c

Pistlar:

13. janúar 2014 kl. 10:45

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Saltað og sykrað lífsblóm

mad-men-2.jpgVissir þú að það tekur okkur tíu daga að núllstillast eftir jólin? Tíu daga að afsykra og afsalta líkamann og komast aftur í eðlilega svefnrútínu. Tíu daga að venja okkur af því að stinga öllu gotteríi sem á vegi okkar verður upp í okkur og tíu daga að venja okkur á að klæða okkur í venjuleg föt – ekki bara náttföt eða spariföt til skiptis.

Eina tískupælingin svona í upphafi árs er því ekki hvað þú átt að kaupa þér á útsölu. Þetta snýst um að verða aftur heil/l eftir þessi ósköp. Þegar við erum aftur komin á núllpunkt (sem ætti undir öllum venjulegum kringumstæðum að vera nú um helgina) getum við farið að plotta, plana og halda áfram þar sem frá var horfið – sprækari en nokkru sinni fyrr enda nýtt tungl og allt það!

Það gæti þó tekið aðeins lengri tíma fyrir þá sem voru „all in“ í desember (ekki bara um jólin). Flestar konur sem ég þekki finna það strax ef þær borða of mikið salt og drekka of mikið vín marga daga í röð.

Það djöfullega við gjafir lífsins eins og sykur-, salt- og vínmarineringar er hvað þær fara óskaplega illa með ytri ásjónu. Það sést á okkur um leið ef við leyfum okkur of mikið af því góða. Kinnarnar verða ekki bara of „puffy“ heldur getur litarháttur húðarinnar tekið breytingum (verður rauðari og flekkóttari) og svo getur verið erfitt að renna hnéháum leðurstígvélum upp ef of vel hefur verið gert við sig. Það var þó eitt sem mér yfirsást – þar til móðursystir mín las mér pistilinn. „Ég heyri alltaf á röddinni þinni ef þú hefur drukkið vín kvöldinu áður. Þú verður eitthvað svo andlega fjarverandi.“

Að sjálfsögðu kannast ég ekkert við þetta og segi því að þetta hljóti að hafa verið heimabrugguð aðgerð til að fá mig til að setja tappann í flöskuna fyrir lífstíð. Hún veit nefnilega manna best að eitt af því sem mér finnst ósjarmerandi við fólk er einmitt þegar það er andlega fjarverandi og einhvern veginn ekki með.

Ég vil þó benda á, mér til varnar, að ég var aðallega á kóræfingum í desember og að baka...

Það er samt merkilegt hvað karlpeningurinn kemst upp með miklu meira en kvenpeningurinn. Hann hefur einhvern veginn meira þol og meira úthald þegar kemur að söltuðum mat og langdrykkjum. Ég heyrði að það hefði óvart orðið dálítið vinsælt að „taka linner“ í desember. En „linnerinn“ gengur út á að fara út í hádeginu í „lunch“ (á einhvern flottan veitingastað) sem dregst fram yfir „dinner“ og svo eru menn bara komnir heim til sín klukkan níu á kvöldin – rosa sprækir.

Með alla heimsins „linnera“ í maganum er merkilegt hvað menn koma vel undan jólum og áramótum. En það er náttúrlega bara út af því að þeir liggja svo mikið í engiferbaði, dæla í sig magnesíum og stelast til að setja á sig andlitsmaska í hvíldartímanum. Góðu fréttirnar eru þær að það er styttra í þorrann en ykkur grunar og þá byrjar þetta allt aftur þar sem lífsblómið verður saltað og vökvað hressilega!