c

Pistlar:

21. apríl 2014 kl. 18:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Frumkvöðlar og tækifæri á Íslandi

Fyrir rúmu ári síðan tók ég viðtal við fjárfestirinn og frumkvöðulinn Bala Kamallakharan fyrir tímaritið Frjálsa verslun. Viðtalið var eftirminnilegt þó ekki væri það langt. Ekki síst vegna þess krafts og áhuga sem geislaði frá Bala sem óhætt er að segja að hafi tekið íslenskan nýsköpunariðnað með trompi. Bala hafði þá um nokkurt skeið byggt upp samstarfsvettvanginn Startup Iceland og var með margvísleg plön á prjónunum þegar viðtalið var tekið. Áður hafði hann  fjárfest í íslenskum tæknifyrirtækjum og náð athyglisverðri útgöngu úr fjárfestingu sinni í Clara tæknifyrirtækinu sem selt var erlendum fjárfestum í upphafi árs 2013 eftir stuttan uppbyggingartíma. Það er mér einnig í fersku minni þegar ég hitt hina ungu frumkvöðla sem stofnuðu Clara í heldur niðurníddu húsnæði úti á Granda í upphafi árs 2009. Þrátt fyrir að fáir væru bjartsýnir á Íslandi á þeim tíma réðust þeir ódeigir í verkið. Vissulega var félagið selt úr landi en ljóst var að markaðslega átti það litla framtíð hér á landi. Íslenskir fjárfestar uppskáru ríkulega á undraskömmum tíma.

Bala hitti ég hins vegar á 6. hæð í Borgartúni 25, gott ef ekki húsnæðið var notað undir banka skömmu áður en Bala vann einmitt í íslenska bankakerfinu fyrir hrun. Á þeim tíma þegar við hittumst var hann að koma sér þar fyrir ásamt öðrum starfsmönnum GreenQloud sem þá var nýstofnað.  

2013-12-22 13.19.28

Hér eru tækifærin

Eldmóðurinn skein af Bala og síminn hringir stöðugt á meðan á viðtalinu stóð, meira að segja indverski sendiherrann þurfti að fá ráð. Bala er af indverskum ættum, kvæntur íslenskri konu og með íslenska fjölskyldu. Hann tók skýrt fram í viðtalinu að hann líti á sig sem alþjóðlegan fjárfesti þó hann vildi hvergi vera annars staðar en á Íslandi, hér væru tækifærin. Hann sagðist hafa gríðarlega trú á Íslandi sem heppilegum stað til fjárfestinga. Hér væru tækifæri til að byggja upp nýsköpunarumhverfi sem geti jafnast á við það fremsta í heiminum, jafnvel Kísildalinn í Kaliforníu. Til þess að það geti orðið þurfi að stefna eins mörgum sprotafjárfestum til landsins og unnt er. Þyngdarafl fjárfestinganna skipti miklu máli, nýjar fjárfestingar kalli á fleiri fjárfestingar sagði Bala. Það ætti sérstaklega við um tæknifyrirtæki þar sem áhugi hans lá.

Undanfarið hafa margir haft áhyggjur af því að íslensk fyrirtæki séu að flýja land, nýjasta dæmið er fyrirtækið Creditinfo sem skoðar nú að færa höfuðstöðvar sínar annað. Hefur Spánn verið nefndur í því sambandi. Helsta ástæða þessar ákvörðunar eru gjaldeyrishöftin sem hafa hér verið við lýði síðan fjármálakerfið hrundi. Bala tíndi þau einmitt til sem fyrirferðamestu hindrun frjálsra viðskipta á Íslandi. „Þau eru há hindrun og hafa fælt marga fjárfesta frá. Gallinn er að gjaldeyrishöftin eru eins fyrir alla sem er röng hugsun. Þau ættu að vera meira klæðskerasaumuð utan um stærð og umfang fjárfestinga," sagði Bala. Undir það er hægt að taka og sé er þetta ritar hefur áður bent á að breytingar mætti gera á þeim áður en ráðist verður í afnám þeirra. Sem vel að merkja, er flókin og áhættusöm aðgerð einfaldlega vegna þess að hér hefur verið dregið að gríðarlegt fjármagn sem er ekki í neinu samhengi við stærð og umfang íslenska hagkerfisins. En það er önnur saga.

