c

Pistlar:

14. maí 2013 kl. 20:56

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Hver vill "glaðan áratug"?

Í kvikmyndinni The Great Gatsby fær 1920-glamúrinn að njóta sín til fulls með gleði, glassúr og demöntum. Á þessu tímabili drukku dömurnar kampavín, reyktu sígarettur með munnstykki og dönsuðu charleston uppi á borðum í art deco-prýddum híbýlum.

Það er því ekki að undra að tímabilið 1920-1930 sé kallað „glaði áratugurinn". Kjólarnir voru yfirleitt ermalausir, perluskreyttir með kögri og dágóðri hreyfivídd, svo hægt væri að dansa alla nóttina án þess að kjóllinn þrengdi að og eyðilegði gott partí. Þú getur gleymt því í kjól með pensil-sniði...

Hárið var líka sérstaklega klippt þannig að hárgreiðslan færi ekki úr skorðum þótt gleðin stæði yfir í átta tíma eða meira. Hárið nam gjarnan við eyru og því var haldið frá andlitinu með hárspennu í annarri hliðinni eða með „geislabaug". Sem sérstök áhugamanneskja um „geislabauga", eða partíbönd eins og þau eru gjarnan kölluð í mínum innsta hring, get ég sannað að það gerist alltaf eitthvað skemmtilegt þegar partíbandið er á sínum stað...

Carey Mulligan fer með aðalhlutverkið á móti Leonardo DiCaprio í The Great Gatsby sem frumsýnd verður hérlendis 17. maí. Á „glaða áratugnum" voru fötin ekki bara fín heldur var mikið lagt upp úr fínum og stórum skartgripum. Skartið sem Mulligan bar í myndinni er frá Tiffany & Co og getur „almenningur" keypt gripina úr línunni í fyrrnefndum verslunum. Skartgripirnir voru reyndar svo rándýrir að ráða þurfti sérstakan „skartgripavörð" á tökustað svo góssinu yrði hreinlega ekki stolið. Það er kannski ekkert skrýtið því bara hárspöngin sem hún var með í myndinni kostar yfir 40.000 krónur íslenskar í Tiffany & Co. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað perluarmböndin sem hún bar á báðum úlnliðum kosta.

Hvað sem því líður á myndin án eftir að hafa jákvæð áhrif á sumartískuna. Það var varla búið að frumsýna myndina í Bandaríkjunum þegar TopShop, Jigsaw, Harrods, Benefit, Zara og fleiri tískufyrirtæki voru komin með The Great Gatsby-varning til sölu.

Þar sem við Smartlöndur elskum glys og demanta hvet ég ykkur til að ganga alla leið og vera óhræddar við að setja glimmer-„geislabauga" í hárið, dansa uppi á borðum heilan vinnudag og láta eins og „glaði áratugurinn" sé akkúrat núna. Svo er ágætt að hafa það bak við eyrað að hver og ein stýrir sinni lífshamingju og hver vill „glaðan áratug" ef það er hægt að feta hina „glöðu lífsleið"... Af hverju að einskorða skemmtilegheitin við tíu ár? martamaria@mbl.is