c

Pistlar:

10. desember 2017 kl. 15:11

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Aðventustress

Rakst á þennan gamla pistil sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum en á þó fullt erindi til okkar í dag að mínu mati og því ákvað ég að setja hann nánast óbreyttan hér inn með von um að Trölli nái ekki að stela jólunum ykkar. Í hans stað vona ég að hinn sanni kærleiksandi jólanna fylli hjörtu ykkar og þeirra sem þið elskið.

En hér kemur þessi gamli pistill.

Uppskrift að hamingju

2 sléttfullir bollar af gleði
1  hjartafylli af kærleika
2 handfylli af örlæti
dash af dillandi hlátri
1 höfuðfylli af skilningi og samhyggð

Vætið örlátlega með góðvild, látið helling af trú og einlægni og hrærið vel. 
Breiðið svo yfir þetta með heilli mannsævi. 
Berðu á borð fyrir alla sem ganga með þér í þessari jarðvist.

Á aðventu

Hvernig væri á þessari aðventu að við tækjum þessa uppskrift fram yfir sörurnar og piparkökurnar, og leyfðum okkur að njóta alls þess dýrmæta sem mannlífið og aðventa jólanna hefur uppá að bjóða…

Gönguferðir innan um jólaljós, kanil og eplalykt, snjókorn á tungu, gleði, hlátur, faðmlög og upplifun á  tærri fallegri ást til þeirra sem skipta okkur máli ættu að vera þeir hlutir sem við hefðum helst á dagskránni á þessum yndislega tíma (og ofkors alla aðra daga) í stað þeirra hluta sem við gjarnan setjum í öndvegi.

Flott en dösuð húsmóðir

Ég var áður fyrr ein af þessum brjálæðislega flottu húsmæðrum sem sá um að ekkert væri óhreint á heimili mínu fyrir jólin… silfrið var pússað, gluggar þvegnir, og Guð forðaði mér iðulega frá því að skáparnir, ísskápurinn og ofninn urðu ekki útundan í þessari árlegu hreingerningu…

Húsgögnin voru hreinsuð, teppin þvegin, rúmföt og allt annað straujað, jólafötin jafnvel saumuð á börnin, jólagjafir keyptar og eða föndraðar, og auðvitað pælt í þeim öllum útfrá þörf eða löngun þeirra sem áttu að fá pakkana, svo var skrifað á amk 60 jólakort, 20 tegundir af  bökuðum smákökum var ofkors algjör nauðsyn , rauðkálið var soðið uppá danskan máta, heimalagaður ís algjört möst, fromange og stríðstertur í bunkum bakaðar…

Húsið var skreytt í hólf og gólf á síðustu metrunum og þessi flotta húsmóðir gjörsamlega búin á því úttauguð og grátgjörn á Þorláksmessunni. En börnin voru auðvitað komin þá í tandurhreint rúmið í nýju náttfötunum sínum sæl á koddanum… og biðin eftir síðasta jólasveininum Kertasníki hófst…hann fékk auðvitað tilheyrandi bréf og kerti í skóinní staðinn fyrir dýrindispakkana sem hann iðulega skildi eftir… en þessi dasaða húsmóðir beið bara eftir því að þessari elskuðu og yndislegu hátíð lyki og aumur hversdagsleikinn tæki við. 

Ef ég gæti snúið til baka…

Börnin mín hlæja mikið af þessum tíma en fengu kannski samt nett ógeð á þessum stressaða jólaundirbúningi þar sem lítið rúm var fyrir æðruleysi, kærleika, ró, gleði, hlátur og samveru… og mikið skil ég það vel í dag hvað þetta fór í taugarnar á þeim… En jólin þeirra skyldu verða fullkomin og flott hvað sem það kostaði! Ný föt, klipping, náttföt, nærföt og allt til alls var það sem ég vildi fyrir börnin mín…ekkert minna dugði fyrir þessa elskuðu einstaklinga… En kostnaðurinn var kannski of mikill… gleðina og yfirvegaðan kærleikann vantaði…

En lítið vissi ég um það hvað allir þessir hlutir sem ég lét í öndvegi skipta litlu máli í undirbúninginum, eða hversu mikið ég í raun eyðilagði gleði og kærleiksþel jólanna með þessari fullkomnunaráráttu minni… Og ef ég gæti snúið til baka þá yrðu jól barnanna minna öðruvísi, þvi get ég lofað ykkur…

Þau fengju að upplifa kærleika minn og gleðina yfir því að frelsari minn fæddist hér í þennan heim… það yrði hlátur í stað prirrings… gleði við að skapa jólin í sameiningu hvort sem skítur væri í gluggum eða skápum heimilisins… jólaljósin og kertin gera allt fallegt hvort sem er.

Börnin fundu að eitthvað vantaði

En var ekkert gert sem gleði gat gefið í öllum þessum látum? Jú jú, það var farið niður í bæ þegar jólaljósin voru tendruð á Austurvellinum og kakó drukkið á eftir með rjómavöfflum, en lítil ánægja fylgdi því fyrir mig og líklega börnin mín einnig þar sem svo mikið var eftir að gera og enginn tími fyrir svona óþarfa.. auðvitað hafa börnin mín fundið að það var eitthvað sem vantaði… mamma var ekkert sérstaklega glöð og kát í undirbúningi þessarar gleðihátíðar….

Það var líka farinn Laugavegs, Blómavalsrúntur og fl , en eins og með annað vantaði alveg æðruleysið og gleðina inn í uppskriftina…

Þessi hátíð ljóss og gleði getur orðið að sannkallaðri martröð fyrir alla þegar við ætlum að gera hana svo fullkomna að við gleymum uppskriftinni að hamingjunni og kærleikanum…

Sem færir mig aftur að byrjunarreitnum… og að ráði mínu til mín og til þín sem þetta lest er:

Njótum samvistanna við þá sem okkur eru kærir, kaupum frekar smákökurnar úti í búð eða fækkum tegundunum og njótum þess að vera bara til…

Leikum okkur, skoðum öll undrin sem eru fyrir augum okkar allstaðar, fallegu ljósin, glingrið, finnum matarilminn, gleðina og kærleikann í loftinu, leyfum okkur að upplifa það að opna hjarta okkar fyrir því góða sem í lífinu býr og þökkum fyrir það sem við höfum í kringum okkur… elskum og njótum hverrar mínútu.

Við vitum ekki hversu lengi við fáum að njóta samvista við þá sem okkur eru kærir, svo nýtum tímann vel.

Með jólaljósagleðikveðjum til þín og þinnar fjölskyldu, með innilega kærleiksríkri ósk um gleðilega og fallega aðventu.

Þar til næst elskurnar
Ykkar Linda xoxo

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira