c

Pistlar:

10. maí 2017 kl. 15:28

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Þær sorgir sem sjaldan er talað um.

Það er margt í lífinu sem getur valdið okkur sorg, en í raun skilyrðum við sorgina nánast einungis við það að missa í dauða þann sem við elskum og tengjumst fjölskylduböndum.

En sorgin býr víða og margt er mannanna bölið og langar mig að minnast á örfá atriði sem við hugsum kannski ekki oft um. 

En-

Að standa frammi fyrir því að missa góðan vin er oft á tíðum mjög erfitt og í raun er eins og hluti af þér sé farinn með honum líkt og þegar náinn ættingi deyr. Allar minningarnar og lífsupplifanirnar sem þið deilduð saman fara með viðkomandi, og kannski enginn sem er lengur til að vitna þær minningar með þér. En það eru fáir sem sýna þér stuðning við fráfall vina þinna og þú glímir yfirleitt við þína sorg í einrúmi.

Þegar fíknatengdir sjúkdómar koma upp í fjölskyldum þá breytist lífið hjá öllum sem tengjast þeim aðilum sem í fíkninni eru og erfitt sorgarferli fer í gang. Sorgarferli sem kannski fáir taka eftir eða tala um (oft á tíðum einnig falið af ættingjum) Brostnar vonir og væntingar fylla sálina á sama tíma og reynt er að breyta ástandinu til betri vegar oft án árangurs. 

Þegar heilabilun eða persónuleikabreyting verður á ástvini vegna sjúkdóms og lyfjagjafa og þeir sem við elskum hverfa inn í heim sem er okkur ekki kunnur veldur það mikilli sorg og kannski ákveðinni höfnunartilfinningu. Að eiga ástvin á lífi sem þó er horfinn í heim þar sem ekki er pláss fyrir okkur er erfiðari en margan grunar og sorgarferlið oft mjög langt.

Skilnaðir og sambandsslit eru vanmetin þegar við tölum um sorgir lífsins en í þeim tilfellum eru ýmist annar eða báðir aðilar að syrgja lífið sem þeir ætluðu sér að eiga og þar sem löng sambúð eða skilnaður á sér stað tekur lífið breytingum á svipaðan hátt og þegar um dauðsfall maka er að ræða. Fáir eru þó til að styðja við viðkomandi nema fyrstu skrefin og algengt að sagt sé við þann sem syrgir að alltaf megi finna annað skip og annað föruneyti og að ekki taki því að syrgja þar sem þetta hafi nú bara verið fyrir bestu. En sá sem syrgir er ekki að sjá skilnaðinn frá þessu sjónarhorni og dregur sig því of inn í skel sína og er þar einn með sorg sína. 

Að geta ekki eignast barn er mjög erfitt að horfast í augu við fyrir all flesta og ekki er er síður erfitt að  standa frammi fyrir fósturmissum. Hvorutveggja mjög vanmetið oft á tíðum sem sorgarferli og gleymist oft að hugsa út í þá kvöl sem þeir einstaklingar sem þetta upplifa ganga í gegnum.

Að lokum langar mig að minnast á sorgarferli sem við tölum heldur ekki mikið um, en það eru tímamótin sem verða stundum hjá okkur í lífinu. Tímamót sem verða gjarnan þegar gömul og dýrmæt hlutverk sem við höfum gegnt í lífinu eru ekki lengur til staðar. Hlutverk sem okkur þóttu svo sjálfgefin eins og vinnan okkar eða barnauppeldið. Breytingar af þessu tagi geta valdið mikilli sorg og í einhverjum tilfellum tilfinningu um tilgangsleysi lífsins og það sem einu sinni var er syrgt og kvíðatilfinning tengist framtíðinni.

En hvers vegna er ég að telja þetta allt saman upp hér?

Jú vegna þess að mig langar til að við séum öll meðvituð um að þeir sem standa í þessum sporum eins og svo mörgum öðrum stöðum sem ég hef ekki pláss til að minnast á í þessum litla pistli mínum þurfa á styrk okkar og stuðningi að halda. 

Eins vona ég að þetta pár mitt verði til þess við gefum okkur meira að náunga okkar og látum okkur umhugað um það sem hann er að ganga í gegnum hverju sinni.  Gefum okkur tíma í erli dagsins til að gefa klapp á öxl, smá spjall, bjóða í mat eða kaffi, ísrúnt og fl. Slíkt getur gefið svo miklu meira til þess sem syrgir en okkur gæti nokkru sinni grunað.

Gamla góða gullna reglan "komdu fram við náunga þinn eins og þú vilt að hann komi fram við þig" á hér sem annarsstaðar ágætlega við.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira