c

Pistlar:

3. nóvember 2013 kl. 18:23

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Minn tími mun koma

Jóhanna Sigurðardóttir setti svip sinn á stjórnmálalíf landsins alla sína tíð en ekki hafði ég hugmynd um, fyrr en ég las bókina Við Jóhanna eftir Jónínu Leósdóttur, hvað einkalíf fyrrverandi forsætisráðherrans hafði verið stormasamt. Í nýútkominni bók skrifar Jónína Leósdóttir, eiginkona Jóhönnu, um ástarsamband þeirra á áhrifaríkan og áhugaverðan hátt. Hvernig tvær giftar mæður urðu skotnar hvor í annarri, skildu við eiginmenn sína og lifðu „leynilífi“ til þess að kynhneigð þeirra myndi ekki koma niður á stjórnmálaferli Jóhönnu.

Í bókinni er hægt að fá fína innsýn í liðinn tíma, sérstaklega í fatnaði. Áður en ég las bókina hafði ég ekki velt fatastíl Jóhönnu Sigurðardóttur neitt sérstaklega fyrir mér en í bókinni lýsir Jónína á sjarmerandi hátt hvernig sú fyrrnefnda klæddi sig gjarnan. Hún lýsir drögtunum hennar og hvernig hún klæddi sig af öryggi. Hafði Jóhanna svo mikil áhrif á Jónínu að áður en hún vissi af var hún sjálf komin með alvöru skjalatösku úr leðri sem þótti heldur betur stöðutákn fyrir kvenfrelsi í kringum 1985.

Þegar ég fór að grúska í myndasafni Morgunblaðsins áttaði ég mig á því að Jóhanna hafði algerlega tollað í tískunni. Hárið var alltaf blásið og gleraugun á sínum stað en þau fylgdu algerlega ráðandi tískustraumum hverju sinni. Stundum var hún með risastór gleraugu og stundum voru þau minni.

Árið 1983 voru konurnar á alþingi myndaðar í garði alþingishússins og má sjá glögglega hvað þótti það alsmartasta á þeim tíma. Þar voru Kristín Halldórsdóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kolbrún Jónsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Margrét Frímannsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og Salóme Þorkelsdóttir allar í pilsum með A-sniði sem náðu niður fyrir hné, nema Margrét Frímanns – hún var í síðbuxum.

Í myndasafninu sást Jóhanna gjarnan í köflóttum eða röndóttum jökkum og oftar en ekki var hún í hvítri skyrtu innan undir - svo ekki sé minnst á allar perlufestarnar. Hún átti myndarlegt dragtasafn og ýmist með buxum eða pilsum. Það merkilega við jakkana hennar Jóhönnu er að þeir eru eins og klæðskerasniðnir inn í hausttískuna 2013. Í dag myndi ég kalla þennan fatastíl „retro-glam“ og eins og nafnið gefur til kynna má vel vinna með hann.

Sannleikurinn er sá að við komumst fæstar langt nema okkur liggi raunverulega eitthvað á hjarta og séum tilbúnar að leggja „allt“ á okkur til að komast þangað sem við ætlum okkur. 

ALÞINGISMENN-8-1983 ( TI-33

Sem minnir mig á svölustu setningu fyrr og síðar sem rann upp úr Jóhönnu þegar hún tapaði fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni í formannskjöri á flokksþingi Alþýðuflokksins í júní 1994. Næst þegar allt fer í „fokk“ hjá þér skaltu bara hugsa til Jóhönnu – „Minn tími mun koma.“