c

Pistlar:

1. júní 2015 kl. 15:52

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Sterkar konur sem standa í lappirnar

Ég klippti á mér hárið, keypti gleraugu, hætti að mála mig, fór í dragt í stað þess að vera í kjólum. Ég ætlaði að manna mig upp. Það gekk hins vegar ekki. Ekkert gekk neitt frekar og ég leit bara hræðilega út,“ sagði Ingrid Vanderveldt frumkvöðull, sem hefur stofnað og selt fjölmörg fyrirtæki sem samanlagt velta milljörðum króna. Á ráðstefnunni Startup Iceland sagði Vandervelt að sér hefði ekki byrjað að ganga vel í viðskiptum fyrr en sjálfstraustið lagaðist.ingrid-vanderveldt-b_1261207.jpg

Vandervelt ákvað eftir þessa misheppnuðu tilraun að fylgja hjartanu og vera eins og hún er, hún sjálf. Það virkaði valdeflandi fyrir hana því í kjölfarið jókst sjálfstraustið og henni fór að ganga betur í viðskiptaheiminum. Í dag rakar hún saman peningum og virðist bara vera nokkuð lukkuleg.

Þó svo að peningar einir og sér séu ekki mælikvarði á hversu hamingjusöm við erum eða getum orðið er ljóst að fjárhagslegt öryggi ýtir undir sjálfstraust og gerir það að verkum að við látum frekar drauma okkar rætast. Og ef við einbeitum okkur að því að efla sjálfstraustið, hvaða leið sem er svo sem farin, eru meiri líkur á að við látum drauma okkar rætast – óháð fjárhag.

Þegar ég var 10 ára eignaðist ég vinkonu, sem er nú ekki frásögur færandi, nema fyrir þær sakir að hún átti móðir sem var góð fyrirmynd fyrir okkur. Móðir vinkonu minnar var sjálfstæð, háttsett hjá erlendu flugfélagi, var mikið á ferðalögum vegna vinnunnar, alltaf vel tilhöfð og mikill nagli. Hún bar sig vel og var full af sjálfsöryggi. Það sem einkenndi hana og gerir reyndar enn í dag er að hún var og er alltaf kát og henni liggur margt á hjarta. Hjá henni er aldrei ládeyða eða leiðindi.

Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða alveg eins og hún þegar ég yrði stór. Ég er reyndar ekki komin með vinnu hjá erlendu flugfélagi en ég hef reynt að taka hana mér til fyrirmyndar á öðrum sviðum. Þegar ég hugsa um sterka konu þá kemur þessi skörungur upp í hugann. Ég hef meira að segja sankað að mér svipuðum húsgögnum og hún átti hérna á níunda áratugnum. Hún menntaði mig á hönnunarsviðinu og í gegnum hana fékk ég innsýn í heim vandaðra danskra og ítalskra gæðahúsgagna.

Það að eldast hefur ýmsar birtingarmyndir og þó svo að það séu tvö ár í fertugsafmælið finnst mér þessi tvö ár vera á við þúsund. Mér brá því pínulítið þegar vinkona mín benti mér á það kurteislega að ég væri greinilega farin að undirbúa fertugsafmælið. Þetta sagði hún við mig þar sem við vorum staddar yfir gullhöldurekkanum í Norrgavel í Svíþjóð þar sem ég var alveg staðráðin í því að kaupa gullhöldur á eldhússinnréttinguna – ekki bronslitaðar – gull væri klassískara. Svo hlógum við að því hvað ég væri orðin mikil kerling að hugsa svona.

Svo játaði hún fyrir mér að hún væri farin að undirbúa sitt afmæli og það fælist aðallega í því að sanka að sér fíniríi. Hún væri komin í Barbour-jakka og búin að kaupa hönnunar-blaiserjakka með gulltölum. Það eina sem vantaði til þess að toppa fertugsafmælislúkkið væri silkiklútur frá Hermés. Konur með Hermés-slæður vita nefnilega hvaðan þær eru að koma og hvert þær eru að fara. Ég er samt ekki alveg komin þangað... en ég meina, það getur allt gerst. Annars hef ég engar áhyggjur af þessu því mamma vinkonu minnar er komin yfir sextugt og er ennþá smörtust af þeim öllum. Hún hefði pottþétt valið þessar gullhöldur ef hún væri ekki með höldulausa innréttingu.

cassina_1261205.jpg