c

Pistlar:

23. desember 2015 kl. 16:00

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Hvað skiptir máli?

lífið myndAð undanförnu höfum við verið minnt allt of oft á það hversu hverfult lífið er, hversu stutt og svo óskaplega brothætt.

Svo stutt og stundirnar fáar til að breyta því sem við viljum breyta til þess að skapa okkur þann lífsveg sem við teljum farsælastan. Treystum ekki á morgundaginn til þeirra breytinga sem við viljum sjá gerast heldur hefjumst handa í dag.

Ef ég spyr mig hverju ég þyrfti að breyta í dag til að ég gæti kvatt lífið sátt við mig og mína vegferð hér yrðu svörin nokkuð mörg verð ég að játa.

En merkilegt nokk væru fæst þeirra tengd veraldlegum hlutum eins og húsum, bílum, peningum eða glingri af öllu tagi. Frekar að það kæmi upp í huga minn að leyfa mér að dreyma stærri drauma, elska meira, hlæja oftar, njóta lífsins og gleðistunda þess, heillast oftar að sköpunarverkinu og kraftaverkum þess, og ég væri allskostar óhrædd við tilfinningar mínar, upplifanir og álit annarra á vegferð minni.

Ég eins og svo margir aðrir er kannski ekki nógu dugleg að sinna þeim sem mér þykir vænst um, læt veraldarvafstrið trufla mig þar. Ég gæti gert svo miklu meira af því að segja þeim sem ég elska hversu mikils virði líf þeirra er mínu lífi, hversu snautlegt það væri án þeirra. Ég gæti sagt þeim oftar að ég elskaði þá og eins gæti ég verið duglegri að segja þeim hversu dýrmætar og einstakar mannverur þeir eru. Ég gæti umfaðmað lífsveg þeirra og samþykkt hann oftar án skilgreininga og jafnvel tekið þátt í þeirra brölti hvort sem það samræmdist mínum skoðunum og áliti eða ekki...Bara notið samvistanna, hlátursins og gleðinnar af því að finna nánd við mannveru sem á kærleika minn.

Ef ég ætlaði að bæta lífsgæði mín og vegferð færi ég líklega oftar að finna þá sem eru mér kærir, ég hringdi líklega oftar, léti ekki leiðindi og fúlheit ráða ríkjum en hefði oftar matarboð, kaffiboð eða kallaði á fólkið án nokkurs tilefnis annars en þess að ég hefði löngun til þess að hitta það. 

Eins gæti ég teygt mig meira í áttina að því að sýna auðmýkt og umburðalyndi. Ég gæti gert það að markmiði mínu að elska aðeins meira í dag en í gær.

En er það ekki oft þannig að við erum ekki alveg tilbúin að láta af okkar stóra og mikilvæga egoi?

Okkar skoðanir eru þær sem gilda, okkar álit, okkar upplifanir, okkar langanir og óskir sem sitja í fyrirrúmi í allt of mörgum tilfellum, Þannig er því a.m.k farið með mig allt of oft þó að ég telji mig þó komna langt á veg með að breyta því. Verð betri og betri með hverju árinu sem líður. Vonast hreinlega til þess að vera búin að ná þessu áður en kallið mikla kemur :)

Ég þarf líka að læra að hlusta betur án þess að vera alltaf tilbúin með svar á móti, bara hlusta...ekkert annað.

Ég held að við gætum lært heilmikið um heim og skoðanir samferðamanna okkar á veröldinni og málefnum hennar með því einu að leggja okkur fram við að hlusta gagnrýnislaust og opin fyrir því að læra eitthvað nýtt. Gefum þannig þeim sem við eigum í samræðum við tækifæri á því að vera þeir sjálfir, opnir og berskjaldaðir án ótta við dóm og lítillækkun þeirra sem þeir opna sig fyrir.

Stærri gjöf er líklega ekki hægt að gefa en þá að leyfa annarri mannveru að vaxa og þroskast í andrúmi kærleikans og því umburðalyndi sem honum fylgir, það er gjöf sem gefur bæði gefanda og þiggjanda. Það væri sá lífsfarvegur sem ég væri sátt við að hafa farið að loknu þessu lífi og gæti mætt örlögum mínum glöð og sátt.

Njótum þess elskurnar að bæta okkur dag hvern og geta þannig staðið nær því sem við værum sátt við á þeim degi er lúðurinn gellur og kallar okkur heim. Látum ekkert veraldarvafstur stela frá okkur því sem skiptir okkur mestu máli í lífinu.

Mínar hugheilustu jólakveðjur til ykkar allra með ósk um að líf ykkar verði fyllt gleði og glimmeri yfir hátíðina.

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira