c

Pistlar:

27. desember 2014 kl. 16:02

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Kærleikurinn

Á þessum tíma ársins finnst mér afar tilheyrandi að skrifa pistil um kærleikann.

Mín trú er sú að kærleikurinn sé það meðal sem læknað geti flest ef ekki allt mannanna böl og alltaf megi auka skammtinn ef sá sem gefinn er virkar ekki. 

En það er ég og mín trú. Trú sem er tilkomin vegna þess að ég hef á minni tiltölulega löngu ævi séð að allt niðurtal virkar þveröfugt á þann sem fyrir verður á meðan að kærleikurinn byggir upp. 

Við erum flest þannig að við vitum vel hverju við þurfum að breyta í okkar eigin lífi og fari, og þurfum sjaldnast einhvern sem segir okkur það. En hinsvegar þurfum við oft á bræðrum okkar og systrum að halda til að komast frá þeim stöðum. 

Og hvað er betra fallið til þess að hjálpa öðrum á fætur og til uppbyggingar en kærleikurinn? Að benda blíðlega á betri leiðir, finna það fallega við persónuna, sjá hjarta hennar og langanir til betra lífs er leiðin að mínu mati. 

Við höfum því miður allt of marga sem tilbúnir eru að sparka í aðra til að hefja sjálfa sig upp á stall, en það segir mér að sú persóna er kannski ekki á svo góðum stað sjálf. Eins og Kristur orðaði það svo flott hér um árið...Hví sérð þú flísina í augum bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu" Erum við ekki oft sek þarna?

Eftir að ég fékk það fallega hlutverk að verða amma, hef ég séð að það er kærleikurinn sem fær barnabörnin mín til að sýna mér virðingu, ást og umhyggju, en ekki umvöndunin og það að segja þeim að þau séu of mikið af einhverju eða ekki nóg á einhvern hátt. Ég bara gef þeim skilyrðislausan kærleika og umhyggju. Þau eru bara æðisleg nákvæmlega eins og þau eru, dýrmæt og einstök.

Mér þætti gaman að vita hvað gæti breyst í heimi okkar ef við gætum séð aðra með þessum augum og notuðum þessa aðferð gagnvart þeim sem við erum samferða hér á jörðu. Hver veit nema það yrði til þess að við kæmumst aftur á stað paradísarinnar sem við afsöluðum okkur hér áður fyrr! 

Mér hefur virst það vera helst þannig að fáfræði okkar og ótti varðandi ýmsa hluti geri það að verkum að við eigum erfitt með að sýna miskunn og kærleika öðrum mönnum. Fáfræði gagnvart því sem við ekki þekkjum og dæmum þar af leiðandi sem illt eða ógnandi við heimsmynd okkar. Sem aftur veldur því að við erum tilbúin til að setja fólk niður og gefum því þar með ekki tækifæri.

Ég þrái að sjá þann dag þar sem við látum þetta allt lönd og leið og gerum okkur bara grein fyrir því að við erum öll hérna saman. Berum öll ábyrgð á því að gera þennan heim að því sem við viljum að hann sé. Og hvað er betra en að slaka aðeins á eigin egói og bara hreinlega elska meðbræður sína og þjóna þeim í kærlieka? slepptum því svona til tilbreytingar að setja merkimiða og skilgreiningar á það hver er nógu góður og eða nægilega fullkominn til að fá kærleika og virðingu okkar. Elskum fólk nákvæmlega eins og það er með öllum sínum göllum og ófullkomleika. Því að við erum öll svo dýrmæt og einstök og falleg innst inni.

Förum nú inn í árið 2015 elskurnar með það að markmiði að bæta heiminn og hreinlega stráum kærleika yfir allt og alla sem verða á vegi okkar, leggjum okkar eigin skilgreiningar á öðrum á hilluna og leggjum þannig okkar af mörkum til að gera þennan heim að þeim stað sem okkur líður öllum vel á...

Langar að enda þennan kærleikspistil minn á hinum yndislegu orðum Postulans um kærleikann.

"Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.

En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum. Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn. Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur."

Þar til næst elskurnar

Kærleikskveðja,

Ykkar

Linda



 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira