c

Pistlar:

24. nóvember 2013 kl. 12:53

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Martraðir á færibandi

Það er alltaf dálítið djöfullegt þegar martraðir lífs manns verða að raunveruleika... Svona áður en ég fer lengra vil ég taka það fram sérstaklega að þessi martröð er ekki ein af „stóru áföllunum“ í lífinu en getur engu að síður sett allt úr skorðum hjá einhleypum konum á fertugsaldri. Að týna snyrtibuddunni svona rétt fyrir mesta kokkteilboðamánuð ársins er ávísun á vesen svo ekki sé minnst á hvað það er kostnaðarsamt.

Þetta hefði alls ekki verið svona mikið vesen fyrir áratug. En eftir að vinnan og móðurhlutverkið fóru að ryksuga upp allan frítíma, stressið jókst og áhyggjurnar urðu meiri þarf konan oft á öllum leynitrixunum að halda til þess að geta hreinlega mætt sjálfri sér í speglinum.

Ég veit ekki alveg hvað þetta er með mig og martraðir lífs míns en þeim rignir dálítið yfir mig þessa dagana. Það er ekki langt síðan hin martröð lífs míns helltist yfir mig í bókstaflegri merkingu. Ég hef lengi óttast það að kveikt yrði á Vitamix-blandaranum án þess að lokið væri á. Á dögunum var ég að útbúa desert fyrir litlu monsurnar (syni mína) sem samanstóð af AB mjólk, döðlu og frosnu mangói. Eitthvað varð yngri monsan óþolinmóð og fannst þetta ekki ganga nógu hratt fyrir sig og kveikti á græjunni með þeim afleiðingum að allt innihald blandarans endaði uppi á eldhúsveggjunum hjá okkur...og svo fór þetta að leka niður á gólf. Ég gleymi seint skeifunni sem kom á litlu monsuna þegar hann áttaði sig á því hvað hann hefði gert...en af því hann á svo þroskaða og vel innréttaða móður þá setti hún upp sparibros, tróð sér í bleika gúmmíhanska og byrjaði að þrífa (og svo má ekki gleyma því að hún er mjög heppin að hafa ekki runnið til í AB mjólkinni og handleggsbrotnað).

En hvað gera konur þegar þær týna snyrtibuddunni sinni? Jú, þær fara inn í baðskápana og reyna að finna eitthvað sem þær geta notað í staðinn? Jú, jú, ég fann litað dagkrem, serum og alls konar augnskugga og því var ekkert annað í stöðunni en að klína þessu framan í sig. Þegar ég var búin að setja þetta á mig fannst mér ég alveg vera í toppmálum. Á leiðinni í vinnuna fór mér að hitna verulega í kinnunum en ég lét það ekki á mig fá og keyrði beinustu leið upp í Hádegismóa. Þegar ég var komin í vinnuna þurfti ég að fara á snyrtinguna eins og gengur og gerist hjá fólki og álpaðist til að líta í spegil.

Það var einmitt á því augnabliki sem sjokkið kom. Serumið hafði líklega ekki passað við litaða dagkremið og svo hafði ég bókstaflega klínt þessu framan í mig (sem er ekki vandað). Augnskugginn sem ég bar á mig með gömlum augnskuggapensli hafði séð til þess að augnskugginn var eiginlega allur hruninn niður á kinnar. Ég var því svolítið eins og sebrahestur með glóðarauga.

Við tóku miklar æfingar við að reyna að ná þessu af með vatni og bréfþurrku – sem ég mæli ekkert sérstaklega með. Þetta versnaði eiginlega um helming með þeim gjörningi.

Eftir vinnu fór ég beinustu leið og keypti Primer, til að fylla upp í hrukkurnar og léttan frúarfarða, ferskjulitaðan kinnalit og brúnbrons vatnsheldan blýant sem þolir allt...táraflóð, sundferðir og allt þar á milli. Það veitir víst ekki af því ef martröðunum heldur áfram að rigna yfir mig. Amen.