c

Pistlar:

18. júlí 2014 kl. 11:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skipulagssaga Reykjavíkur: Kringlumýrin verður að Kringlunni

Ef skipulag höfuðborgarsvæðisins er skoðað í áratugum sjást betur þær miklu breytingar sem eru að verða. Á fyrsta áratug þessarar aldar var það uppbyggingin í Borgartúninu og úthverfum borgarinnar sem var hvað mest áberandi. Um leið og Borgartúnið hlóðst upp og varð smám saman að því fjármála- og skrifstofuhverfi sem þar má nú finna þá dreifðist byggðin og leitaði upp í Grafarholt, Úlfarsfell og fleiri staði. Frá 2010 má segja að stefnan hafi verið meira inn á við, þétting byggðar og hækkun hennar. Gríðarlegar breytingar eru nú að verða á svæðum sem voru stöðnuð eins og í kringum Hlemm, í Þverholti og Brautarholti og síðan á Höfðatorginu svokallaða. Á því svæði einu má nú telja tugi byggingakrana. Hundruð íbúða og risahótel munu án efa breyta ásýndinni og vonandi stuðla að auknu mannlífi á svæðinu í kringum Hlemm. Nú þegar má sjá merki þess.

Hótelbyggingar eru nú áformaðar eða eru að rísa um allan miðbæ og verður forvitnilegt að sjá hvort borgaryfirvöldum tekst að fylgja eftir áformum sínum um að takmarka slíkt. Í það minnsta virðist götumynd Laugavegar að breytast án þess að skipulagsyfirvöld ráði við það.  En breytingar hafa áður orðið á á skipulagi Reykjavíkur, og oftast hafa þær orðið hraðari en menn sáu fyrir. Það er reyndar undarlegt að ganga Laugarveginn þessa daganna, um 80 til 90% þeirra sem eru þar á ferð eru erlendir ferðamenn. 

2014-02-23 16.56.33

Í þessu sambandi er athyglisvert að skoða þá miklu uppbyggingu sem varð í Kringlumýrinni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Krínglumýrin er svæðið suðaustan Rauðarárholts og vestan Grensáss, var framan af 20. öldinni beitiland fyrir búpening Reykvíkinga. Fram til 1920 var þar einnig stunduð mótekja. Í kringum 1933 var farið að úthluta þar erfðafestulöndum til ræktunar og á hluta svæðisins, austan í Rauðarárholti, risu grasbýli sem kölluðust Kringlumýrarblettir. Í mörg ár var stór hluti Kringlumýrar lagður undir ræktunarlönd bæjarbúa og þar höfðu þeir matjurtagarða og reistu kartöflukofa og sumarskýli eins og rakið er ágætlega í Sögu Reykjavíkur eftir Eggert Þór Bernharðsson. Bók sem allir áhugamenn um skipulagssögu ættu að kynna sér. Einnig er mjög góð lýsing á þessum breytingum í skýrslu sem  Drífa Kristín Þrastardóttir, sagnfræðingur hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur (áður Minjasafn Reykjavíkur), vann 2006. Er hér stuðst við þær frásagnir. 

Átti að vera nýr miðbær

Þegar farið var að undirbúa nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík á 7. áratugnum var einkum horft til þessa svæðis sem nýs miðbæjarsvæðis, en þá var talið mikilvægt að mæta aukinni þörf fyrir rými undir verslunarstarfsemi og bílastæði sem henni fylgdi. Vaxtarmöguleikar verslunar í miðborginni voru ekki taldir miklir vegna takmarkaðra möguleika á auknu verslunarrými og vegna þess að nær öll uppbygging nýrra íbúðahverfa var áformuð fjarri miðborginni. Samkvæmt skipulaginu, sem samþykkt var árið 1965 og gilda átti til ársins 1983, átti svæði hins Nýja miðbæjar að liggja sunnan Miklubrautar og austan Kringlumýrarbrautar og niður í Fossvogsdal.

