c

Pistlar:

11. júní 2013 kl. 16:30

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Exótískt framsóknarsumar

Á meðan lægðirnar mokast yfir suðvesturhornið er ágætt að nýta tímann í eitthvað annað en að svekkja sig yfir framsóknarsumrinu ógurlega sem framundan er. Rigningin er góð fyrir túnin í sveitum landsins og allt verður grænna og ferskara í þessu veðurfari... nema kannski mannsandinn.

Þegar ég var búin að vakna við rigningu dag eftir dag hugsaði ég með mér að þetta gengi ekki lengur. Nú skyldi ég keyra upp mína innri Hawiian Tropic-gellu án þess þó að maka á mig dekksta brúnkukreminu og fara í rauðan Pamelu Anderson-sundbol. Ég þyrfti að finna nýjar leiðir til þess að lífið yrði aðeins meira eins og í „Club Tropicana“-myndbandinu með Wham. En þá vaknaði ég og mundi eftir rauðu Versace-buxunum sem keyptar voru í sænska móðurskipinu H&M.

Fyrrnefndar buxur voru keyptar í svartasta skammdeginu í H&M-verslun í Berlín og voru einar eftir á slá. Ástæðan fyrir því að þær voru einar eftir á fataslánni er líklega sú að þær mátast ekkert sérstaklega vel.

Það er ekki beint grennandi þannig séð að klæðast æpandi rauðum buxum með pálmatrjám. En það er samt sem áður nauðsynlegt að eiga þær í fataskápnum sínum og ef framsóknarsumarið verður eitthvað í líkingu við upphaf þess þá getur vel verið að ég verði í þeim dag eftir dag í allt sumar. Þær lyfta andanum og koma í veg fyrir að ég þurfi að hafa sálfræðing í fullu starfi til að hressa mig við andlega.

Konur í rauðum buxum með pálmatrjám eru líka mun líklegri til þess að lenda í skemmtilegum ævintýrum. Þær eru augljóslega ekki með fitukomplexa (því annars færu þær aldrei í buxurnar) og nokkuð sáttar við eigið hlutskipti.

Það hlýtur líka að vera einhver ástæða fyrir því að margir af flottustu hönnuðunum voru með pálmatré og exótísk munstur í sumarlínunum sínum 2013. Þegar ytri aðstæður eru ekki sem ákjósanlegastar skiptir máli að hafa innri aðstæður í lagi... allavega þangað til annað kemur í ljós...