c

Pistlar:

2. september 2013 kl. 11:24

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Þetta hálsmen er allt of cheap

Í síðustu viku efaðist ég um að tískupistlar mínir yrðu fleiri þar sem ég var ekki viss um að komast lifandi í mark eftir 21 km hlaup. Eins undarlega og það hljómar þá er seigara í smáhestinum en marga grunaði og komst hann í mark á tveimur klukkutímum og 19 mínútum... Það er því ekkert annað uppi á teningnum en að halda áfram yfirferðinni á hausttískunni.

Eitt af því sem er mest áberandi þetta haustið eru risavaxin hálsmen. Stóru hálsmenin koma í allskonar útgáfum, mest úr svona „gervigulli", „gervidemöntum" og „gerviperlum" ... Já þetta hljómar náttúrlega agalega en það er aldeilis hægt að leika sér með þetta ... eða það hélt ég!

Frasinn „fake it til you make it" hefur alltaf hljómað eins og músík í mín eyru eða þar til ég hitti „vintage-séns" á bar (að næturlagi). „Vintage-sénsinn" hafði ég varla séð í áratug enda vorum við kornung þegar leiðir okkar lágu saman og síðan hefur hann mest búið erlendis. Eftir að hafa spjallað saman í nokkra sund leit hann á mig og sagði: „Þetta hálsmen er allt of „cheap" fyrir þig Marta" ... Mig langaði mest að öskra, sparka í sköflung og kýla í maga, en af því ég er vönduð setti ég upp sparibros og sagði honum að senda mér almennilegt hálsmen af meginlandinu. Þar sem hálsmenið hefur ekki enn skilað sér geri ég ráð fyrir að það sé fast í tollinum ...

Mér finnst alltaf jafn áhugavert að sjá skoðanamuninn hjá körlum og konum þegar kemur að klæðaburði kvenna. Kvenpeningurinn heldur oft og tíðum að hann sé algerlega „on fire" ef hann fylgir nýjustu tískustraumunum eftir bókinni, en eftir að hafa gert nokkrar persónulegar rannsóknir held ég að þetta sé rangt. Karlar vilja að konur séu klassískar og alls ekki „cheap". Eða allavega þeir meðvituðu (sem eru alls ekki allir ... þetta er minnihlutahópur).

Það kom á daginn að alvöru körlum, þeim meðvituðu, finnst svona „drasl-hálsmen" alger viðbjóður og þeir skilja ekkert í okkur konunum að vera að veggfóðra á okkur hálsinn með þessu. Þeim finnst stórir klunnalegir hringir líka agalegir ásamt ósmekklegum illa pússuðum skóm og stórum belgmiklum peysum. Einn nefndi líka að allt of háir hælar væru „off" og að konur yrðu eins og gamlir bændur úr A-Húnavatnssýslu í þeim (því fæstar í þeim gætu gengið á þeim).

Þannig að, ef þú ert á allt of háhæluðum skóm sem þú getur ekki gengið á, við belgmikla stóra peysur og með stóra og klunnalega skartgripi þá getur þú bara gleymt þessu ... eða þannig. Hver kona á auðvitað að fylgja hjartanu og gera nákvæmlega það sem henni sýnist og kona á alls ekki að klæða sig til að þóknast karli - þvert á móti.

Svo má ekki gleyma því að þegar öllu er á botninn hvolft vill karlpeningurinn yfirleitt hafa kvenpeninginn án fata ...