c

Pistlar:

23. júní 2014 kl. 12:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ísland - land tækifæranna eða hvað?

Ein helsta röksemd fyrir aðild að Evrópusambandinu er sú að þá verði viðskiptaumhverfið miklu auðveldara hér á landi. Fyrirtækjum verði auðveldara að komast á legg, sækja sér fjármagn og almennt muni áhætta minnka og þá um leið fleirum farnast vel. Vegna slíkra vangaveltna er áhugavert að skoða hvað er að gerast í viðskiptalífinu á hverjum tíma og hlusta á orð stjórnendanna sjálfra. Hvernig gengur í raun og veru að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi?

Hér á mbl.is um helgina mátti lesa fróðlegt viðtal við Þor­steinn Bald­ur Friðriks­son, stofnanda Plain Vanilla en fyrirtækið er á meðal þeirra fyr­ir­tækja lands­ins sem stækka hvað hraðast. Lætur nærri að starfs­mönn­um hafi fjölgað um tvo á viku síðan leik­ur­inn QuizUp kom út í nóv­em­ber á síðasta ári. Fyr­ir­tækið er að stór­um hluta í eigu er­lendra fjár­festa, en þrátt fyr­ir það seg­ir Þor­steinn að fyr­ir­tækið eigi heima á Íslandi. Hvernig má það vera? Félagið þarf á áhættufé að halda, sérhæfðu starfsfólki og viðskiptavinirnir eru nánast allir erlendis. Veit Þorsteinn ekki af því að hér er króna notaður sem gjaldmiðill, en ekki einhver erlendur stöðugur gjaldmiðill sem gerir af sjálfu sér öll viðskipti að barnaleik!

,,QuizUp verður á Íslandi"

Í viðtalinu við Þorstein kemur fram að oft hafi verið rætt um að erfitt sé fyr­ir frum­kvöðla- og tæknifyr­ir­tæki að byggja upp starfsemi sína á Íslandi. Aðspurður um stöðuna hér á landi og hvort horft sé til þess að flytja starf­sem­ina seg­ir Þor­steinn að gott sé að byggja upp fyr­ir­tæki hér.  „Mun­um alls ekki flytja, QuizUp verður á Íslandi," seg­ir hann í viðtalinu. Hann bendir einnig á að erlendir aðilar hafi ráðlagt þeim að flytja því það væri al­gjör vit­leysa að vera á Íslandi (nema hvað - hver vill ekki draga spennandi fyrirtæki til sín?) Þorsteinn seg­ist aft­ur á móti sjá fullt af kost­um við að starfa á Íslandi.

„Ísland er heppið að vera með mikið af hæfi­leika­ríku fólki," bætir Þorsteinn við en tek­ur fram að auðvitað sé ekki djúpt á því og mik­il eft­ir­spurn geti breytt markaðinum hratt. Hann seg­ir þó skort á tækni­menntuðu starfs­fólki ekki eingöngu vanda­mál hér. Plain Vanilla búi þó að því að vera vin­sæll og þekkt­ur vinnustaður í dag og að fólk sæki mikið um þær stöður sem verði til. „Það væri mun erfiðara fyr­ir fyr­ir­tækið að vera t.d. í Kís­il­dal þar sem sam­keppn­in er við Google, Microsoft og Apple," seg­ir hann. Já, það er þarft að minna menn á að það eru líka vandamál erlendis - bara önnur vandamál!

Á ráðstefn­um og málþing­um um ný­sköp­un­ar­mál hef­ur mikið verið rætt um þær hindr­an­ir sem standi ís­lensk­um sprota­fyr­ir­tækj­um fyr­ir dyr­um. Þor­steinn segist í viðtalinu ekki vera sam­mála slíkri umræðu og seg­ir að þrátt fyr­ir höft og margskon­ar hindr­an­ir sé gott að stofna fyr­ir­tæki á Íslandi og vera með starf­semi hér. „Stund­um skipta ýmis stuðnings­verk­efni og gjald­eyr­is­höft máli og það þarf að laga það á marg­an hátt, en ef þetta er góð og kraft­mik­il hug­mynd þá er þetta ekki stærsta hindr­un­in í að ná ár­angri," seg­ir hann og bend­ir á að í Banda­ríkj­un­um þekk­ist t.d. ekki styrkjaum­hverfi. Það er reyndar ekki allskostar rétt, nýleg umfjöllun um CCP sýndi að hluti starfseminnar í Atlanta í Bandaríkjunum naut styrkja.

Frumkvöðlar og tækifæri á Íslandi

Fyrir rúmu ári síðan tók ég viðtal við fjárfestirinn og frumkvöðulinn Bala Kamallakharan fyrir tímaritið Frjálsa verslun. Viðtalið var eftirminnilegt þó ekki væri það langt og minnst var á það í pistli hér fyrir stuttu. Þar vakti undirritaður áhuga á þeim krafti og áhuga sem geislaði frá Bala sem óhætt er að segja að hafi tekið íslenskan nýsköpunariðnað með trompi. Bala lítur á sig sem alþjóðlegan fjárfesti þó hann vildi hvergi vera annars staðar en á Íslandi, hér væru tækifærin. Hann sagðist hafa gríðarlega trú á Íslandi sem heppilegum stað til fjárfestinga. Hér væru tækifæri til að byggja upp nýsköpunarumhverfi sem geti jafnast á við það fremsta í heiminum, jafnvel Kísildalinn í Kaliforníu. Til þess að það geti orðið þurfi að stefna eins mörgum sprotafjárfestum til landsins og unnt er. Þyngdarafl fjárfestinganna skipti miklu máli, nýjar fjárfestingar kalli á fleiri fjárfestingar sagði Bala. Það ætti sérstaklega við um tæknifyrirtæki þar sem áhugi hans lá.

2014-06-11 21.04.24

Einn kemur, annar fer

Oft sprettur upp umræða og áhyggjur af því að íslensk fyrirtæki séu að flýja land. Fyrir skömmu var mörgum tíðrætt um fyrirtækið Creditinfo sem skoðaði á þeim tíma að færa höfuðstöðvar sínar annað. Það væri auðvitað bagalegt en um leið fylgdi sögu að áfram yrði stór hluti starfseminnar hér á landi. Einnig má hafa í huga að frá Creditinfo hafa komi önnur sprotafyrirtæki eins og Fons Juris ehf. sem áfram munu þróa starfsemi sína hér á landi. Minna fór fyrir fréttum á sama tíma um að hug­búnaðarfyr­ir­tækið TM Software áætlaði að bæta við 30 starfs­mönn­um á ár­inu. Það kemur til viðbótar 20 nýjum starfsmönnum á síðasta ári. Mörg önnur nýsköpunar og sprotafyrirtæki eru að vaxa upp núna. Við skulum hafa í huga fyrirtæki eins og Vaki fiskeldiskerfi, Meniga, Marorka, Stjörnu-Oddi, Dohop, DataMarket, Mentor, Kereci, ORF Líftækni, Primex, Lauf Forks, Nox Medical og er þá fátt eitt talið. Að ekki sé talað um öll þau ferðaþjónustufyrirtæki sem nú eru að spretta upp. Gríðarlegur kraftur er í þeim geira hér á landi um þessar mundir.

Nýsköpunarumhverfið á Íslandi að mörgu leyti gott

En víkjum aftur að íslenska nýsköpunarumhverfinu. Ekki er langt síðan birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins athyglisvert viðtal við Georg Lúðvíksson, forstjóra Meniga, en fyrirtækið er markaðsleiðandi í Evrópu á sviði heimilisfjármálahugbúnaðar með fjölda viðskiptavini í fjölda landa. Samkeppnin er hörð en Meniga hefur hingað til gengið vel en það var stofnað um svipað leyti og Clara en síðarnefnda félagið er glæsilegur vitnisburður um þá möguleika sem hér eru. Bæði félögin ráku sig á það fljótlega að heimamarkaðurinn var ekki til frambúðar þó hann nýttist þeim sérlega vel til að komast af stað.

Georg sagði í Morgunblaðsviðtalinu að nýsköpunarumhverfið á Íslandi sé að mörgu leyti gott fyrir fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref. Hann nefnir til að mörg sprotafyrirtæki hafi fengið styrk frá Rannís sem geti skipt sköpun í byrjun og hann finni fyrir mikilli hvatningu í samfélaginu, sem skiptir miklu máli þegar ,,frumkvöðlar fá engin laun fyrir vinnu sína og steypa sér í skuldir upp á von og óvon." Að mati Georgs er helsti galli Íslands, fyrir fyrirtæki með alþjóðlegan metnað, smæðin og hve langt það sé frá erlendum mörkuðum, því sé nauðsynlegt að reka sölustarfsemina erlendis. Því verður seint breytt og mun líklega áfram hafa mestu áhrifin á að sum fyrirtæki þroskast og breytast og reyna fyrir sér erlendis.

Sem gefur að skilja verður innanlandsmarkaður ávallt takmörkunum háður en það breytir ekki þeirri staðreynd að mikil fjöldi frumkvöðla sér tækifæri í að hefja starfsemi sína hér á landi.     

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.