c

Pistlar:

11. nóvember 2014 kl. 10:58

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Fullur fataskápur af engu ...

Hver hefur ekki upplifað það að eiga fullan fataskáp af engu. Að lenda í ströggli hvern morgun og vita ekkert í hvað við eigum að fara er ekki sérlega góð leið til að byrja daginn. Í raun mætti segja að þetta væri hin fullkomna leið til að gera daginn alveg glataðan. Að líða eins og okkur vanti alltaf eitthvað er ekki góður staður að vera á. Og trúið mér – ég hef oft upplifað þetta...

Ég gat því ekki annað en brosað út í annað þegar ég sá „skets“ úr grínþættinum Stelpurnar þar sem Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona fór með hlutverk móður sem var að troða sér í hverja flíkina á fætur annarri og einhvern veginn virtist fataskápurinn hafa hlaupið eitthvað í þvotti. Þegar hún var búin að reyna við nánast hverja einustu flík í fataskápnum endaði hún á því að fara í föt af manninum sínum

Ég tengdi mjög vel við þetta því ég veit ekki hversu oft ég hef keypt mér eitthvað sem passaði kannski ekki alveg nógu vel af því ég var ekki í alveg nógu góðu jafnvægi þegar fatakaupin fóru fram. Okkur kvenpeningnum hættir nefnilega til þess að stökkva út í búð og kaupa okkur eitthvað þegar lífið er kannski ekki alveg eins og við viljum hafa það. Þá er eitthvað svo ofurauðvelt að skella sér í næstu verslunarmiðstöð og reyna að fylla upp í götin, sem geta myndast í hjartanu við minnsta tilefni, með því að kaupa sér eitthvað fallegt. „Retail therapy“ er þekkt hugtak í enskri tungu og hefur verið rannsakað ítarlega. Niðurstaðan er alla jafna sú að hún veiti bara augnabliksánægju.

Ég held að þetta sé að hluta til ástæðan fyrir því að við eigum oft fullan fataskáp af engu. Fatakaup eiga ekki að vera framkvæmd á hlaupum og alls ekki í ójafnvægi heldur þarf að hugsa þau vel og vandlega. Fæstir vaða í peningum og hafa alls ekki efni á því að eiga fullan fataskáp af fatnaði sem þeir nota ekki – fyrir utan náttúrlega hvað þessi skorthegðun er óumhverfisvæn.

Þegar ég horfi til baka hefði kannski oft og tíðum verið mun gáfulegra að hringja í vinkonu og fá hana með sér í langan göngutúr þar sem lífsgátan væri leyst í fersku lofti, í stað þess að æða í næstu verslunarmiðstöð og kaupa eitthvað sem svo aldrei var notað.

Á þessum árstíma þar sem það tíðkast að laga aðeins betur til heima hjá sér en venjulega er ekki úr vegi að fara í gegnum fataskápinn. Mögulega komumst við að þeirri niðurstöðu að við eigum heilmikið af fötum sem mætti kannski aðeins laga. Kannski þarf að stytta buxurnar sem hafa hangið ónotaðar inni í skáp síðan í síðustu Ameríkuferð og mögulega er jakkinn sem við ætluðum að grenna okkur í ennþá örlítið of þröngur yfir handleggina. Ef við sjáum vandamálin við fötin sem hanga inni í skáp þá er mögulega hægt að leysa þau með einföldum hætti.

Þó að ég kunni að sauma og hafi ætlað mér töluverðan frama í því sviði á mínum yngri árum hefur lífið einhvern veginn þróast þannig að ég hef bara aldrei tíma til að taka fram saumavélina. Þess vegna varð ég svo glöð þegar ég uppgötvaði að í næstu götu við mig er saumastofa þar sem almennilegar íslenkar miðaldra konur halda um stjórnartaumana. Þegar ég kem með larfana af sjálfri mér taka þær brosandi á móti mér. Sumir myndu segja að þær gætu breytt vatni í vín...