c

Pistlar:

22. febrúar 2016 kl. 14:00

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Það hefur ekki verið reynt svona við mig eftir að ég fitnaði

Árshátíðarvertíðin stendur sem hæst um þessar mundir og öll heimsins fyrirtæki keppast við að gera vel við starfsmenn sína. Árshátíðir eru dálítið fyndið fyrirbæri því á þeim er samankomið fólk sem oft á ekkert sameiginlegt nema vinnustaðinn sinn. Þó svo að það sé lagt mikið upp úr því í dag að öllum líði vel í vinnunni þá er aldrei hægt að gera öllum til hæfis. Þegar þessir ólíku einstaklingar mætast eina kvöldstund getur allt gerst. Áfengisneysla er kannski ekki að hjálpa neitt til enda treysta allt of margir sér alls ekki til að mæta á árshátíð nema hella vel í sig á meðan á „skemmtuninni“ stendur. Og það sem er merkilegt er að samfélag okkar er þannig uppbyggt að okkur finnst þetta bara í lagi.

Grínararnir í Mið Íslandi, sem eru alltaf mjög „spot on“ í gríninu, ná þessu afar vel í sínu nýjasta uppistandi í Þjóðleikhússkjallaranum. Þar gera þeir stólpagrín að íslenskri hópeflismenningu á vinnustöðum. Í dag eiga náttúrlega allir sem vinna í fyrirtækjum að vera besta útgáfan af sjálfum sér og hafa skýr markmið. Fólk á að vera framúrskarandi og gera kröfur til sjálfs sín og annarra. Fólk á ekki bara að gera stórkostlega hluti í vinnunni heldur á það að hlaupa maraþon, æfa skíðagöngu, vera í hjólaklúbbi, matarklúbbi og taka fagnandi á móti nýjum áskorunum. Og svo á fólk sem vinnur á vinnustöðum ekki síst að vera hamingjusamt – ekki gleyma því.

Auðvitað er jákvæð sálfræði frábær og það er hægt að gleðjast yfir því að fólk vilji lifa vel og fallega og gera betur en nokkru sinni fyrr. Vandamálið er bara að svona hópeflisrugl fer hryllilega í taugarnar á mörgum og það virkar eins og martröð fyrir intróverta. Og þá snýst þetta upp í andhverfu sína. Þegar þessi starfsmaður, sem hatar hópeflisruglið og hatar fólkið sem er með allt á hreinu, mætir á árshátíð getur það gert fullt af mistökum. Í stað þess að æla bara upp í sig og kyngja getur það lent í því að æla yfir aðra...

Á dögunum var smáhesturinn staddur á árshátíð, sem er ekki frásögur færandi, nema hvað að þegar dj kvöldsins fór að spila heimsins hallærislegustu lög fékk hann fiðring og dró tilvonandi eiginmann vinkonu sinnar út á gólf. Smáhesturinn og dansfélaginn voru einungis búin að stíga nokkur vel valin spor þegar glimmerklædd sparigugga kom aðvífandi og vildi ólm dansa við dansfélagann. Eitthvað misskildi sú glimmerklædda það sem var í gangi því skyndilega hvíslar hún í eyra dansherra smáhestsins: „Ef það verður eitthvað á milli okkar vil ég að þú takir vel á mér.“

Dansherra smáhestsins brá töluvert við þetta og gaf skýr skilaboð um að hann væri nú trúlofaður annarri og það væri ekkert að fara að gerast. Sú glimmerklædda var nú ekki par sátt við þessa niðurstöðu og þegar dansherrann var sestur tók hún sig til og kýldi duglega í öxlina á honum. Svona eins og afmarkaður hópur af spariguggum getur gert ef þær fá sér of hraustlega í aðra tána.

Þetta skemmdi þó ekki gleðina fyrir smáhestinum og hans fylgdarliði og var mikið hlegið að þessari frumstæðu viðreynsluaðferð.

Þegar þetta atvik barst í tal síðar um kvöldið sagði dansfélaginn: „Tja, ég er nú samt svolítið ánægður með þetta – það hefur ekki verið reynt svona við mig eftir að ég fitnaði.“