Nýsköpunarumhverfið á Íslandi að mörgu leyti gott

En víkjum aftur að íslenska nýsköpunarumhverfinu. Í síðasta viðskiptablaði Morgunblaðsins var sérlega athyglisvert viðtal við Georg Lúðvíksson, forstjóra Meniga, en fyrirtækið er markaðsleiðandi í Evrópu á sviði heimilisfjármálahugbúnaðar með átján viðskiptavini í fjórtán löndum. Samkeppnin er hörð en Meniga hefur hingað til gengið vel en það var stofnað um svipað leyti og Clara. Bæði félögin ráku sig á það fljótlega að heimamarkaðurinn var ekki til frambúðar þó hann nýttist þeim sérlega vel til að komast af stað.

Georg sagði í Morgunblaðsviðtalinu að nýsköpunarumhverfið á Íslandi væri að mörgu leyti gott fyrir fyrirtæki sem væru að stíga sín fyrstu skref. Hann nefndi að mörg sprotafyrirtæki hafa fengið styrk frá Rannís sem geti skipt sköpun í byrjun og hann finni fyrir mikilli hvatningu í samfélaginu, sem skiptir miklu máli þegar ,,frumkvöðlar fá engin laun fyrir vinnu sína og steypa sér í skuldir upp á von og óvon." Að mati Georgs er helsti galli Íslands, fyrir fyrirtæki með alþjóðlegan metnað, smæðin og hve langt það sé frá erlendum mörkuðum, því sé nauðsynlegt að reka sölustarfsemina erlendis. Því verður seint breytt og mun líklega áfram hafa mestu áhrifin á að fyrirtæki eins og Clara, Meniga, nú eða Latibær, reyna fyrir sér erlendis.

Vitaskuld gera gjaldeyrishöftin frumkvöðlum erfitt fyrir að afla fjármagns erlendis, rétt eins og öðrum en jafnvel þótt þau væru afnumin, þá vantreysta erlendir fjárfestar laga- og fjármálaumhverfinu hér á landi segir Georg. Hafa verður í huga að í tíð síðustu ríkisstjórnar var ráðist í aðgerðir sem færðu Ísland ofar á lista landa þar sem pólitísk óvissa hefur áhrif á fjárfesta. Sem endranær verða þeir að geta treyst á pólitískan stöðugleika og að samningar standi. Langtímafjárfestar eru sérlega viðkvæmir fyrir breytingu á laga- og skattaumhverfi.

Ívilnanir og stöðugleiki

Það gefur auga leið að aðgerðir stjórnvalda skipta miklu og Georg bendir á að víða erlendis bjóðist nýsköpunarfyrirtækjum betri ívilnanir en hér og því sé í mörgum tilfellum óhagstæðara að setja á fót fyrirtæki hér á landi. Hann nefnir dæmi frá London, sem keppist við að laða til sín efnileg fyrirtæki og þeim boðið upp á ýmsar ívilnanir. Sem dæmi fær Meniga þar niðurgreidda leigu á frábærum stað í borginni. Einnig er mikilvægt að auðvelda aðstreymi sérhæfðs vinnuafls en benda má á að hugbúnaðarfyrirtækið CCP hefur notið ívilnandi regla á því sviði um skeið og stefnt hingað til lands mörgum hugbúnaðarsérfræðingum sem ella hefðu ekki komið. Mikilvægt er að stuðla að slíku, sérstaklega þar sem íslenski hugbúnaðarmarkaðurinn þarf stöðugt á fleiri slíkum sérfræðingum að halda og víða finnst fólk sem telur í lagi að dvelja hér um lengri og skemmri tíma.

En vitaskuld er ekki vandalaust að reka fyrirtæki erlendis, vandamálin eru bara önnur. Bala benti á að á Indlandi er afhendingaröryggi rafmagns afskaplega slæmt en líklega er það hvergi betra en hér á landi. Það eru þættir sem skipta máli og brýnt fyrir Íslendinga að glutra ekki því forskoti.  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.