Þarna var gert ráð fyrir að stórverslanir og meiri háttar fjölverslanir, með nægum bifreiðastæðum handa viðskiptavinum, myndu rísa innan tiltölulega skamms tíma enda myndu þær njóta góðs af vaxandi íbúðabyggð í nágrenninu. Einnig átti að koma fyrir einu eða fleiri hótelum á svæðinu og borgarleikhúsi á áberandi stað, auk þess sem ætla skyldi kvikmyndahúsum og veitingastöðum stað nálægt helstu verslunargötunum. Skipulagið frá 1965 braut blað í þróunarsögu Reykjavíkur sem vaxið hafði óskipulega áratugina á undan. Þótt sumstaðar hafi verið farið fullgeyst var skipulagið óneitanlega metnaðarfull tilraun til að koma böndum á tilviljanakenndan vöxt borgarinnar og hafði að mörgu leyti jákvæð áhrif á þróun hennar og útlit. Meðal veigamestu tillagnanna var hugmyndin um „nýjan miðbæ" í Kringlumýri segir í fyrrgreindri skýrslu.

Framkvæmdir við Nýja miðbæinn drógust hins vegar og sú verslunarstarfsemi sem þar var ætlaður staður tók að dreifast á aðra staði í bænum, einkum inn Suðurlandsbraut og í Skeifuna. Að hluta til byggðist Skeifan upp sem millibilsstaður og þá ekki endilega vegna þess að menn sæju framtíð í henni. Það er ofsagt að kalla hana skipulagsslys en Skeifan hefur alla tíð mótast af notagildi umfram allt. Enda er þar ekki neina íbúð að finna og ólíklegt að nokkrum þyki spennandi að búa þar miðað við núverandi fyrirkomulag. Það var síðan ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem hafist var handa við byggingu húsa á miðbæjarsvæðinu í Kringlumýri. Fyrsta húsið sem reis var Hús verslunarinnar, sem byggt var fyrir Verslunarráð Íslands og fleiri samtök tengd verslun á árunum 1975-1981. Um miðjan áttunda áratuginn lét Reykjavíkurborg, í samvinnu við Leikfélag Reykjavíkur, einnig  hefja framkvæmdir við byggingu Borgarleikhússins syðst á svæðinu. Byggingu þess húss var lokið árið 1988 og í október 1989 var það vígt við hátíðlega athöfn.

Morgunblaðið veðjar á nýjan miðbæ

Á níunda áratugnum hóf Morgunblaðið byggingu prentsmiðju- og skrifstofuhúss á svæðinu og þá var einnig reist þar á vegum Hagkaupa stærsta verslunarmiðstöð landsins, Kringlan. Nú virðist flest benda til þess að ný stækkunaráform Kringlunnar muni ryðja þeim húsum sem Morgunblaðið lét byggja úr vegi. Á þeim tíma virtust menn hafa trú á að ritstjórn og prentsmiðja yrðu að vera nálægt hvort öðru. Fjarskiptatækni nútímans hefur vitaskuld afsannað það.

Í fyrstu voru húsin talin til Kringlumýrarbrautar en árið 1984 var búið að leggja nýja götu um svæðið sem fékk heitið Kringlan. Var þá samþykkt að skrá öll húsin á svæðinu við Kringluna, utan Borgarleikhússins sem stóð við Háaleitisbraut, en gatan hlaut síðar nafnið Listabraut. Í nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík sem samþykkt var árið 1986 var gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu verslunar- og þjónustu við Kringluna en það olli nokkrum deilum á sínum tíma því að ýmsir óttuðust offjárfestingu í verslunarhúsnæði og vildu sporna gegn stórmarkaðaþróuninni. Ótti um offjárfestingu á Kringlusvæðinu hefur alltaf reynst óþarfur þrátt fyrir einstaka áföll eins og Borgarkringluna. Þegar upp er staðið má segja að verslunarsaga þar hafi verið einstaklega farsæl.


Í lok níunda áratugarins voru byggðar tvær samtengdar verslunar-, skrifstofu- og þjónustubyggingar sunnan verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar, sem síðar voru sameinaðar í Borgarkringluna. Síðar voru Borgarkringlan og Kringlan gerðar að einni verslunarheild og byggingarnar sameinaðar með tengi- og torgbyggingu. Auk þess hefur verið gert nýtt bílastæðahús í suðausturhorni svæðisins og tengibygging frá Borgarleikhúsinu yfir í Kringluna. Um verslunarsögu Kringlunnar hefur áður verið tæpt á í pistli hér. Nú eru uppi áform um stórfelda uppbyggingu í Kringlunni sem verður spennandi að sjá hvað verður úr.

Áður hefur verið skrifað um skipulagsmál hér í pistlum, samanber hér.     

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.