c

Pistlar:

29. júní 2015 kl. 16:09

Pétur Blöndal (peturb.blog.is)

Árétting um ál og orkuverð

Ketill Sigurjónsson orkubloggari skrifar pistil á Mbl.is sem ber yfirskriftina „Samál á villigötum“. Af pistli Ketils má ráða að ég hafi sem framkvæmdastjóri Samáls fullyrt hvert orkuverð til álvera sé hér á landi. Það er misskilningur hjá Katli. Ég hef ekkert fullyrt um það.

Þær upplýsingar sem ég hef byggt á í pistlum á þessum vettvangi eru annars vegar meðalorkuverð til iðnaðar sem gefið er upp í ársreikningum Landsvirkjunar og hinsvegar samanburður greiningarfyrirtækisins CRU á afhentri orku til álvera.

Ársreikningar Landsvirkjunar eru öllum aðgengilegir og á meðal kaupenda á greiningum CRU eru orkufyrirtæki og álframleiðendur víða um heim.

Tölur frá CRU og Landsvirkjun

Í skrifum mínum benti ég einfaldlega á að greiningarfyrirtækið CRU tefldi fram annarri tölu um orkuverð á Íslandi en Ketill notaði þegar hann vitnaði til samanburðar fyrirtækisins og fannst mér eðlilegt að sú tala kæmi fram.

Ástæðan var m.a. sú að CRU talar jafnan um verð á afhentri orku, en Ketill dró hinsvegar upphaflega frá flutningskostnaðinn þegar hann sló mati á orkuverðið hér á landi.

Ketill fullyrðir að meðalverð til álvera á Íslandi sé lægra en 29-30 dollarar eins og CRU hefur haldið fram. Hann segist hafa fengið þær upplýsingar frá CRU að menn hafi misreiknað sig á þeim bænum. Það eru tíðindi fyrir mér. Eina vísbendingin sem ég hef um það frá CRU er að nýrri greining sé komin fram, en hún breyti lítið stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði.

Ekki í lægsta þriðjungi

Það er auðvitað vont fyrir CRU ef greinendur þar misreikna sig, en þeir eru líklega ekki óskeikulir fremur en aðrir. Almennt held ég að menn séu samt á einu máli um að CRU veiti haldbestu upplýsingar um álmarkaðinn sem völ er á.

Það er hinsvegar misskilningur hjá Katli að ég gefi mér að CRU hafi rétt fyrir sér um orkuverð til álvera hér á landi. Ég hef engar forsendur til að fullyrða til eða frá um það.

Til marks um það má nefna, að fyrr á þessu ári studdist ég við meðalverð Landsvirkjunar til iðnaðar í pistli á þessum vettvangi og áréttaði það raunar í síðasta svari mínu við skrifum Ketils.

Landsvirkjun gefur upp að meðalverð til iðnaðar árið 2013 hafi verið 25,8 dollarar á megavattstund. Þegar það er borið saman við greiningu CRU á verði afhentrar orku til álvera utan landsteinanna, þá kemur í ljós að þriðjungur af öllu áli utan Kína var framleiddur við lægra orkuverð árið 2013, nánar tiltekið 34,6% allrar álframleiðslu utan Kína. Það þýðir að Landsvirkjun var samkeppnishæf um orkuverð til álvera árið 2013 en samt ekki í lægsta þriðjungi.

Ketill fullyrðir raunar að meðalorkuverð til álvera sé hærra en meðalverð til iðnaðar – það sé yfir 26 dollurum. Það er athyglisvert út af fyrir sig.

Almenn umræða um orkumarkaðinn

Að síðustu vil ég taka fram að ég fagna málefnalegri og gagnrýninni umræðu um orkuiðnaðinn á Íslandi.

Ég hef hinsvegar engar forsendur til að ræða orkuverð til einstakra álvera og er þar í sömu stöðu og forsvarsmenn annarra atvinnugreina.

Hlutverk Samáls er að miðla almennum upplýsingum um íslenskan áliðnað.

Pétur Blöndal

Pétur Blöndal

Þessa þanka skrifar framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda, bókahöfundur og forðum blaðamaður.

Meira