c

Pistlar:

27. apríl 2016 kl. 15:33

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Þín innri rödd

innri röddFlest ef ekki öll höfum við upplifað það að við eigum rödd í brjósti okkar sem reynir eftir fremsta megni að segja okkur ef eitthvað er að, eða ef við ættum að gera eitthvað öðruvísi en við erum að gera, ekki satt?

En veljum við að hlusta á þessa rödd?

Ég held að við neitum í allt of mörgum tilfellum að hlusta, stingum puttum í eyrun og lokum á allar tilfinningar okkar til að þurfa ekki að heyra það sem þessi rödd hefur að segja okkur.

því miður segi ég því að hún gæti svo oft komið okkur frá vondum stöðum eða einfaldlega hjálpað okkur til að ná árangri þeim sem við leitum að og það jafnvel mjög skjótt.

Algengasta hunsunin á þessari röddu er líklega sú að þegar við vitum að við erum ekki að gera rétt þá förum við í innri samræður við okkur sjálf og finnum þar allar réttlætingar heimsins gegn því sem röddin ráðleggur okkur að gera eða segja. Og "röddin" tapar í allt of mörgum tilfellum þessu stríði rökræðnanna.

Önnur algeng hunsun er líklega sú að við neitum að stíga inn í óttann okkar á leiðinni að árangri og finnum allar hugsanlegar afsakanir fyrir því að vera bara á þeim stað sem við erum stödd á hverju sinni. Afsakanirnar yfirgnæfa auðveldlega þessa "rödd" og enn á ný tapar hún. (Frestunaráráttan)

Þriðja hunsunin er oft sú að við hlustum ekki á þessa djúpu óróleikatilfinningu sem er samt oft svo hljóðlát að við heyrum varla í henni, en verðum vör við hana með smá fiðringi í maganum. Þessi fiðringur varar okkur oft við því að ekki er allt sem sýnist eða virðist. Við  slökkvum á þessari tilfinningu allt of oft vegna þess að við finnum ekki rökin og sannanirnar sem gætu stutt við hana, en þessi fiðringur eða hljóðláta rödd er samt yfirleitt að segja okkur eitthvað mjög mikilvægt fyrir líf okkar og hún hefur yfirleitt rétt fyrir sér.

Notkun okkar á upplýsingum frá þessari innri röddu er í dag talin tengjast því sem við nefnum tilfinningagreind en sú greind er talin mjög mikilvæg ef góð samskipti eiga að eiga sér stað á milli manna og í samskiptum við okkur sjálf.

Ég heyrði reyndar einhvern tímann þá sögu að frumbyggjar Ástralíu sendu hvert öðru skilaboð með huganum og næmu þau í gegnum þessa innri röddu sína, hvort sem að sú saga er nú rétt eða ekki.

En hvað sem hægt er að segja um þessa innri rödd okkar er þó eitt sem er víst, það borgar sig fyrir okkur að setja fókus okkar á hana og fylgja því sem hún segir okkur, hún er okkar innra GPS tæki í gegnum lífið.

Og virk hlustun á þetta GPS tæki okkar hefur einhvern undramátt satt að segja, og þeir sem duglegastir eru að fylgja fyrirmælum hennar finna leiðir sem öðrum virðist ekki takast svo auðveldlega að finna -Þannig að -

USS USS - hlustum vel og vandlega og léttum okkur lífið og tilveruna með því að beita virkri hlustun á okkar innri rödd :)

Knús í ykkar hús

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira