c

Pistlar:

2. júní 2013 kl. 0:23

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Þeir fiska sem róa

Hjörtu sjómannsdætra slá á réttum stöðum fyrstu helgina í júní. Sjómannadagurinn er jafnheilagur og 17. júní og þá fara sjómannsdætur í bæinn í vönduðum háhæluðum skóm, með lekkera slöngulokka í hárinu, leðurhanska og rauðan varalit ...

Sjómannsdætur anda ekki að sér helíumi þennan dag og ekki klína þær kandíflosi í hárið á sér. Nei, sjómannsdætur eru vandaðar. Þær haga sér eftir bókinni og smeygja sér í fínustu fötin. Og af því þær eru svo vandaðar gæta þær þess vel að mæta til leiks vel undirbúnar. Vikuna fyrir Sjómannadaginn fara þær í háttinn tveimur tímum fyrir miðnætti, njóta þess að hreyfa sig daglega (þó ekki of harkalega), sofa með djúpnæringu í hárinu og bera laxerolíu á andlitið því hún dregur úr bólgum og ýkir innri og ytri fegurð. Þær allra hörðustu taka olíuna inn en passa sig á því að segja ekki nokkrum lifandi manni frá því (því það er pínu sjoppulegt).

Fataskápar sjómannsdætranna eru fullir af gersemum líkt og gullkistan sem umlykur Ísland. Þar er að finna aragrúa af vönduðum dökkbláum fötum og ef þær hafa val taka þær gulltölur alltaf framyfir hefðbundnar. Þær kjósa röndótt framyfir doppótt og eiga flestallar beigelitaða rykfrakka sem þær nota óspart.

Sjómannsdætur eru aldar upp við það að þeir fiski sem róa. Þennan góða frasa er hægt að heimfæra upp á nánast hvað sem er í tilverunni. Þess vegna er gott að minna sig á að gera ekkert á morgun sem hægt er að framkvæma í dag. Með þetta að vopni verður lífið svo miklu litríkara og ennþá skemmtilegra. Til hamingju með daginn, pabbi!