hefði eitthvað kraftaverka svar sem dugað gæti, en það hef ég þó ekki. Mitt helsta ráð er þó að hver og einn leiti í hjarta sér að þeim friði sem þar finnst þrátt fyrir allar aðstæður, geri síðan eitthvað sem gleður það sama hjarta, gefi af sér kærleika í miklu magni, hann kostar ekki neitt en gleður þó marga.Finni síðan það jákvæða sem í lífinu er þrátt fyrir aðstæður, því að alltaf má finna eitthvað pínulítið til að þakka fyrir. Halda síðan fast í vonina um að næstu jól verði betri og full af hamingju og allsnægtum, treysta almættinu síðan fyrir því að gefa styrk og kjark í dalnum. Og að lokum, að sleppa tökum á eymdinni og hleypa frekar gleðinni að yfir því að eiga þó líf sem mörgum er neitað um að eiga, og syngja lífinu glaður lof vegna þess með kórsöngvum á þorláksmessurúnti, hlusta á jólakveðjurnar á Rás 1, klappa sér á öxlina hughreystandi og segja...þetta er bjútífúl líf sem mér var gefið og ég ætla að gleðjast þrátt fyrir að það sé ekki fullkomið, en ekki vegna þess að allt sé eins og best verður á kosið.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira