c

Pistlar:

24. desember 2014 kl. 14:17

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Fjölbreytt heimagerð síld; hefðbundin, með tómat og basil, hvítlauk og svo dúndur sinnepssíld!

Síld er veislumatur í Svíþjóð. Svo mikill að hún á sinn hátíðarsess bæði á jólum, páskum og Jónsmessu! Í desember fyllast allar verslanir í síld og jólaskinku. Svíar halda jólin á annan hátt en við að því leyti að þeir taka stóran hluta af aðfangadegi í jólahaldið. Byrja gjarnan í hádeginu og bjóða þá upp á hlaðborð þar sem kennir ýmissa grasa, allt frá pylsum, kjötbollum, eggjum, jólaskinku, lifrarkæfu, freistingu Jansson (kartöfluréttur), gröfnum og reyktum lax og svo auðvitað síld af ýmsu tagi. Síðan horfa Svíar á Andrés Önd (sami þáttur hefur verið sýndur á hverju ári síðan 1960) og er heilagur hluti af sænsku jólahaldi - nærri helmingur þjóðarinnar er límdur fastur fyrir framan sjónvarpið klukkan þrjú á aðfangadag.

En við höldum íslensk jól, enda Íslendingar! Í gær buðu Jónas og Hrund, vinir okkar og nágrannar, til Þorláksmessu veislu. Þessa veislu hafa þau haldið síðustu fimm árin og marka þau upphafið á okkar jólahaldi. Þetta er alltaf ákaflega velheppnaður fagnaður - það hefur þó aðeins fækkað í hópnum undanfarin ár þar sem nokkrir af okkar samferðamönnum hafa flust heim! Ég gerði grein fyrir þessari veislu fyrir tveimur árum, sjá hérna!

Það er augljóst að smekkur manns breytist ár frá ári. Mér hefur alltaf þótt skata vera hinn versti matur, en í ár fékk ég mér vel af skötunni, nóg af hömsunum og kunni bara vel við! Þetta er einkennileg blanda af þéttu súru bragði, ásamt umamibragði hamsatólgarinnar. Og einhvern veginn hitti þetta í mark í ár. Auðvitað hjálpa bjór og snaps að koma þessu til skila.

Fjölbreytt heimagerð síld; hefðbundin, með tómat og basil, hvítlauk og svo dúndur sinnepssíld!

Við fegðarnir lögðum til síld að þessu sinni - rétt svona til að sýna smá lit - við búum jú í Svíþjóð og erum meira að segja með ríkisborgararétt hér (að sjálfsögðu einnig íslenskan).

Og þetta er ofureinfalt. Við keyptum síld - svokallaða fimm mínútna síld - sem er í pækli án þess þó að vera bragðbætt á nokkurn hátt. Það er samt lítið mál að gera hana frá grunni, með því að léttsalta síldarflök, láta þau standa yfir nótt, skola svo rækilega af þeim og leggja í 1-2-3 pækil (einn hlutur 12% ediksprit, tveir hlutar sykur og þrír hlutar vatn - soðið upp og látið kólna).

 

Fyrst er að skola síldarflökin og skera í tveggja sentimetra bita.

 

 

Fyrsta er klassísk sænsk með gulrótum, rauðlauk, dilli, lárviðarlaufum og blönduðum piparkornum. Þessu er raðað í hreina krukku á víxl þangað til að hún er full og svo er 1-2-3 legi (köldum) hellt yfir þannig að allt hráefnið liggi undir vökva. 

 

Næsta var svo tómatsíldin með kirsuberjatómötum, rauðlauk og basil ásamt u.þ.b. 420 g af síld. Svo var pæklinum hellt yfir. 

Hvítlaukssíldin var lögð með sex rifjum af smátt skornum hvítlauk, steinselju, sítrónusneiðum og hvítvínsediki. Látið liggja í nokkrar klukkustundir áður en þessu var blandað saman við 200 g af sýrðum rjóma og tveimur matskeiðum af mayonaisi.

 

Það kom upp ágreiningur með sinnepssíldina á milli okkar feðga þannig að úr varð að gera tvær gerðir til að prófa. Annars vegar með dijonsinnepi að hætti föður míns ...

 

... og svo með skánsku sinnepi eftir minni forskrift. 

 

Úr varð blanda af hvoru tveggja - sem kom alveg ljómandi vel út! Þarna blönduðum við tveimur matskeiðum af skánsku sinnepi við eina af djion og smökkuðum til með hlynsírópi ásamt þremur matskeiðum af sýrðum rjóma. Og fullt af fersku dilli! 

 

Pabbi hafði komið með brennivín - jólabrennsa sem mér skilst að hafa fengið að þroskast um tíma á sherrítunnu! Mun betra en venjulega brennivínið! 

Þetta mæltist vel fyrir - og ekki sakaði að hafa með þessu ljúffengt heimagert rúgbrauð sem Hrund hafði bakað!

Kæru lesendur - megið þið eiga dásamleg jól með vinum og vandamönnum!

Veislan verður góð!