c

Pistlar:

10. september 2012 kl. 11:05

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Átti Ísland að borga Icesave?

Landsbankinn var einkafyrirtæki en rökin fyrir því að skattgreiðendur á Íslandi borgi skuldir hans byggjast á því að hér hafi verið í gildi samningur sem tryggði innstæður upp á 20.887 evrur á hverjum reikningi. Engin innstæðutryggssjóða Evrópu er með innstæður fyrir slíku ef á reynir. Flestir eru í líku horfi og sá íslenski. Því virðist það vera skilningur manna að á Tryggingasjóði innstæðueigenda sé óskilyrt ríkisábyrgð. Ætla mætti, að ef svo væri almennt, hefði verið gerð sérstök skilgreining á því og viðkomandi ríkjum gert kleyft að innheimta þóknun vegna hennar, sem helgaðist af þeim ábyrgðum sem verið væri að gefa. Þannig hefði þóknunin hækkað eftir því sem innstæðueigendum fjölgar. Á þessu er þó einn hængur. ESA og EFTA-dómstólinn hafa í gegnum tíðina hafnað slíkri ábyrgð sem ólögmætri ríkisaðstoð. Þá hefur Ríkisendurskoðun margtekið fram að ef slík ábyrgð væri fyrir hendi þá yrði að gera grein fyrir henni í ríkisreikningi. Það hefur ekki verið gert.

Misskilningur í kröfum ESA

Þunginn í kröfugerð ESA byggist á því að íslensk stjórnvöld hafi mismunað innstæðueigendum eftir því hvar innstæðurnar voru. Í síðustu grein var bent á að annað var ekki hægt. Einfalt var að tryggja stöðugleika kerfisins hér þar sem íslenski seðlabankinn hafði seðlaprentunarvald. Að tryggja innstæður erlendis var aldrei mögulegt.

Í svari íslenskra stjórnvalda eru hins vegar færð ágæt rök fyrir því að kröfur ESA byggist á misskilningi. Veigamest er sú staðreynd, að ekki er um að ræða að innstæðutryggingakerfið á Íslandi hafi greitt innstæðueigendum hér á landi eins og ESA virðist ganga út frá. Hvorki tryggingasjóðurinn né íslenska ríkið gerðu það. Því hefur engin mismunun átt sér stað innan innstæðutryggingakerfisins eða með ráðstöfun ríkisfjár. Eignir Landsbankans greiða bæði kröfur innlendra og erlendra innstæðueigenda, þar er engin mismunun.

Endurskipulagning bankakerfis kemur tilskipuninni ekki við

Því telja íslensk stjórnvöld að ef skylda ríkisins byggi ekki á tilskipuninni sjálfri geti hún ekki kviknað vegna aðgerða við endurskipulagningu íslenska bankakerfisins. Endurskipulagning íslenska bankakerfisins var nauðsynleg aðgerð og fól í sér að halda innstæðureikningum opnum. Innstæður í erlendum útibúum voru tryggðar eftir því sem unnt var með því að tryggja þeim forgangsrétt við skipti gömlu bankanna eins og gert var með neyðarlögunum. Hér eru mjög sterk rök gegn meintri mismunun; hún var einfaldlega ekki fyrir hendi vegna þess að engin innstæðueigandi fékk greitt neitt frá íslenska ríkinu eða tryggingasjóðnum.

Mismunandi aðferðir voru því fullkomlega réttlætanlegar. Endurskipulagning íslenska bankakerfisins með forgangsrétti innstæðna við stofnsetningu nýju bankanna hefur nú þegar verið viðurkennd af ESA og Hæstarétti sem nauðsynleg aðgerð til að koma í veg fyrir kerfishrun. Algjörlega útilokað var að ráðast í samskonar aðgerðir vegna innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi. Þarlend yfirvöld höfðu kyrrsett eignir útibúanna og greiðslukerfi á milli Íslands og umheimsins var hrunið.

Allsherjarhrun leysir undan ábyrgð

Við skoðun á málinu kom hæstaréttadómur nr. 435/2003 upp í hendurnar. Þar kemur fram að sú regla gildir í vinnurétti að óviðráðanleg atvik geta leitt til þess að gagnkvæm skylda aðila, vinnuskylda launþegans og skylda vinnuveitanda til að greiða laun, fellur niður. Í því tilviki sem dómurinn tók til hafði skip sokkið sem leysti aðila undan skyldu. Mætti ekki með líkum hætti segja að bankarnir hafi sokkið sem leysti aðila málsins undan skyldu? Það allsherjarhrun sem hér varð hlýtur að leysa upp allar ábyrgðir. Það var ekki bara eitt skip sem sökk heldur allur flotinn!

Í málsástæðum íslenska ríkisins er bent á að ef dómstóllinn fellst á sjónarmið ESA um skilning á tilskipuninni er byggt á því að sérstakar og óviðráðanlegar aðstæður („force majeure") leiði til þess að skylda ríkisins falli niður. Tryggingafjárhæðin nemur jafnvirði 650 milljarða íslenskra króna, eða öllum skatttekjum ríkisins í eitt og hálft ár. Útilokað var fyrir íslensk stjórnvöld á einu ári að útvega slíka fjármuni í kjölfar bankahrunsins, en ESA byggir á því að meint brot hafi verið fullframið í október árið 2009 þegar hefði átt að vera búið að greiða út allar innstæður.

Að endingu er brýnt að hafa í huga að innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi fengu greitt frá tryggingakerfum þeirra ríkja. Tryggingasjóðirnir fá síðan greiðslur úr búi Landsbankans og því mun enginn skaðast.

Í næsta pistli verður staða EFTA-dómstólsins skoðuð. Stendur hann undir því að fjalla um svo mikilsvert mál?