c

Pistlar:

21. júlí 2014 kl. 14:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Einkaframtakið og ferðaþjónustan

Þó vissulega sé ástæða til að hafa áhyggjur af þróun mála í ferðamannaiðnaði landsins er ekki annað hægt en að dáðst að þeim krafti sem einkennir ferðaþjónustuna og það einkaframtak sem hún hefur leyst úr læðingi. Þannig verður ekki annað séð en að tekist hafi að veita öllum þeim gistingu sem hingað koma þrátt fyrir að fjölgun ferðamanna sé gríðarleg milli ára. Að það skuli ekki hafa komið upp meiri skortur á gistirými en raun bera vitni sýnir glögglega að einkaframtakið hefur leyst málið. Horfur eru á að hingað komi 200 til 250 þúsund fleiri gestir en á síðasta ári en samt heyrist ekki annað en að allir fái gistingu. Annað hvort í nýjum hótelum eða íbúðagistingu sem hugvitssamir einstaklingar keppast nú við að koma upp. Vissulega heyrast umkvörtunarraddir um að verðlag sé hátt og að skatturinn sé sniðgenginn - verðum við ekki að kalla það vaxtarverki?

Þá sést að landsmenn eru hugmyndaríkir við að bjóða upp á afþreyingu og þjónustu og í sumum tilvikum ótrúlega fljótir að bregðast við. Margt snjallt hefur þar verið gert. Undirrituðum fannst til dæmis ótrúlegt að menn væru að bjóða upp á brimbrettasiglingar í fjörunni við Þorlákshöfn og kajaksiglingar í skurðum og tjörnum við Stokkseyri. Þetta og svo margt annað ber þess merki að hugmyndaauðgi er mikið og einkaframtakið er miklu fljótara að taka við sér en hið opinbera. Helsti flöskuhálsinn inn í landi er einmitt þar sem hið opinbera kemur að rekstri, nefnilega í Leifsstöð. Þar lengjast biðraðirnar stöðugt. Og það gerist reyndar víðar.

Um helgina var pistlahöfundur að ferðalagi um Suðurland. Ferðahópurinn hugðist koma við á Geysi og Gullfossi enda langt síðan margir í hópnum höfðu komið þangað. Mannfjöldinn við Geysi var slíkur að við treystum okkur ekki til að stoppa þar. Gullfoss reyndist heppilegri, mikil og góð bílastæði og mikil uppbygging á allri aðstöðu þar. Nú er auðvelt að komast að fossinum að ofanverðu frá nýjum útsýnisstöðum. Frekari bæting á aðstöðu bíður. Ekki veitir af því mannfjöldinn streymdi að. Við töldum 12 stórar rútur á bílastæðinu, margar minni og fjölda einkabíla. Þjónustan á staðnum vex hratt en salernisaðstaðan virðist strax sprunginn. Þrátt fyrir góðan vilja ræður eingin við fjölgunina.

2014-07-19 12.15.09

Spárnar fjarri sanni

Vissulega sjá allir að fjölgun ferðamanna er of hröð og langt umfram spár.  Í skýrslu sinni frá 2009 taldi Ferðamálastofa að ef gert væri ráð fyrir 8,3% árlegri aukningu ferðamanna að jafnaði líkt og verið hafði á Íslandi tíu ár á undan mætti gera ráð fyrir 1,2 milljónum ferðamanna til Íslands árið 2020. Í pistli hér fyrir stuttu var bent á að nú er enn eitt metárið í uppsiglingu en fjölgun erlendra ferðamanna varð tæplega 32% á fyrstu fimm mánuðum ársins. Það slær út metið frá því í fyrra þegar 30% aukning varð á komum ferðamanna fyrstu fimm mánuði ársins samanborið við árið á undan. Svona hröð aukning kallar á vandamál. Sumir sáu þetta fyrir.

„Innan fárra ára munu 2 milljónir ferðamanna koma hingað til lands. Við þurfum að sameinast um þjóðaráætlun til að taka vel á móti þeim, en að vera okkur sjálfum líka til hagsbóta. Tilviljun má ekki ráða för og ekki heldur deilur okkar á milli eða skak." Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í inngangsræðu sinni á 75 ára afmælisráðstefnu Icelandair Group sem haldin var 25. september 2012. Þar áréttaði forsetinn þessi orð sín með því að segjast vera sannfærður um að þetta væri sá raunveruleiki sem koma skuli og að hann væri alls ekki of fjarlægur.

Miðað við núverandi aukningu náum við 2 milljóna ferðamannamarkinu 2017 eða 2018. Þá munu koma ferðamenn til landsins sem nema tæplega 7 sinnum fjölda landsmanna. Til samanburðar má nefna að Grikkir eru um 10 milljónir talsins og þangað koma á milli 10 og 12 milljónir ferðamanna á ári. Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af einkaframtakinu, við verðum hins vegar að ná að marka okkur stefnu og viðeigandi lagaumgjörð til að geta tekið við þessum fjölda.  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.