c

Pistlar:

23. apríl 2016 kl. 13:44

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Grillveislan: Grísakótilettur með gráðosti, puru og eplasósu

 

 

 

Það eru spennandi tímar framundan. Á föstudaginn næstkomandi eftir vinnu mun ég skunda til Heathrow og bregða mér til Íslands - og mér finnst ástæðan vera ansi góð. Við ætlum að fagna útgáfu þriðju matreiðslubókarinnar minnar - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan. 

 

Hún mun koma út laugardaginn 30. apríl 2016. Við munum blása til útgáfuveislu í Eymundsson á Skólavörðustíg. Við kveikjum undir grillinu fyrr um daginn og bjóðum alla velkomna til að að fagna með okkur klukkan 17. Það verður boðið upp á heilgrillað lamb og auðvitað meðlæti og svo ljúffengan bjór, Bola, til að væta kverkarnar! 

 

Bókin hefur verið í vinnslu síðan fyrir ári. Þetta atvikaðist þannig að  ég brá mér í kaffi til Tomma og Önnu Margréti, útgefendanna minna, en þau voru þá búsett í Lundi. Tommi hafði nýlega keypt sér fallega sænska grillbók og spyrði svona hálfkæringslega hvort það væri einhver vandi að henda í eina grillbók! 

 

Og svarið var einfalt! Það var stórskemmtilegt að elda og skrifa þessa bók. 

 

 

-

Útgáfu-Grillveisla 

Laugardaginn 30. apríl 

klukkan 17:00 

Eymundsson - Skólavörðustíg

Allir eru velkomnir!!!

-

 

En þó að þessi bók - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan, hafi átt hug minn allann síðustu mánuði þá hefur heilmikið verið um að vera. Við erum búinn að fjárfesta í húsi á Íslandi og í seinstu viku keyptum við flugmiða til Íslands - aðra leið. Ég er að fara að vinna á Landspítalanum og svo verð ég einnig með stofu í Klíníkinni í Ármúla í samstarfi við fleiri kollega. Snædís getur tekið hluta af sínu starfsnámi á Íslandi og mun ljúka námi strax eftir áramótin. Börnin eru skráð í skóla, Valdís er búinn að sækja um menntaskóla, Villi er kominn í Ártúnsskóla og Ragga Lára er á biðlista fyrir leikskóla. 

Við erum að undirbúa flutning frá tveimur löndum, förum til Svíþjóðar í júní til að setja búslóðina okkar í gám. Svo þurfum við einnig að koma nokkrum hlutum í skip hérna í Englandi. Það er sko nóg að gera - og svei mér þá - ef það er ekki bara skemmtilegt!

 

Jibbí!

 

Grísakótilettur með gráðosti, puru og eplasósu

 

 

Grísakótilettur eru frábærar á grillið – sérstaklega þegar maður er að flýta sér. Og það er mikilvægt að hafa væna fiturönd á svíninu – það er bæði gott á bragðið og svo verndar það líka sjálft kjötið frá því að þorna á meðan það er eldað.

Hér er byrjað að elda kótilettuna á miklum hita í mínútu á hvorri hlið og svo eru þær settar til hliðar og grillaðar áfram á óbeinum hita þangað til að þær eru tilbúnar. Mér finnst erfitt að meta hvenær svínakjöt er tilbúið og þar af leiðandi finnst mér best að nota kjöthitamæli. Og ég leyfi kjötinu ekki að fara hærra en 70 gráður. Munið að kjötið heldur áfram að eldast í nokkrar mínútur eftir að það er tekið af grillinu.

Í nafngift þessarar uppskriftar aðskil ég kótilettuna frá purunni þar sem hún er tekin af kjötinu og elduð sér, þar sem það tekur lengri tíma að fá hana fullkomna en tekur að elda kótilettuna. 

 

Fyrir sex

6 sneiðar grísakótilettur með purunni

150 gr stilton ostur (eða annar ljúffengur blámygluostur)

2‒3 msk jómfrúarolía

1 grein rósmarín

salt og pipar

Eplasósan

 

4 epli

75 ml vatn

2-3 msk hlynsíróp

1 kanilstöng

 

 

 

Skerið puruna af kótilettunni og látið hana þorna í ísskáp í eina klukkustund. Nuddið hana svo upp úr olíu, saltið ríkulega og setjið í 200 gráðu heitan ofn þangað til að hún poppast (15‒20 mínútur).

Nuddið grísakótiletturnar upp úr jómfrúarolíu, smátt skornu rósmaríni og salti og pipar.

Blússhitið grillið og grillið sneiðarnar í eina mínútu á hvorri hlið þannig að þær karmelliserist vel. Setjið þær á óbeinan hita.

Skerið ostinn í sneiðar og raðið ofan á hverja kótilettu. Grillið þangað til að kjarnhiti hefur náð 70 gráðum. Hvílið í 5 mínútur.

 

 

Það er eitthvað fallegt við ost sem er að bráðna á heitri steik! 

 

Það er lygilega einfalt að fá puruna vel heppnaða - þessi varð alveg eins og kex! 

Eplasósan er ákaflega einföld. Flysjið eplin og skerið í grófa bita og setjið í pott, ásamt kanilstönginni, og hitið þangað til að eplin fara að taka smá lit. Hellið sírópinu og vatninu og sjóðið vökvann niður. Eldið eplin þangað til að þau eru orðin mjúk í gegn. Stappið þau gróflega niður með sleif og látið kólna í ísskápnum. Vel er hægt að gera eplasósuna áður þar sem hún geymist vandræðalaust í ísskápnum í nokkra daga.

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín - Trivento Golden Reserve Malbec frá því 2013. 

Þetta vín er frá Argentínu - Mendoza dalnum og hefur unnið til verðlauna. Þetta vín er dökkrautt, eiginlega rúbinrautt í glasi. Ilmurinn með þéttum ávaxtailm. Bragðið kraftmikið með sultuðum ávexti, kryddað, jafnvel súkkulaðikeimur. Ljómandi eftirbragð. 

Hlakka til að sjá sem flesta á laugardaginn næsta! 

Bon appetit!