c

Pistlar:

24. janúar 2017 kl. 14:44

Ásdís Ásgeirsdóttir (ljomandidisa.blog.is)

Iðrasinfónía í bíó

Í síðustu viku ákvað Þorbjörg að við ættum að lifa á fljótandi næstu daga, allt upp í sjö daga. Misjafnt var hvað fólk treysti sér í en ég ákvað að reyna við fimm daga. Skyldi detoxið byrja á laugardegi þar sem ég var að fara í afmælissaumaklúbb á föstudagskvöldinu. Mér fannst of hallærislegt að sitja þar með djús í flösku þegar boðið var upp á kvöldmat. Alla vega, saumaklúbburinn klikkaði ekki frekar en venjulega og var hlegið til miðnættis. Það var kjúklingur og salat í matinn sem var alveg innan skekkjumarka hvað má borða í þessu aðhaldi, nema ég sá glitta í smá fetaost í réttinum. Eftirmaturinn var verri. Eða betri, eftir því hvernig litið er á það. Það voru súkkulaði brownies toppaðar með hnetum af einhverju tagi. Nammi! Ég sem hafði ekki bragðað sykur þarna í þrjár vikur ákvað að hrasa um stund, vitandi að handan við hornið beið mín fimm daga hreinsun. Hrösunin var unaðsleg og sæta súkkulaðibragðið dásamlegt. Ég fann samt alveg strax að maginn var ekki jafn sáttur og munnurinn, en stundum fær munnurinn að ráða. Maður tekur þá bara afleiðingunum. Don´t do the crime if you can´t do the time. Er það ekki sagt í Ameríkunni?
Jæja, svo leið að laugardegi og þá hófst þessi blessaða úthreinsun eða hvað þetta kallast. Í volgt vatn var blandað epsom salti, ólífuolíu og sítrónusafa. Vægast sagt algjör viðbjóður! Þessu var rennt niður og smjörkaffið og vítamínin á eftir. Síðan var beðið. Og beðið. Skruðningar og læti í maga og síðan tíðar ferðir á klósett. Við förum ekkert nánar út í það! Þetta tók hálfan daginn og naut ég þess að horfa á seríuna Shameless á milli þess sem hlaupið var. Djúsar og prótínsheikar var eina fæðið. Svona leið þessi dagur og sá næsti, sem var eiginlega Groundhog day.

Mér fannst vinir mínir á facebook ekkert vera að sýna mér tillitsemi þessa helgina. Það voru ekkert nema matarmyndir! Það var verið að pósta Líbönskum mat frá London, súkklaðiköku og ís með berjum og miklum rjóma svo eitthvað sé nefnt. Ég var farin að láta mig dagdreyma um ýmsar tegundir matar sem ég borða ekki einu sinni, nema kannski einu sinni á ári. Fékk gríðarlega löngun í KFC kjúkling til dæmis. Löðrandi í fitu! 

Ég get alveg sagt ykkur að ég hef lifað skemmtilegri helgi. Á sunnudagseftirmiðdag var ég orðin svo leið á að hanga heima nálægt klósetti að ég sendi út boð á vinkonur að koma í bíó. Ákváðum við að skella okkur á LaLaLand. Ég valdi mér sæti við gangveginn svo ég gæti hlaupið ef svo bæri undir. Þetta voru ákveðin mistök. Myndin var tveir og hálfur tími og allan tímann ólgaði í maganum með tilheyrandi skruðningum. Sem betur fer var myndin söngvamynd og heyrðist því minna í minni iðrasinfoníu. Mánudagurinn leið á djúsum og prótíndrykkjum en sem betur fer þurfti ég ekki að drekka saltblönduna og gat því mætt til vinnu. Skapið var samt ekki upp á það besta. Ég var líka undarlega viðkvæm og gat tárast við minnsta tilefni; kannski vorkenndi ég sjálfri mér að mega ekki borða humarbökuna úr Saffran sem ég bar á borð fyrir drengina mína. Það var alveg eitthvað til að gráta yfir!
Klukkan ellefu um kvöldið sprakk ég á limminu. Laumaðist niður í eldhús og sauð mér tvö egg. Hugsaði með mér að linsoðin egg eru nánast fljótandi. Þetta var borðað eins og egg hafa aldrei áður verið borðuð. Þau voru svo góð!
Ég vaknaði svo á þriðjudegi eftir svefnlausa nótt og saup á svörtum safa. Nú verður foringinn ekki sáttur en þetta var svo vont að ég frussaði þessu í vaskinn. Ég er kannski of mikil prinsessa eða eitthvað en ég bara gat ekki drukkið þennan drykk sem minnti helst á sjávarsand. Ég fór í vinnuna og ákvað að nú væri detoxið mitt búið! Fimm dagar urðu þannig að þremur. Úps!
En auðvitað held ég áfram í hinu; sykurlaust, hveitilaust og mjólkurafurðalaust. Eitt er ég sátt við; beltið á buxunum er laflaust og 3.5 kíló farin frá áramótum. Áfram með smjörið!

Ásdís Ásgeirsdóttir

Ásdís Ásgeirsdóttir

Ég er blaðamaður og ljósmyndari og skrifa í Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

Meira