c

Pistlar:

28. júlí 2014 kl. 17:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ferðamenn að taka yfir íbúðamarkaðinn?

Undanfarið hefur Morgunblaðið birt athyglisverðar fréttaskýringar um þróun ferðaþjónustunnar, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Framtak blaðsins er því merkilegra þar sem skortur er á góðri upplýsingagjöf um framvindu og breytingar á ferðaþjónustu. Eru meira að segja áhöld um hve nákvæmar og samanburðarhæfar tölur við fáum um það hve margir heimsækja landið. Brýnt er að bætt sé úr þessum tölugrunni þar sem ferðaþjónustan er að verða ein stærsta atvinnugrein landsins og sú sem skapar líklega mest ójafnvægi í hagkerfinu þessi misserin. Þá er hægt að slá því föstu að engin ein atvinnugrein mun hafa meiri áhrif á menningu landsmanna og sjálfsvitund þjóðarinnar. Allt gerir það að verkum að mikilvægt er að fylgjast vel með breytingum í greininni.

Greinaflokkur Morgunblaðsins (hér er bæði átt við það sem birtist á mbl.is og í blaðinu sjálfu) hefur dregið fram samspil ferðamannaiðnaðarins og fasteignamarkaðarins hér í Reykjavík. Sérstaklega eru áhrifin á íbúðamarkaðinn sláandi en ljóst er að stór hluti miðbæjarins er að hverfa úr ,,byggð" ef svo má segja. Eitt af því sem Morgunblaðið reynir að gera er að meta stærð leigu­markaðar­ins sem beint er að ferðamönn­um.  Þar kom fram að aug­lýst­ar íbúðir í Reykja­vík á leigu­vefn­um airbnb eru í heild 1.346 og hef­ur þeim fjölgað um 37% frá því á síðasta ári. Ríflega helmingur þeirra er í hverfi 101. Með öðrum orðum - á milli 600 og 800 íbúðir eru horfnar úr notkun sem hefðbundið íbúahúsnæði á þessu svæði. Fátt skýrir betur vöntun á húsnæði á þessum slóðum. Augljóslega mun þessi þróun hafa mikil áhrif á líf þeirra íbúa sem eftir eru á þessu svæði. Notkun á skólum og öðru því sem samfélagið lætur í té hlýtur sömuleiðis að minnka smámsaman þar sem þessi breyting hefur átt sér stað. Ekki er að sjá að bæjaryfirvöld hafi markað sér skýra stefnu í þessum málum eða átti sig yfir höfuð á því hvort þau þurfi að bregðast við.

2014-06-07 15.57.24

Umtalsverð áhrif á fasteignamarkað

En það er ekki bara miðbærinn sem verður fyrir áhrifum en talið er að á milli 1.500 til 2.000 íbúðir séu nú í ferðamannatengdri útleigu á höfuðborgarsvæðinu. Stöðug vöntun hvetur fleiri og fleiri til að bjóða upp á gistiaðstöðu. Sögur um ævintýralegan afrakstur - milljón í leigu á mánuði - ýta án efa á eftir. Þessi þróun hefur vitaskuld þau áhrif að að fast­eigna­verð hækk­ar. Því meira fram­boð sem er af slík­um íbúðum þeim mun meira hækk­ar leigu­verð og fast­eigna­verð. ,,Fram­boðið minnk­ar á hinum al­menna markaði. Þar af leiðandi verða eign­ir á al­menn­um markaði hærra verðlagðar, vegna þess að það er til svo lítið af eign­um," sagði einn af viðmælendum Morgunblaðsins og bendir á hið augljósa.

Þessi þróun hefur áhrif á öllum sviðum. Nýlega upplýsti stór verktaki pistlaskrifara um það að mjög erfitt væri að flytja inn erlent vinnuafl vegna þess að ekki væri hægt að bjóða upp á hentugt íbúðarhúsnæði. Í síðustu uppsveiflu fasteignamarkaðarins var mikið að gerast í byggingaframkvæmdum. Svo mikið að það þurfti að leysa vinnuaflsþörfina með innfluttu vinnuafli. Nú er ekki hægt að bjóða upp á hentugt húsnæði fyrir þessa starfsmenn.

Og ekkert lát virðist vera á fjölguninni eins og margoft hefur verið bent á hér í pistlum. Fjölg­un ferðamanna hér á landi hef­ur verið ótrúleg síðustu ár og er gert ráð fyr­ir að fjöldi þeirra í ár hafi nær tvö­fald­ast frá ár­inu 2010. Í ár eru horfur á að þau tímamót verði að ferðamenn nái einni milljón. Það sem meira er að ekkert lát er á hinni hlutfallslegu fjölgun milli ára. Það getur þýtt að við náum tveggja milljón ferðamanna markinu mun fyrr en nokkurn hefði órað fyrir, jafnvel strax árið 2017. Það er spá sem fæstir vona að rætist en við verðum samt að fara að búa okkur undir.  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.