c

Pistlar:

8. desember 2015 kl. 21:44

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Lífið er gjöf

lífið er þittLíf okkar er stundum erfitt og stundum sárt, en samt svo óendanlega dýrmætt þegar við skoðum það nánar.

Okkur var gefið líf til að við gætum gert við það allt sem við viljum við það gera. Við erum frjáls. Og eins og ég sé það, var hverju og einu okkar úthlutað ólíkum hæfileikum og getu. Ekkert okkar er með sama fingrafar, ekkert okkar er með sama lit á lithimnu augna okkar, ekkert okkar er eins þrátt fyrir sjö milljarða núlifandi manna.

Að mínu mati er það þannig að við erum einstök hvert og eitt okkar. Einstök og dýrmæt, og líf okkar allra skiptir svo miklu máli í einingu lífsins,  og saman gerum við heiminn að því sem hann er. 

Það sem ég tel okkur hinsvegar skorta stundum er að við metum það líf sem okkur var gefið, og tökum því sem sjálfsögðum hlut að eiga morgundaginn. En svo er ekki, það er svo sannarlega meiri eftirspurn eftir aldri en framboð. Svo förum vel með það líf sem okkur er úthlutað og sköpum okkur gleði og hamingju með ákvörðunum okkar og framkvæmdum. 

Hver og einn dagur er gjöf sem gefur okkur tækifæri á því að stíga upp frá því sem heldur okkur frá því besta í lífinu. Á hverjum einasta morgni höfum við val um það að dvelja í eymd og volæði eða að stíga í fæturna og leggja af stað í átt að draumunum okkar.

Ákvörðunin er alltaf okkar og enginn getur breytt því hvorki aðstæður né tálsýnd lífsins.

Við höfum val, en ekkert alltaf svo auðvelt val, og hver og einn einasti maður sem hefur farið braut drauma sinna getur líklega vitnað um baráttu, blóð, svita og tár á þeirri göngu. "Vonleysi", "kjarkleysi", "ég er ekki nógu góður" tilfinninguna, "skömmina" vegna einhvers, sama hvers, öll "nei-in", "úrtölurnar", jafnvel andlegt og veraldlegt gjaldþrot. 

En þeir sem sigra og ná að sigra eru þeir sem hafa þolað þessa vosbúð alla, þeir hafa þroskast á leiðinni að settu marki, farið í gegnum tilfinningrússíbana, blankheit, gagnrýni og jafnvel vonsku frá meðbræðrum sínum en ekki gefist upp. 

En það sem þeir hafa að öllum líkindum lært á leiðinni er að, lífið er eins og nokkurskonar hjartalínurit. Það koma dagar þar sem allt virðist ganga upp (topparnir), en einnig dagar í lægð. Verstir eru þó þeir dagar sem ekkert er að gerast og ekkert hreinlega gengur upp, eins og flatt línurit og við vitum öll hvað það táknar (Dauða eða stöðnun).

Toppdagarnir eru þó þeir sem gera þetta allt einhvers virði og gera það þess virði að fara í gegnum þá vondu.

Þeir sem sækja drauma sína og gefast ekki upp á miðjum vegi hafa lært að þekkja sjálfa sig á leiðinni, bæði styrk sinn og veikleika. Þeir hafa breytt úreltum hugsunum og gildum, hafa lært að sjá aðra sem jafningja sína og losnuðu líklega við hrokann og falska egó-ið að stórum hluta. Vita líklega hversu dýrmætir þeir eru og hversu dýrmætt það líf er sem þeim er gefið. Þeir hafa kennt okkur sem á eftir þeim komu svo margt og þar á meðal það að alla drauma okkar getum við látið rætast ef við höfum nægan viljastyrk og leitum lausna í öllum aðstæðum sem uppá koma. Eins hafa þeir kennt okkur að þakka fyrir lífið í öllum aðstæðum og að gera sem mest úr því alla daga.

En skoðaðu hjarta þitt og sjáðu hvort þér finnist þú eiga skilið að eiga fallegt og gott líf, og ef þú finnur að þar skorti á, breyttu þá þeirri hugsun.

Þú átt bara það góða, fagra og fullkomna skilið, hver svo sem þú hefur verið í fortíðinni og hvað svo sem þú hefur gert í lífinu.. Stígðu upp til nýrra tíma og lífs. Dagurinn er þinn og lífið er svo sannarlega gjöf til þín, njóttu þess!

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira