c

Pistlar:

4. september 2015 kl. 11:35

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Á ég að bjarga barninu þínu?

migrant-child-dead-beach-turkeyÉg á satt að segja til fá orð yfir fréttum síðustu daga.

Fréttum af hörmungum flóttamanna sem eru í nokkurra klukkustunda flugfjarlægð frá okkur (eins og að keyra frá Reykjavík til Akureyrar)

Við sjáum lík lítilla yndislegra barna fljótandi um í sjónum og eða liggjandi í fjörum landa sem foreldrar þeirra reyna að flýja til vegna ástandsins heima fyrir.

Og hvað tekur svo við hjá þeim sem þetta reyna? Þeirra sem sjá það sem illskárri möguleika að fara á hriplekum bátum út í óvissuna frekar en að láta myrða börnin sín af öfgasinnuðum brjálæðingum?

Jú ofdekraðar þjóðir vesturlandanna herða hjörtu sín, og huga fyrst og fremst að því hvað í pyngjunni leynist. Hvort hægt sé að gefa þessum börnum að borða þegar til lengri tíma er litið, eða hvort hægt sé að sjá þeim fyrir atvinnu og húsnæði í framtíðinni. Og það sem verst er, þá eru þjóðfélagsþegnar vesturlandanna að huga að því hverju þeir gætu tapað úr eigin spónum við að koma samlöndum sínum á hótel jörðu til aðstoðar.

Ég fyllist reiði, sorg og depurð þegar ég les sumt af því sem fólk setur hér inn á netið, og get ekki varist þeirri hugsun að kærleikur okkar og samhygð sé á hröðu undanhaldi í gnægtum okkar (já ég segi gnægtum) ...

Að við séum að verða svo ofdekruð og vanþakklát að við eigum ekki lengur hjarta af holdi og blóði.

Ef ég sæi barnið þitt á harðahlaupum fyrir bíl sem væri á 100 kílómetra hraða og hefði gott tækifæri á að bjarga því frá bílnum, ætti ég að setja mig í grjótharðar stellingar hagkvæmnissjónarmiða íslenska ríkisins og huga að því hvort það væri efnahagslega hagkvæmt þegar til lengri tíma er litið að bjarga barninu þínu frá bráðum dauða?

Ætti ég að setja mig í stöðu tilfinningalausra kerfa sem meta allt útfrá þjóðarhagsmunum þegar barnið þitt væri í bráðri lífshættu? Ætti ég að hugsa útí það hvaða skoðanir barnið þitt hefði miðað við mínar, og láta það ráða vali mínu?

Eða vildir þú kannski heldur að ég ætti hjarta af holdi og blóði sem einfaldlega ætti þessar hugsanir ekki til, heldur hugsaði einungis um að bjarga litlu barni frá dauða og veita því von um gæfuríka framtíð, sama hverra manna það væri, sama hvort það væri hagkvæmt eða ekki, og sama hvort að ég græddi eða tapaði á því ?

Mér verður hreinlega illt við tilhugsunina um það hvert við erum komin, og finnst þetta óneitanlega minna á kulda þann sem til varð í seinni heimstyrjöldinni, í hinu óvægna nasistaríki þjóðverja.

Í mínum huga er þetta svo einfalt, það er neyð, við komum til bjargar!

Viltu að ég bjargi barninu þínu frá bílnum?

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi

Einstaklingsþjónusta, fyrirtækjaþjónusta.

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira