c

Pistlar:

21. nóvember 2014 kl. 12:23

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Læknisráð í Eldhúsinu: Einföld egg á þrjá vegu og heimsókn til Brúneggja

Eigendur Brúneggja, Kristinn Gylfi og Helga Guðrún, höfðu samband við mig fyrir nokkrum vikum og spurðu hvort ég hefði áhuga á því að vinna með þeim í tengslum við heimasíðu sem þau er að fylgja úr hlaði - brunegg.is. Mér fannst hugmyndin áhugaverð og óskaði eftir meiri upplýsingum um hvernig framleiðslu Brúneggja er háttað og eftir lestur ítarefnis fannst mér þetta spennandi. Við hittumst og ræddum málin og úr varð að mér og börnunum mínum var boðið í heimsókn á Teig í Mosfellsbæ þar sem hluti af eggjaframleiðslunni fer fram.

 

Hænurnar fá að spóka sig um að vild.

 

Við fengum að halda á hænunum. Þær voru ekki ósáttar við handbrögð sonarins sem virtist hafa gott lag á þeim!

Þessi, eins og allar hinar, fékk nafnið Bogga. Og dottaði í fanginu á Villa!

Þær hafa frjálsan aðgang að vatni og mat og geta verpt þar sem þær vilja!

Hænurnar voru hrifnar af Kristni, eiganda Brúneggja.

 

Ein fín fjölskyldumynd fær nú að fylgja með!

Þó að eggin í bökkunum séu svipuð að stærð þá er mikil breytileiki í því. Eldri hænur verpa gjarnan stærri eggjum. Og sum geta orðið ansi vegleg!

Og þetta var ánægjuleg heimsókn. Það er alltaf gaman að sjá metnaðarfullt fólk gera góða hluti. Við fengum meira að segja að fara og skoða hænurnar og sjá hvernig allt ferlið fer fram. Og ég gat ekki séð betur en að þessar púddur hafi það bara mjög gott. Þarna geta þær spókað sig, étið og drukkið að vild og verpt þar sem þær vilja. Þær voru salírólegar þegar við litum inn, meira að segja svo þægar að við fengum að taka þær upp. Og eins og fram kom hér á undan dottaði meira að segja ein í fanginu á Villa!

Sjálfur er ég kresin á egg og kaupi nær öll mín egg frá hjúkrunarfræðingi sem ég vinn með sem er með nokkrar hænur útí garði hjá sér. Og það er dálítið skemmtilegt að fá frá henni eggjabakkann. Ég kaupi venjulega 30 egg í einu, og þau eru mörg hver ansi ólík, sum stór, sum lítil og sum skemmtilega öðruvísi í laginu! Það er ekki lítið sem ég er öfundssjúkur þar sem mig langar svo að hafa nokkrar hænur sjálfur, en garðurinn minn er bara svo lítill! Og ef samstarfskona mín á ekki handa mér egg kaupi ég nær einvörðungu lífræn egg - það munar aðeins í verði en ég held að það hljóti að vera þess virði.

Læknisráð í Eldhúsinu: Ommiletta á þrjá vegu og heimsókn til Brúneggja

Og egg borða ég næstum því á hverjum morgni, úr tveimur til þremur eggjum eftir stærð eggjanna. Og það er í góðu lagi, það er ekkert óhollt. Þvert á móti eru egg holl, þrungin af vítamínum og halda manni mettum og glöðum langt frameftir degi.  Og sumir vísindamenn segja meira að segja að það geti stuðlað að þyngdartapi!

Hér eru sem sagt þrjár leiðir til þess að gera bæði einfaldra franska ommilettu og svo tvær leiðir að hrærðum eggjum.

 

Byrjið á því að brjóta þrjú egg í skál, saltið og piprið.

 

Bætið teskeið af vatni saman við og hrærið saman með gaffli. 

Bræðið klípu að smjöri á pönnu.

 

Þegar verið er að gera franska ommilettu þarf að hafa pönnuna á hreyfingu. Og á meðan eggin er ennþá blaut þá ýtir maður eggjunum inn að miðju og lætur svo eggin renna til að fylla pönnuna. Þetta gefur ommilettunni fyllingu.

Þegar eggin eru að taka sig þá er brotið upp á ommilettuna og hún sett á disk. Skv. reglum franska eldhúsins eiga eggin ekki að taka lit, en mér finnst það betra.

Ameríska leiðin að hrærðum eggjum er fólgin í því að reglulega hreyfa eggin á pönnunni þannig að þau eldist í þunnu lagi - svona eins og þunnum borðum.

 

Þessi aðferð gefur einstaklega safarík egg!

 

Svo þarf bara að gæða sér á eggjunum!

 

Þriðja leiðin er ensk og er gerð í potti.

Með ensku aðferðinni er eggjunum haldið stöðugt á hreyfingu þannig að þau hlaupa í lilta kekki.

 

Áferðin verður allt önnur - en engu að síður mjög ljúffeng! 

 

Minni svo að lokum á bókamessuna nú um helgina sem verður haldin í Ráðhúsinu (22. og 23. nóvember). Það væri gaman að sjá sem flesta. 

 

Og að sjálfsögðu verð ég með veitingar!