c

Pistlar:

14. desember 2016 kl. 11:03

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

25 bps lækkun stýrivaxta - viðbrögð

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti 0,25% í morgun. Eru þeir því komnir í 5,00%. Einhverja hluta vegna virtist þetta koma markaðsaðilum á óvart (nefndin var allt af því klofin á síðasta fundi) því að ávöxtunarkrafa íslenskra ríkisskuldabréfa lækkaði um 25 bps í flestum flokkum.

Yfirlýsingin

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands samhliða tilkynningu um vaxtalækkunina kemur fram að meiri hagvöxtur hafi átt sér stað á fyrstu níu mánuðum ársins en Seðlabankinn sjálfur spáði. Kröftugur þjónustuútflutningur, sem er augljóslega tengt fjölgun ferðamanna, hafði mikil áhrif.

Aðrir þættir voru nánast eins og spár gerðu ráð fyrir. Meðal annars mælist verðbólga enn lág. Hún hefur þó ekki verið hærri en nú síðustu tvö ár. Ytri skilyrði hafa verið hagstæð í þeim efnum, íslenska krónan hefur styrkst og auk þess telur Seðlabankinn að aðhaldssöm peningastefna hafi haft áhrif, "sem hefur skapað verðbólguvæntingum kjölfestu." 

Hægt er að vera sammála um þessi fyrstu tvö atriði. Verð á olíu hefur haldist lágt en nýlegar hækkanir á verði olíu erlendis gerðu það að verkum að hlutabréf í Eimskip og Icelandair féllu í virði. Ytri skilyrðin eru því brothætt. Styrking íslensku krónunnar hefur einnig dregið mjög úr verðbólgu því verð margra innfluttra vara hefur lækkað undanfarið. Ég tel mig einnig vera að sjá merki um það að sumir smásalar séu farnir að lækka verð á vörum í undanfara á komu Costco til Íslands (ég nefni ekki ákveðin dæmi).

Aðhaldssöm peningastefna Seðlabankans hefur hins vegar haft takmörkuð áhrif. Það er miklu frekar sú staðreynd að bankar hafi verið með aðhaldssama peningastefnu í útlánum sem dregið hefur úr peningaprentun og verðbólgu. Fólk hefur í flestum tilfellum dregið úr neyslu og hefur hún til dæmis verið undir ráðstöfunartekjum undanfarin misseri (þetta gæti hafa verið að breytast síðustu mánuði). Auk þess hafa launahækkanir að stórum hluta tengst auknu framlagi í lífeyrissjóði, sem þýðir að hluti af þeim hækkunum fara ekki út í verðlagið heldur í sparnað. Það mætti jafnvel færa rök fyrir því að aðhaldssöm peningastefna Seðlabankans hafi haldið fjármögnunarkostnaði fyrirtækja háan sem hafi að einhverju leyti farið út í verðlagið.

Túlkun

Það er að mínu mati sárafátt sem fram kemur í tilkynningu Seðlabankans sem rökstyður 0,25% lækkun stýrivaxta, sérstaklega í ljósi fyrri yfirlýsinga peningastefnunefndar bankans. Verðbólga hefur ekki verið hærri í töluvert langan tíma og hagvöxtur er, og samkvæmt flestum spám verður, á blúsandi siglingu.

Að mínu mati er skýringin miklu frekar sú að núverandi vaxtastefna stenst ekki lengur miðað við erlendar aðstæður. Þrátt fyrir þess vaxtahækkun og ögn hækkandi verðbólgu þá eru raunstýrivextir enn rétt tæplega 3%. Slíkt er sögulega óalgengt og miðað við vaxtastig í dag á alþjóðlegum mörkuðum er það einsdæmi. 

Raunvaxtastig, þ.e. vextir umfram verðbólgu, er í flestum vestrænum ríkjum nú í kringum núll, og jafnvel neikvætt. Það er skiljanlegt að vaxtastigið hérlendis sé hærra því hér er hagvöxtur miklu hærri en erlendis. Nú þegar að afnám hafta er handan hornsins (það eru vel að merkja höft enn við lýði, aðallega fyrir erlenda fjárfesta sem hefðu áhuga á því að fjárfesta í íslensk skuldabréf) verður æ erfiðra að hafa sjálfsstæða vaxtastefnu, þ.e. stefnu sem er í engu samræmi við vaxtastefnu við helstu viðskiptalönd Íslands.

Íslenska krónan er orðin það sterk að hún er nú orðinn sterkari en hún var hið fræga ár 2007 - sjá 2007 ISK. Flestir voru, með baksýnisspegil að vopni, sammála um að hún hafi verið allt of sterk og hefði það skapað ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Innflutar vörur voru of ódýrar og útflutningsgreinar áttu í vök að verjast.

Þessi ofangreind atriði hafa kallað á raddir um að hugsanlega þyrfti að beintengja íslensku krónuna. Önnur leið væri að Seðlabankinn keypti enn meiri gjaldeyri til að sporna við gengi íslensku krónunnar. Báðar leiðir eru þó til lengri tíma ekki raunhæfar. Þetta fjallaði ég nýlega um í pistli mínum Hinn ómögulegi þríhyrningur og stýrivextir

Því tel ég að Seðlabankinn sé að lækka stýrivexti því að ljóst er að sporna þarf við frekari styrkingu krónunnar. Núverandi vaxtamunur er of hár og auka þarf hvata til að fá Íslendinga til að spara erlendis, sem myndi sporna við styrkingu krónunnar. Að mínu mati gætu stýrivextir á næsta ári lækkað vegna ofangreindra þátta um 2% til viðbótar. Samhliða slíkri lækkun þurfa stjórnvöld og fjármálafyrirtæki þó að gæta aðhalds í útlánum og framkvæmdum til þess að hér eigi sér ekki stað 2007 ofris í efnahagslífinu.

MWM

ps. Ég hélt nýlega fyrirlestur um íslensku krónuna og hinn ómögulega þríhyrning og stýrivexti í Háskólanum í Reykjavík nýlega. Hægt er að sjá fyrirlesturinn hérna - https://youtu.be/3SSGHzhT7k8

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira