c

Pistlar:

18. ágúst 2013 kl. 14:59

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Óþekkar í hvítu

Það er yfirleitt ekki venjan að mann langi í hvít föt í síðsumrinu, en lífið er svo dásamlega óútreiknanlegt á köflum, að ég vissi ekki fyrr en ég stóð inni í mátunarklefa í skjannahvítri hnésíðri kápu eins og ekkert væri eðlilegra...

Veðurfarið kallaði kannski ekki beint á snjóhvíta kápu, meira svona pollagalla með hettu og vöðlur, en mér leið engu að síður eins og drottningu þegar ég var komin í hana. Hugurinn reikaði fram í tímann og um stund leið mér eins og myndi ekki lifa þennan samkvæmisvetur af nema að eiga eins og eina hvíta kápu. Leikhúsferðir, tónleikar og afmæli vetrarins yrðu litlaus ef engin væri kápan.

Það er eitthvað við hvít föt sem er svo ógurlega sjarmerandi en á sama tíma eru þau svo hættuleg eitthvað. Lýsingarorðin sjarmerandi og hættulegt gætu reyndar átt við margt í lífinu. Það er einhvern veginn þannig að það sem kallar á vesen og dálitla óvissu verður yfirleitt meira spennandi...

Áhættan við að fjárfesta í hvítum fötum er töluverð. Þetta er pínulítið eins og að hafa keypt hlutabréf í banka sumarið 2008 ... Þegar þú kaupir hvít föt veistu nefnilega ekki hvort þau verði einnota eða ekki. Mæður ungra drengja með mikla snertiþörf ættu til dæmis alls ekki að klæðast hvítu nema að þær séu haldnar spennufíkn á háu stigi.

Það má þó ekki gleyma því að lífið verður svo litlaust ef við tökum aldrei áhættu. Ef við ætluðum alltaf að vera praktískar myndum við panta okkur 10 svartar flíspeysur um leið og við löbbuðum út af fæðingardeildinni og klæðast þeim þangað til barnið yrði 10 ára. Þá yrðum við aftur við sjálfar og gætum farið að lifa lífinu...það er að segja ef við værum ekki búnar að drepa okkur áður.

En hvernig eigum við að klæðast hvítum fötum? Í hausttískunni ber töluvert á hvítu við hvítt og má fabúlera endalaust með það og prófa sig áfram án þess að við lítum út fyrir að vera í hjúkkubúningi. Að blanda svörtu og hvítu saman er alltaf elegant og ef þú ferð til dæmis í hvítan jakka er upplagt að fara í svartar buxur við. Coco Chanel var fær í að blanda þessum tveimur litum saman. Hún notaði svartar líningar á hvít föt og öfugt sem gerðu þau ennþá meira elegant. Ef þú hnýtur um slíkar flíkur skaltu endilega máta og gefa séns.

Það er áskorun fyrir mjög óþekkar konur að klæðast hvítu. Í lifi óþekku kvennanna gengur nefnilega oft á ýmsu og þá getur verið stórhættulegt að vera mikið í hvítum fötum. En stundum þurfum við að ögra okkur, líka óþekku konurnar, og fara út úr litla pappakassanum til að sjá nýjar hliðar á tilverunni...