c

Pistlar:

7. júlí 2015 kl. 18:48

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Dásamlegur skánskur aspas, sousvide, með smjöri

Ætli margir þekki ekki sousvide eldamennsku núna. Ég hef allatént bloggað um hana nokkrum sinnum á síðustu misserum og þeir sem eru kunnugir bókunum mínum hafa án efa rekið nefið í þetta hugtak nokkrum sinnum. Hægt er að glöggva sig á þessu nánar hérna. Vinir mínir í Kokku hafa haft til sölu sama tæki og ég keypti fyrir rúmu ári - sansaire - sem er auðvelt í notkun og á mjög hagstæðu verði miðað við samkeppnisaðilana. Ég hvet alla áhugakokka að kynna sér þetta snilldarverkfæri! 

Þetta var ákaflega kalt vor í Lundi svo aspasinn lét bíða eftir sér. Oftast kemur hann á markað fyrst í apríl og er seldur fram yfir Jónsmessu. En þar sem vorið lét líka bíða eftir sér er hann ennþá fáanlegur. Það er þó hægt að fá ferksan aspas allt árið um kring en þá er hann oft sóttur langar leiðir, stundum jafnvel til Perú. Bestur er hann þó næstur manni - fagmenn segja að aspasinn falli í bragði strax frá því hann er skorinn og því sé hann bestur eins fljótt eftir og hann er skorinn og mögulegt er. 

Og ég held að það sé rétt - nýr aspas ilmar dásamlega, jörð og ferskleiki. Og það er líka gaman að sjá að stilkarnir eru ekki trénaðir eins og oft vill verða þegar hann er fluttur langar vegalengdir. Enn fremur heldur hann sér dásamlega þegar hann er eldaður á þennan hátt. Stinnur og bragðmikill! 

Dásamlegur skánskur aspas, sousvide með smjöri

Ég sótti þennan á markaðinn sama dag og hann var eldaður. Og hann var eins og ég lýsti hér að ofan. Ferskur og ilmandi, eins og aspas á að vera!

 

Fyrst er bara að setja hann í poka, pipra og henda nokkrum smjörklípum með.

Innsigla svo pokann í vakúmpökkunarvél eða undir vatnsþrýstingi.

 

Hita vatnið með hitajafnaranum upp í 85 gráður. 

 

Hita í 15 mínútur. 

 

Opna pokann og setja á disk og njóta með vinagrettu, parmaosti eða eins og ég gerði í þetta sinn - bara vökvanum sem varð til í pokanum, dásamlegu aspassmjöri! 

Og auðvitað kallar svona veislumáltíð á gott vín. Ég opnaði flösku af Jacob's Creek Chardonnay Reserve. Þetta er ástralskt vín sem margir þekkja. Þetta er Chardonnay eins og það á að vera - ilmar af ferskum ávexti, blómakennt. Á tungu smjörkennt og ávaxtaríkt. Eikað eftirbragð. Og vinalegt á veskið. 

 

Sumrin eru svo sannarlega tími til að njóta!